Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 2/2018 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 2/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120006

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. desember 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari Ísrael (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2017, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem ákvarðað var að kæranda skyldi vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, verði felld úr gildi.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. september 2016. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. mars 2017, hafi þeirri umsókn kæranda verið synjað. Kærandi hafi kært þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála sem hafi staðfest ákvörðun stofnunarinnar með úrskurði nr. 376/2017, dags. 29. júní 2017. Þann 14. september 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku á því máli sem lauk með úrskurði kærunefndar nr. 376/2017. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 585/2017, dags. 26. október 2017, var þeirri beiðni kæranda hafnað. Þann 15. nóvember 2017, ákvað Útlendingastofnun að kæranda skyldi vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma hingað til lands í tvö ár. Þann 28. nóvember 2017 óskaði kærandi öðru sinni eftir endurupptöku á því máli sem lauk með úrskurði nr. 376/2017. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 678/2017 frá 14. desember 2017 var þeirri endurupptökubeiðni kæranda hafnað. Með kæru, dags. 4. desember 2017, kærði kærandi til kærunefndar ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann, dags. 15. nóvember 2017. Kæra barst innan kærufrests, sbr. 7. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 12. desember 2017. Með bréfi kærunefndar til kæranda, dags. 12. desember 2017, var fallist á frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 17. mars 2017, um synjun á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi henni verið veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar. Ákvörðun Útlendingastofnunar hafi síðan verið staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 29. júní 2017. Kærandi hafi hins vegar ekki yfirgefið landið innan veitts frests og því bæri Útlendingastofnun, að teknu tilliti til 102. gr. laga um útlendinga, að vísa kæranda úr landi, sbr. a. lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að ekkert hefði komið fram sem leitt gæti til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart henni eða nánustu aðstandendum hennar með hliðsjón af tengslum hennar við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Í niðurstöðu sinni vísaði Útlendingastofnun m.a. til þess að stofnuninni væri heimilt og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi. Var kæranda því vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt ákvæða laga nr. 80/2016 um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ákvörðunar í máli hennar, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu 12. gr. laganna. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, þar sem mælt er fyrir um að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Meta þurfi heildaraðstæður í málinu með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þar sem umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi ekki verið bersýnilega tilhæfulaus hafi Útlendingastofnun brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga með ákvörðun sinni, enda feli brottvísun kæranda í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Í 2. mgr. 104. gr. segir m.a. að í þeim tilvikum þar sem ákvörðun felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið skuli lagt skriflega fyrir hann að hverfa á brott. Að jafnaði skuli Útlendingastofnun veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfur. Í 102. gr. er m.a. kveðið á um vernd gegn brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun en samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laganna felur brottvísun í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.

Eins og rakið hefur verið lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. september 2016. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2017, var umsókn kæranda synjað. Í ákvörðun stofnunarinnar og birtingarvottorði kemur fram að kæranda hafi verið veittur fimmtán daga frestur til að yfirgefa landið. Þá var kæranda tilkynnt að yfirgæfi hún ekki landið innan veitts frests yrði tekin ákvörðun um brottvísun og endurkomubann. Ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana með úrskurði, dags. 29. júní 2017, en úrskurðurinn var birtur fyrir kæranda þann 3. júlí 2017. Kærandi óskaði ekki eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr.

Af framangreindu er ljóst að eftir birtingu úrskurðar kærunefndar útlendingamála þann 3. júlí 2017 hafði kærandi fimmtán daga frest til þess að yfirgefa landið sjálfviljug. Kærandi mun hins vegar enn vera stödd hér á landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. nóvember 2017 var kæranda gefinn kostur á að andmæla mögulegri brottvísun og endurkomubanni auk þess sem hún fékk tækifæri til þess að svara sérstaklega hvort hún teldi þá ráðstöfun ósanngjarna. Kærandi mótmælti þeim reglum sem gilda um brottvísun og endurkomubann og taldi þá ákvörðun ekki sanngjarna í sinn garð. Þá var kærandi spurð út í tengsl við Ísland auk annarra Schengen ríkja. Kvaðst kærandi ekki hafa slík tengsl.

Atvik málsins gefa ekki tilefni til að ætla að brottvísun kæranda geti falið í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, en við það mat hefur kærunefnd m.a. litið til þess að ástæða brottvísunarinnar er að kærandi hefur ekki heimild til dvalar hér á landi. Þá er það mat kærunefndar að brottvísun kæranda komi ekki til með að fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart nánustu aðstandendum kæranda og hefur við það mat verið litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda sem koma til með að fylgja henni til heimaríkis. Samkvæmt framansögðu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda staðfest með vísan til a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda hafi hún ekki yfirgefið landið innan veitt frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en í tvö ár.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 


 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                        Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta