Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stafræn nýsköpunargátt fyrir nýsköpunarumhverfi og frumkvöðla

Samið hefur verið við sjálfstætt starfandi upplýsingavefinn skapa.is um að halda úti stafrænni nýsköpunargátt. Vefurinn hefur þegar fest sig í sessi í frumkvöðlasamfélaginu en fær nú aukið hlutverk sem stafræn nýsköpunargátt sem er í senn efnisveita og upplýsingamiðlun fyrir frumkvöðla og aðra aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku nýsköpunarumhverfi. Frumkvöðullinn Ólafur Örn Guðmundsson er eigandi og höfundur skapa.is og mun hann leiða og stýra verkefninu.

Markmið gáttarinnar er að hún verði alhliða upplýsingaveita fyrir frumkvöðla á Íslandi, leiðarvísir og gagnleg upplýsingamiðlun um nýsköpun og stuðningsumhverfi hennar. Á vefnum verða yfirlit og upplýsingar um innlenda og erlenda viðburði, innlenda og erlenda hraðla, hakkaþon og klasa. Þá verða einnig nytsamlegar upplýsingar um nýsköpunarsamfélög, stuðningsaðila, nýsköpunarsetur og smiðjur auk upplýsinga um fjármögnunarumhverfið, styrki, sjóði og fjármögnunarleiðir. Loks verða skjöl of verkfæri fyrir frumkvöðla sem eru á byrjunarstigi gerð aðgengileg auk greiningartækja, kennsluefnis og upplýsingar um nýsköpunarumhverfið á landsbyggðinni, flokkað eftir landshlutum.

,,Það eru ótrúlega margir spennandi og mikilvægir hlutir að gerast í umhverfi nýsköpunar um allt land. Upplýsingagjöf hefur verið of flókin og óskýr en með gáttinni erum við að einfalda aðgengi til muna til hagsbóta fyrir alla,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ýtt undir hagkerfið með öflugum stuðningi við nýsköpun

Tilkoma nýsköpunargáttarinnar styður við aðgerð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að ýtt verði undir vaxtargetu hagkerfisins með öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun í þeim tilgangi að festa hugvitið sem nýja stoð efnahagslífsins betur í sessi. Þá samræmist verkefnið einnig áherslum í fjármálaáætlun á sviði nýsköpunar.

Nýsköpunargáttin skapa.is sprettur úr lögum um opinberan stuðning við nýsköpun nr. 25/2021 þar sem segir að ráðherra nýsköpunar skuli setja á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun og tryggja að ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunarverkefna sé gjaldfrjáls og aðgengileg hvar sem er á landinu, m.a. þegar kemur að leiðsögn við umsóknarferli innan stuðningsumhverfis nýsköpunar Gáttin er einnig liður í aðgerðaáætlun Byggðaáætlunar 2022-2026 um stafræna nýsköpunargátt fyrir frumkvöðla og fræðslu og stuðningsaðila nýsköpunar um land allt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta