Hoppa yfir valmynd
19. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 503/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 503/2022

Mánudaginn 19. desember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. október 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. september 2022, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. september 2022, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem hann hefði verið við vinnu úti á sjó eða í verktakavinnu á nánar tilgreindum dögum og því bæri honum að endurgreiða Vinnumálastofnun 253.134 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. október 2022. Með bréfi, dags. 17. október 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 1. nóvember 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. nóvember 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. nóvember 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. nóvember 2022. Athugasemdir bárust frá Vinnumálastofnun 17. nóvember 2022 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. nóvember 2022. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 19. nóvember 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. desember 2022, var óskað eftir nánari upplýsingum frá Vinnumálastofnun vegna kærunnar. Svar barst 7. desember 2022 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. desember 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Greiðslustofa Vinnumálastofnunar hafi í tölvupósti viðurkennt að skráning á „Mínum síðum“ vegna verktakavinnu hafi ekki virkað eða skilað sér til þeirra. Greiðslustofa sé að refsa kæranda fyrir brot sem Vinnumálastofnun/Greiðslustofa hefði getað komið í veg fyrir ef skráningarkerfi hefði verið í lagi. Þá hefði stofnunin getað reiknað mánaðarlega út þá daga sem kærandi hafi sannarlega verið úti á sjó og/eða veitt leiðbeiningar þannig að skráningar yrðu réttar.

Kærandi óski eftir heildarendurskoðun á greiðslustöðu hans vegna bréfs frá 19. september 2022. Þann 1. september 2022 hafi kærandi sent yfirlit yfir þá daga sem hann hafi réttilega verið úti á sjó og óskað eftir því að þær dagsetningar yrðu virtar. Enn hafi ekki borist svar frá Vinnumálastofnun. Samgöngustofa hafi veitt þær upplýsingar að ekki væri hægt að leiðrétta lögskráninguna. Kærandi hafi þegar sent fyrirspurn til ráðuneytis og stofnað mál hjá umboðsmanni Alþingis. Samkvæmt Samgöngustofu sé lögskráningarkerfið eingöngu ætlað til: „Tilgangur lögskráningar er að ganga úr skugga um að skip hafi haffæri, áhöfn hafi tilskilin réttindi og hafi lokið tilteknum öryggisfræðslunámskeiðum og að áhafnartryggingar skipsins séu í gildi. Lögskráningarkerfið heldur utan um menntun og þjálfun sjómanna og siglingatíma til atvinnuréttinda.“ Samgöngustofa bendi réttilega á að best sé að notast við skráningar Fiskistofu varðandi hvort viðkomandi bátur sé á sjó eða ekki. Um sé að ræða sjö metra trillu sem eingöngu einn maður sé á og hafi alltaf verið skráð í dagróðrakerfi sem heiti í dag strandveiðar.

Kærandi óski eftir að gerð verði grein fyrir því hvers vegna hann fái ofgreiddar bætur á þessum dagsetningum sem Vinnumálastofnun tilgreini.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann sé að setja út á útreikninga Vinnumálastofnunar og aðferðafræði. Í fyrsta lagi hafi skráningarkerfi Vinnumálastofnunar í sambandi við verktakavinnu ekki virkað í júní/júlí 2022. Í öðru lagi noti Vinnumálastofnun ranga opinbera stofnun, Samgöngustofu, í stað Fiskistofu til að rökstyðja þá daga sem kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur. Í þriðja lagi sé Vinnumálastofnun að krefjast endurgreiðslu á dögum sem séu helgidagar og lögboðnir frídagar. Í fjórða lagi sé verið að krefjast endurgreiðslu á dögum þar sem sjósókn sé bönnuð því að báturinn hafi verið á strandveiðum en það sé bannað að vera á sjó þrjá daga vikunnar. Í fimmta lagi sé verið að krefjast endurgreiðslu á dögum þar sem kærandi hafi ekki verið skráður á atvinnuleysisbætur. Einnig óski kærandi eftir að allar greiðslur í VR stéttarfélag verði endurgreiddar til hans þar sem VR hafi ekki móttekið neinar greiðslur vegna félagsgjalda frá 2. nóvember 2020 til 1. mars 2021. Kærandi sé ekki að draga í efa rétt Vinnumálastofnunar til að krefjast endurgreiðslu á þeim dögum sem hann hafi réttilega verið í verktakavinnu á sjó.

Ef tölvukerfi Vinnumálastofnunar hefði virkað hefði stofnunin getað brugðist við strax 20. júní 2022 þegar kærandi hafi skráð verktakadaga og staðfestingu á atvinnuleit. Í kjölfarið hefði stofnunin getað reiknað réttar bætur samkvæmt þeirri skráningu. Í staðinn vinni stofnunin málið eins og sakamál/lögbrot sem hann eigi ekki skilið. Þar sem kærandi hafi samviskusamlega skráð verktakadaga hefði stofnunin í framhaldinu getað veitt honum leiðbeiningar við skráningar eftir 20. júní 2022.

Kærandi mótmæli því að Samgöngustofa hafi sent upplýsingar til Vinnumálastofnunar eins og stofnunin haldi fram. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar hjá Samgöngustofu að lögfræðingur Greiðslustofu Vinnumálastofnunar hafi sótt skráninguna þann 17. ágúst 2022.

Kærandi óski eftir að gerð verði grein fyrir því hvers vegna hann fái ofgreiddar bætur á eftirfarandi dagsetningum. Þann 30. desember 2020 hafi báturinn ekki verið á sjó heldur í landi og því hljóti að vera um ranga skráningu að ræða. Það sama eigi við um 24. mars 2021. Varðandi tímabilið 6. til 30. apríl 2021 hafi kærandi samkvæmt launaseðli Vinnumálastofnunar endurgreitt þá upphæð þann 5. maí 2021. Kærandi skilji ekki hvers vegna 7. júní 2021 sé tilgreindur þar sem hann hafi ekki verið á bótum hjá Vinnumálastofnun. Það sama eigi við um tímabilið 14. til 17. júní 2021 en einnig beri að geta þess að það sé bannað að fara á sjó 17. júní þar sem það sé helgidagur. Eitthvað hafi skolast til varðandi dagsetningar árið 2022 þar sem Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi hafi verið 15 daga á sjó en það sé ekki rétt því að um 17 daga hafi verið að ræða árið 2022. Árið 2022 detti nokkrir dagar út vegna ofskráningar á lögskráningarsíðum, þ.e. 21. júní, 28. til 30. júní, 4. júlí, 6. júlí, 11. júlí, 14. júlí, 17. júlí (sem sé sunnudagur og því ranglega skráður þar sem um frídag sé að ræða), 18. júlí, 26. júlí því að báturinn hafi verið í landi, 27. júlí og 29. ágúst 2022. Dagurinn 20. júlí sé rétt tilgreindur þar sem kærandi hafi róið þá en landað daginn eftir þann 21. júlí 2022. Á vef Fiskistofu sé einfalt að sjá hvaða daga viðkomandi bátur fari á sjó og landi.

Af framangreindri upptalningu sé greinilegt að ekki sé gengið út frá réttum upplýsingum varðandi þessa endurgreiðslu/skuld kæranda við Vinnumálastofnun. Einnig megi sjá á greiðsluseðlum að áður hafi bætur frá apríl og maí 2021 verið leiðréttar. Kærandi telji að verið sé að rukka hann í annað sinn fyrir árin 2020 til 2021.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að það sé hreint ótrúlegt að starfsmaður Vinnumálastofnunar vilji meina að hann geti haft samband við stofnunina með fjölmörgum leiðum og aðferðum. Af hverju ætti kærandi að gera það þegar tölvukerfi Vinnumálastofnunar svari rétt, þ.e. „Skráning tókst“, en rúmum tveimur mánuðum síðar viðurkenni Vinnumálastofnun að skráningar hafi ekki skilað sér. Kærandi sé að benda á að hann hefði aldrei verið í skuld við Vinnumálstofnun ef skráningarkerfi stofnunarinnar hefði virkað. Vinnumálastofnun hafi borið að hafa samband við kæranda vegna þessara skráninga og/eða vegna rangrar skráningar hans strax eftir 20. júní 2022 en ekki 1. september 2022. Kærandi sé ekki að mótmæla 3. mgr. 39. gr. og það ætti Vinnumálstofnun að vera ljóst.

Kærandi tekur fram að það sé enginn að fetta fingur út í lög nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna. Vinnumálastofnun sé aðeins að flækja málið og taki eingöngu það með sem henti og blási á það sem Samgöngustofa sjálf haldi fram um að lögskráningarkerfið sé til að halda utan um menntun sjómanna en Fiskistofa haldi utan um hvenær viðkomandi hafi verið á sjó eða ekki. Það sé ánægjulegt að Vinnumálastofnun noti „eftir atvikum“ Fiskistofu en það eigi greinilega ekki við í hans máli. Ekki sé minnst á að skilyrði lögskráningar séu þau að skipið hafi gilt haffæriskírteini, áhafnatrygging sé í gildi og að skráningarkefi sjómanna sé aðallega haldið úti til að stuðla að því að skip eða trilla hafi þá um borð sem hafi þau réttindi til að vera þar við stjórn og vinnu. Einnig finnist kæranda skrýtið að Vinnumálastofnun vitni í gömul lög þegar uppfærsla á þessum lögum sé frá 2019 og aftur árið 2020, sbr. tilkynningu á vef Samgöngustofu: „Lögskráningaraðilar athugið Uppfærslum vegna breytinga á lögum nr. 166/2019 og nýrrar reglugerðar nr. 944/2020 er lokið. Nánari upplýsingar má finna hér: https://www.samgongustofa.is/siglingar/skirteini-og-nam/skirteini/atvinnuskirteini/15-metra-rettindi/“

Af svari Vinnumálastofnunar sé greinilegt að svar kæranda hafi ekki verið lesið varðandi alla þá daga sem hann hafi talið upp og þær athugasemdir sem hann hafi gert við hvern dag. Þó sé ánægjulegt að sagt sé að stofnunin taki mið af þeim dögum, eftir atvikum Fiskistofu, þó að það eigi ekki við í hans máli. Það sama eigi við um þá daga sem kærandi telji upp og geri athugasemdir við. Þann 30. desember 2020 hafi skipið X ekki verið á sjó samkvæmt Landhelgisgæslunni því að báturinn hafi verið á kerru uppi á landi. Því hljóti skráning að vera röng. Það sama eigi við um 24. mars 2021. Samkvæmt launaseðli frá Vinnumálastofnun 5. maí 2021 hafi kærandi endurgreitt upphæð vegna 6. til 30. apríl 2021. Kærandi skilji ekki hvers vegna 7. júní 2021 sé tilgreindur þar sem hann hafi ekki verið á bótum hjá Vinnumálastofnun. Það sama eigi við um tímabilið 14. til 17. júní 2021 en einnig sé bannað að fara á sjó 17. júní þar sem hann sé helgidagur.

Það sé gott mál að greiðslur vegna VR verði bakfærðar en einnig óski kærandi eftir að frádráttur í séreignarsjóð frá 30. september 2022 verði bakfærður þar sem hann hafi ekki óskað eftir að greiða í séreignarsjóð eftir Covid-19, eða árið 2022. Það sé rétt hjá Vinnumálastofnun að kærandi hafi sótt um að vera skráður í VR árið 2010 en ekki árin 2020 til 2022.

Kærandi upplifi í þessu máli eins og öðrum málum að Vinnumálstofnun sé gagngert að gera málin flóknari en þau ættu að vera með því að senda óteljandi gögn og afrit og setja inn alls konar lagagreinar og bálka sem í mörgum tilfellum hafi ekkert með málið að gera. Kærandi upplifi að með því að flækja málin nógu mikið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála og kærendum vonist Vinnumálastofnun til að viðkomandi kærandi gefist upp. Kærandi hafi haldið að Vinnumálastofnun væri stofnun undir félagsmálaráðuneyti til að aðstoða þá sem hafi tímabundið misst atvinnu eins og eigi við um kæranda vegna Covid-19 árin 2020 til 2022 en ekki að vera að níðast á skjólstæðingum sínum eins og hann upplifi.

Kærandi fái greidd 56% af heildaratvinnuleysisbótum og geti engan veginn lifað af því. Þess vegna muni um hverja krónu sem kærandi sé ranglega krafinn um endurgreiðslu á. Kærandi sé að benda á að hann hefði aldrei verið í skuld við Vinnumálstofnun ef skráningarkerfi stofnunarinnar hefði virkað. Vinnumálastofnun hafi borið að hafa samband við kæranda vegna þessara skráninga og/eða rangrar skráningar hans strax eftir 20. júní 2022 en ekki 1. september 2022. Þá bendi kærandi á að hann sé með mál hjá umboðsmanni Alþingis vegna neitunar Samgöngustofu á að leiðrétta rangar lögskráningar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga 29. október 2021 og að umsókn hans hafi verið samþykkt þann 2. desember 2021. Útreiknaður bótaréttur kæranda sé 56%. Í ágúst 2022 hafi Vinnumálastofnun borist upplýsingar frá Samgöngustofu um að kærandi hefði verið lögskráður á skip á tímabilinu 30. desember 2020, 24. mars 2021, 6. til 30. apríl 2021, 7. júní 2021, 14. til 17. júní 2021, 21. júní 2022, 28. til 30. júní 2022, 4., 6., 11., 14., 17., 18., 20., 21., 26. til 27. júlí 2022 og 29. ágúst 2022. Kærandi hafi ekki tilkynnt um þá vinnu fyrir fram. Með bréfi, dags. 1. september 2022, hafi því verið óskað eftir skýringum kæranda á óuppgefnum tekjum og af hverju kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna um vinnu sína úti á sjó. Sama dag hafi borist skýringar frá kæranda. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði látið vita af þessari vinnu sinni þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga en í skýringum kæranda komi fram:

„Ef kerfið ykkar virkar þá eigið þið að sjá að ég hef samviskusamlega tilkynnt Vinnumálastofnun á mínum síðum um að ég hafi fengið verktakavinnu dag og dag frá 07. Júní til 29. Ágúst. Samhliða því að þiggja þessa smánarlegu ölmusu frá Vinnumálastofnun uppá 56% af fullum atvinnuleysis bótum Þar sem mig grunar að kerfið virkar ekki hjá ykkur lista ég upp hér að neðan þá daga sem ég stundaði verktakavinnu. 07. júní 14. Júní 15. Júní 16. Júní 21. Júní 28. Júní 29. Júní 30. Júní 04. Júlí 06. Júlí 11. Júlí 14. Júlí 18. Júlí 21. Júlí 27. Júlí 29. Ágúst.“

Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið til afgreiðslu á Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Þann 19. september 2022 hafi kæranda verið tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta þann tíma sem hann hafi verið við vinnu úti á sjó og að honum bæri að endurgreiða þær bætur sem honum hafi verið greiddar fyrir þann tíma. Kæranda hafi því verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 235.134 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi komið fram í bréfi til kæranda að ofgreiddar atvinnuleysisbætur yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Í g. lið 1. mgr. 14. gr. laganna segi ,,á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við.“ Ljóst sé að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði g. liðar 1. mgr. 14. gr. laganna á þeim tíma er hann hafi verið í vinnu úti á sjó.

Ákvæði 35. gr. a. sé svohljóðandi:

„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“

Á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem sú skylda sé ítrekuð. Þannig segi í 3. mgr. 9. gr. laganna að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir eða ef atvinnuleit sé hætt.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi starfað úti á sjó á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Að sögn kæranda hafi hann tilkynnt um þessa vinnu sína. Engar upplýsingar úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar eða gögn sem kærandi hafi fært fram í málinu bendi til þess að kærandi hafi tilkynnt um vinnu sína. Vinnumálastofnun hafi fyrst verið kunnugt um vinnu kæranda eftir að gögn hafi borist frá Samgöngustofu í ágúst 2022. Kærandi hafi meðal annars lagt fram yfirlit frá Fiskistofu. 

Í 15. gr. laganna sé fjallað um ávinnslutímabil og hvenær einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum. Í 7. mgr. ákvæðisins segi að vinnuframlag sjómanna taki mið af fjölda lögskráningardaga og það sé mat stofnunarinnar að kærandi eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta á meðan hann hafi verið lögskráður á skip sitt. Lög nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna gildi um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi sem gerð séu út í atvinnuskyni. Markmið laganna samkvæmt 1. gr. sé að tryggja að skipverjar hafi gild skírteini til þess að starfa um borð í skipi, að skip hafi gilt haffærisskírteini og að lögboðin áhafnartrygging sé í gildi. Þá sé það einnig markmið laganna að „tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni og að siglingatími skipverja sé skráður“. Í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna segi enn fremur að lögskráning sé lögformleg skráning skipverja um borð í skipum í gegnum lögskráningarkerfið, að uppfylltum skilyrðum 5. gr. laganna. Í 4. gr. laga um lögskráningu sjómanna segi að skipstjóri skuli sjá til þess að allir skipverjar sem séu ráðnir til starfa um borð í skipi séu lögskráðir í skiprúm. Að sama skapi skuli skipstjóri sjá til þess að skipverji sé lögskráður úr skiprúmi þegar veru hans um borð ljúki. Jafnframt komi fram í 2. mgr. lagana að óheimilt sé að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm. Þetta gildi þó ekki í neyðartilvikum. Samkvæmt 5. gr. laganna ber skipstjóri ábyrgð á því að lögskráning fari fram í gegnum lögskráningarkerfið með rafrænum hætti.

Af framangreindu sé ljóst að lögskráning sjómanna hafi veruleg áhrif á réttarstöðu aðila. Röng skráning hafi víðtæk áhrif og brot gegn lögunum eða tilraun til brots varði sektum eða fangelsisvist, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2010. Opinberri skráningu Samgöngustofu sé meðal annars ætlað að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi, hver siglingatími þeirra sé og hvort lögboðin áhafnartrygging sé til staðar.

Einnig beri að líta til þess að lögskráningardagar kæranda leiði til ávinnslu samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki verði séð að kærandi eigi rétt á atvinnuleysibótum fyrir sama tímabil og ávinni honum rétt til atvinnuleysistrygginga. Í þessu samhengi vísist til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 55/2017.

Í ljósi þess sem að framan greini verði ekki fallist á að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og lögbundin opinber skráning tilgreini hann úti á sjó, enda uppfylli hann ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þrátt fyrir þau gögn sem kærandi hafi fært fram í máli þessu telji Vinnumálastofnun sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur fyrir sama tíma og hann hafi verið skráður á skip sitt. Berist upplýsingar frá Samgöngustofu um breytingar á lögskráningu kæranda muni stofnunin taka mál hans fyrir að nýju.

Þar sem kærandi hafi fengið greidd laun á meðan hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga sé ljóst að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 30. desember 2020, 24. mars 2021, 6. til 30. apríl 2021, 7. júní 2021, 14. til 17. júní 2021, 21. júní 2022, 28. til 30. júní 2022, 4., 6., 11., 14., 17., 18., 20., 21., 26. til 27. júlí 2022 og 29. ágúst 2022, samtals að fjárhæð 235.134 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 en þar segi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Ofgreiddar atvinnuleysisbætur séu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi til laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Kæranda beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 því til stuðnings.

Vert sé að taka fram að engin viðurlagaákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda né bætt við álagi á skuld kæranda við stofnunina. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Í athugasemdum Vinnumálastofnun er tekið fram í samhengi við tilvísun kæranda um að skráningarkerfi stofnunarinnar hafi ekki virkað í júní/júlí 2022 að atvinnuleitendur geti haft samband við stofnunina með fjölmörgum leiðum og aðferðum. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur séu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum atvinnuleitanda. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi til laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Kæranda beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 því til stuðnings.

Varðandi tilvísun kærandi til þess að Vinnumálastofnun noti ranga opinbera stofnun, Samgöngustofu í stað Fiskistofu, til að rökstyðja þá daga sem hann hafi fengið ofgreiddar bætur sé það sem fram hafi komið í greinargerð stofnunarinnar frá 1. nóvember 2022 ítrekað. Í sambærilegu máli úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 55/2017 frá 27. apríl 2017 segi orðrétt:

„Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Óumdeilt er að kærandi var lögskráður á skip á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar lýtur að. Í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna kemur fram að lögskráningarkerfi sé rafrænn gagnagrunnur sem visti upplýsingar um lögskráningar. Samgöngustofa reki gagnagrunninn en veiti aðgang að honum til lögskráningar. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 35/2010 skal skipstjóri sjá til þess að allir skipverjar, sem eru ráðnir til starfa um borð í skipi skráðu hér á landi, séu lögskráðir í skiprúm áður en haldið er úr höfn. Í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að óheimilt sé að leggja úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm og þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé lögskráður úr skiprúmi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 35/2010 er markmið þeirra meðal annars að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni og að siglingartími skipverja sé skráður. Að framangreindu virtu er ljóst að taka skal mið af upplýsingum úr lögskráningarkerfi Samgöngustofu við mat á því hvort skilyrði laga nr. 54/2006 séu uppfyllt.

Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á sama tíma og hann var lögskráður á skip.“

Vinnumálastofnun telji ekki ástæðu til að svara athugasemd kæranda um að stofnunin sé að krefjast endurgreiðslu vegna daga þar sem sjósókn sé bönnuð því að báturinn hafi verið á strandveiðum og það sé bannað að vera á sjó þrjá daga vikunnar að öðru leyti en því að engu breyti þótt um sé að ræða helgidaga og lögboðna frídaga. Stofnunin taki mið af þeim dögum er kærandi sé skráður úti á sjó samkvæmt opinberum gögnum Samgöngustofu og eftir atvikum Fiskistofu á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Stofnunin hafni því að verið sé að krefjast endurgreiðslu á dögum er kærandi hafi ekki verið skráður á atvinnuleysisbætur og vísi í því samhengi til gagna málsins.

Þegar kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvort hann vildi greiða í stéttarfélag og ef svo væri hafi kærandi þurft að skrá hvaða stéttarfélag hann hygðist greiða í. VR hafi hafnað iðgjöldum vegna kæranda en vegna rangrar skráningar í kerfi stofnunarinnar hafi þær greiðslur verið dregnar af atvinnuleysisbótum kæranda án þess að skila sér til VR. Umræddar greiðslur verði bakfærðar vegna tímabilsins 2. nóvember 2020 til 1. mars 2021.

Að öðru leyti ítreki stofnunin það sem fram komi í greinargerð frá 1. nóvember 2022.

Í svari Vinnumálastofnunar frá 7. desember 2022 kemur fram að kærandi hafi verið skráður í 10% hlutastarf hjá B á tímabilinu 1. mars til 30. apríl 2021. Þann 7. apríl 2021 hafi kærandi verið skráður í hlutastarfið og því komi leiðrétting fram afturvirkt vegna marsmánaðar, þ.e. 1. til 31. mars. Þann 30. apríl 2021 hafi verið gerð leiðrétting vegna 10% hlutastarfsins. Um sé að ræða tímabilið 1. til 31. mars 2021 og því leiðrétting vegna marsmánaðar. Þann 5. maí 2021 hafi framangreindri skuld verið skuldajafnað við útborgun þann mánuðinn, þ.e. vegna aprílmánaðar. Þá tekur Vinnumálastofnun fram að í hinni kærðu ákvörðun séu dagarnir 7. júní og 14. til 17. júní ranglega tilgreindir á árinu 2021. Hið rétta sé árið 2022.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. september 2022, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem kærandi var við vinnu úti á sjó eða í verktakavinnu, að fjárhæð 253.134 kr. Í bréfi Vinnumálastofnunar var tekið fram að um væri að ræða eftirfarandi daga: 30. desember 2020, 24. mars 2021, 6. til 30. apríl 2021, 7. júní 2021, 14. til 17. júní 2021, 21. júní 2022, 28. til 30. júní 2022, 4., 6., 11., 14., 17., 18., 20., 21., 26. og 27. júlí 2022 sem og 29. ágúst 2022. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var um misritun að ræða varðandi 7. júní 2021 og 14. til 17. júní 2021. Réttar dagsetningar séu 7. júní 2022 og 14. til 17. júní 2022.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum en eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Óumdeilt er að kærandi var lögskráður á skip þá daga sem endurgreiðslukrafan lýtur að. Í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna kemur fram að lögskráningarkerfi sé rafrænn gagnagrunnur sem visti upplýsingar um lögskráningar. Samgöngustofa reki gagnagrunninn en veiti aðgang að honum til lögskráningar. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 35/2010 skal skipstjóri sjá til þess að allir skipverjar, sem eru ráðnir til starfa um borð í skipi skráðu hér á landi, séu lögskráðir í skiprúm áður en haldið er úr höfn. Í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að óheimilt sé að leggja úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm og þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé lögskráður úr skiprúmi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 35/2010 er markmið þeirra meðal annars að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni og að siglingartími skipverja sé skráður. Að framangreindu virtu er ljóst að taka skal mið af upplýsingum úr lögskráningarkerfi Samgöngustofu við mat á því hvort skilyrði laga nr. 54/2006 séu uppfyllt. 

Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á sama tíma og hann var lögskráður á skip. Að því virtu átti hann ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og er því ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest. Hvað varðar beiðni kæranda um að frádráttur í séreignarsjóð frá 30. september 2022 verði bakfærður bendir úrskurðarnefndin á að beina skal því erindi til Vinnumálastofnunar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. september 2022, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta