Hoppa yfir valmynd
13. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Frumvarp til fjárlaga 2024: Áhersla lögð á bætta túlkaþjónustu heyrnarlausra og heyrnarskertra

Í nýkynntu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að 45 m.kr. verði varið í málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun. Þar af eru 37,5 m.kr. settar í aðgerðir hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og 7,5 m.kr. eru m.a. vegna stofnunar nýs sjóðs um túlkun í daglegu lífi.

Upp getur komið sú staða að allir táknmálstúlkar séu uppteknir. Til þess að bregðast við tilfellum þar sem miðstöðin reynist ekki unnt að veita umrædda táknmálstúlkun í daglegu lífi eða kjósi notandi að leita annað eftir túlkaþjónustu munu notendur geta sótt fjármagn í fyrir veitta þjónustu hjá sjálfstætt starfandi táknmálstúlkum úr hinum væntanlega sjóði, en sjóðurinn verður hrein viðbót við núverandi túlkaþjónustu í daglegu lífi sem stendur til boða.

Aukin lífsgæði

„Bætt túlkaþjónusta er mikilvægur hluti af aðgerðaáætlun vegna íslensks táknmáls sem verður ánægjulegt að hrinda til framkvæmdar og forgangsraða fjármunum í. Aukin þjónusta við táknmálstalandi fólk gerir því kleift að taka fyllri þátt í samfélaginu en ella og stuðla að auknum lífsgæðum þess,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Mikil gróska er í málefnum íslensks táknmáls um þessar mundir. Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls ásamt aðgerðaáætlun er á þingmálaskrá haustþings. Hún var birt í samráðsgátt Stjórnvalda 12. maí 2022 og er hægt að nálgast hana á vef Samráðsgáttar. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra verður falin meginábyrgð á framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætlun eftir því sem við á.

Íslenskt táknmál (ÍTM) er hefðbundið minnihlutamál á Íslandi skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta