Hoppa yfir valmynd
20. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands 19. júní

Að lokinni afhendingu styrkja - mynd

Afhending styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands fór fram við hátíðlega athöfn í Iðnó í gær. Tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar og voru styrkir veittir til verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrkina.

Þetta er í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður í fyrra með ályktun Alþingis nr. 13/144, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Markmiðið er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 milljónir króna ár ári, til ársloka 2020 og starfar samkvæmt reglum sem um hann gilda nr. 365/2016.

Alls bárust 114 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og var heildarfjárhæðin sem sótt var um 570 milljónir króna. Að þessu sinni hlutu 42 umsækjendur styrki. Í samræmi við reglur leggur stjórn sjóðsins áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnhagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

 

Upplýsingar um styrkþega og verkefni þeirra:

Agnes Gísladóttir – 1.500.000 kr.
„Fæðingarútkomur kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi: Einkenni nýburans“

Markmið verkefnisins er að skoða hvort samband sé á milli útsetningar (e.exposure) kvenna fyrir kynferðisofbeldi á unglings- eða fullorðinsárum og óæskilegra útkoma tengdum meðgöngu og fæðingu síðar á lífsleiðinni. Í þeim hluta verkefnisins sem þessi rannsókn snýr að verður skoðað hvort nýburar kvennanna séu í aukinni áhættu á óæskilegum einkennum við fæðingu, samanborið við nýbura kvenna sem ekki hafa orðið fyrir slíku ofbeldi.

Anna Magnea Hreinsdóttir – 1.000.000 kr.
„Ekki vera yfir aðra hafin, né undir aðra gefin heldur standa jafnfætis öðrum“

Meginmarkmið verkefnisins er að efla sjálfsmynd drengja og stúlkna í skólum Borgarbyggðar. Áhersla verði lögð á að vinna sérstaklega með fimm, tíu og fimmtán ára drengi og stúlkur. Mótuð verða námskeið sérsniðin annars vegar að drengjum og hins vegar að stúlkum sem haldin verða árlega. Tilgangur námskeiðanna er að vinna sérstaklega með sjálfsmynd drengja með námsefni sem hæfir drengjum. Einnig að vinna sérstaklega með sjálfsmynd stúlkna með námsefni sem hæfir stúlkum.

Anna María Jónsdóttir – 1.000.000 kr.
„Rannsókn á tíðni áfalla í æsku hjá íslenskum konum og tengsl við heilsufar“

Rannsóknin er megindleg rannsókn og gefur lýðheilsufræðilegar upplýsingar á stóru úrtaki kvenna. Tilgangur rannsóknarinnar er að endurtaka ACE (Adverse Childhood experience) rannsóknina sem gerð var í USA 1997-1999 sem sýndi að 10 algengustu áföll í bernsku tengdust ofbeldi af öllu tagi vanrækslu og geðrænum veikindum eða fíknisjúkdómi í fjölskyldu, heimilisofbeldi, skilnaði eða missir foreldris, vegna dauðsfalls, brotthvarfs eða fangelsun. Fjöldi áfalla hafði forspárgildi varðandi heilsufar einstaklingsins síðar á ævinni.

arCus films – 2.000.000 kr.
„Islandia“

Stuttmyndin Islandia er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um íslenska stúlku sem fer í sumarfrí til Tyrklands, starfsmaður hótelsins sem hún dvelur á brýst inn á herbergi hennar um miðja nótt og nauðgar henni. Hún reynir að kæra verknaðinn en er sett í tyrkneskt fangelsi fyrir vikið. Helstu markmiðin eru að koma myndinni í framleiðslu til að undirstrika mikilvægi þess að varpa ljósi á þá atburði sem eiga sér stað út um allan heim en það er kynbundið ofbeldi og þöggunin sem á sér stað.

Arna Hólmfríður Jónsdóttir – 3.000.000 kr.
„Karlar í yngri barna kennslu“

Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og hins vegar að fjölga þeim í starfi. Útbúið verður fræðsluefni fyrir náms- og starfsráðgjafa grunn- og framhaldsskóla svo og efni til notkunar með nemendum í efri bekkjum grunnskólans og í framhaldsskólum. Fræðsluefnið verður um starf yngri barna kennara og þá möguleika sem felast í námi í leikskólakennarafræðum.

Ársæll Már Arnarsson – 1.200.000 kr.
„Jafnrétti og íslenskir unglingar“

Markmið verkefnisins eru fjögur: Í fyrsta lagi að rannsaka breytingar á viðhorfum unglinga til jafnréttismála. Í öðru lagi að skoða áhrif foreldraorlofs á tengsl unglinga við foreldra. Í þriðja lagi að skoða nánar kynferðislegt ofbeldi og áreitni gagnvart unglingum og í fjórða lagi að greina jafnréttishugmyndir unglinga niður á skóla og skapa þar með möguleika til þess að árangursmæla mismunandi fræðsluleiðir í þessum efnum.

Ásrún Matthíasdóttir – 2.000.000 kr.
„Kynbundin líðan og námsgengi nemenda í tækninámi“

Í þessari rannsókn verður sérstaklega hugað að áhrifum menntunar og er meginmarkmið að varpa ljósi á kynbundna líðan og námsgengi nemenda í tækninámi. Rannsóknin getur gert tækninám aðgengilegar konum og þannig stuðlað að því að fleiri konur sæki um námið. Markmiðið er að kanna hvort tengsl eru á milli þess hvernig nemendum í tækninámi líður, þess náms- og starfsumhverfis sem þeir lifa í og námsgengis.

Bára Baldursdóttir – 3.000.000 kr.
„Kynlegt stríð. Ríkisafskipti af íslenskum konum og hermönnum í síðari heimsstyrjöld“

Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á þá atburðarás sem varð þess valdandi að gripið var til stórfelldra afskipta af samskiptum íslenskra kvenna og setuliðsmanna í síðari heimsstyrjöld. Aðferðarfræði kynjasögunnar verður höfð að leiðarljósi í rannsókninni. Ætlunin er að rannsaka hvernig hugmyndir um kvenlega og karllega eiginleika mótuðu samfélagslega stöðu kynjanna á þessum tíma. Áhersla verður lögð á að greina orðræður um þjóðerni, kyngervi og vald í þeim tilgangi að varpa ljósi á þær skorður sem samfélagið setti íslenskum konum sem stigu út fyrir þau mörk sem þeim voru ætluð í þjóðernislegri orðræðu.

Bryndís Gunnlaugsdóttir Holm – 1.000.000 kr.
„Fjölgum kvenþjálfurum í körfuknattleik“

Markmið verkefnisins er að fjölga kvenþjálfurum í körfuknattleik á Íslandi með því að halda þjálfaranámskeið eingöngu fyrir konur. Kennari námskeiðsins verður Brynjar Karl Sigurðsson. Námskeiðið stendur yfir í 9 mánuði og í lok þess eiga konurnar að vera komnar með þekkingu til að koma sér í fremstu röð þjálfara hér á landi innan fárra ára. Námskeiðið er þáttur í því að auka jafnrétti kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar, stækka tengslanet kvenna og auka sjálfstraust þeirra til þátttöku á öðrum sviðum samfélagsins.

Brynhildur G. Flóvenz – 2.000.000 kr.
„Konur og karlar í Hæstarétti – Greining á undirbúningi og skipan í störf dómara á Íslandi.“

Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á skipan í störf héraðsdómara og hæstaréttardómara á Íslandi út frá sjónarhorni kynjafræði og kvennaréttar. Um er að ræða rannsókn á undirbúningi og skipan/setningu í störf hæstaréttardómara og héraðsdómara.

Elinóra áhugafélag um kvikmyndir og fræðslu / Brynhildur Björnsdóttir – 4.000.000 kr.
„Myndin af mér - fræðslustuttmynd um sexting, hrelliklám og stafræn borgararéttindi“

Meginmarkmið stuttmyndarinnar „Myndin af mér“ er að notast við þá árangursríku aðferð sem þróuð var við gerð myndanna „Fáðu já!“ og „Stattu með þér!“ til að koma mikilvægri fræðslu til barna á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Samhliða því sem kynferðisleg samskipti ungmenna hafa færst í auknum mæli inn á netið hefur þörfin fyrir að innlima netsamskipti í kynfræðslu barna orðið knýjandi. „Myndin af mér“ mun fræða áhorfendur um hugtök á borð við sexting, hrelliklám og stafræn borgararéttindi (e: cyber civil rights).

Eiríkur Örn Arnarson – 3.000.000 kr.
„Umfang, eðli og kostnaður vegna heimilisofbeldis karla í garð kvenna á Íslandi“

Markmiðið er að rannsaka umfang, eðli og kostnað, sem hlýst af þegar karlmenn beita konur heimilisofbeldi. Miðað er við árin 2013 og 2014, að konan sé íslensk og 18 ára eða eldri þegar atvik átti sér stað. Ennfremur að gerandi hafi þá eða áður verið sambýlismaður/unnusti/eiginmaður eða barnsfaðir þolanda. Rannsökuð verða gögn sem tengjast heilbrigðisþjónustu, lögreglu og dómstólum og félagslega kerfinu. Hliðstæð rannsókn hefur ekki verið unnin á Íslandi og brýnt að kanna umfang, eðli og hve miklum fjármunum er varið í málaflokkinn.

Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir – 3.000.000 kr.
„Sjálfsstyrking, valdefling og mannréttindafræðsla: Fatlað fólk og margþætt mismunun“

Markmið námskeiðanna er að skapa öruggt rými fyrir fatlaðar konur til að deila reynslu sinni án þess að eiga á hættu gagnrýni eða stimplun. Sjónum er beint að margþættri mismunun gagnvart fötluðum konum, m.a. vegna kyns, kynþáttar, kyngervis og með hvaða hætti hægt sé að beita aktívisma til að sporna gegn jaðarsetningu og mismunun.

Guðný Björk Eydal / Ásdís Aðalbjörg Arnalds – 2.000.000 kr.
„Jafn réttur til fæðingarorlofs, atvinnuþátttaka foreldra og umönnun barna undir þriggja ára aldri“

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að meta langtímaáhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof (nr. 95/2000), með því að kanna hvernig foreldrar ungra barna hafa hagað atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna að þriggja ára aldri. Megindlegra gagna verður aflað með netkönnun meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2013, en þá voru liðin 10 ár frá því að feður öðluðust sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs. Langtímaáhrif laganna verða metin með því að bera niðurstöður könnunarinnar saman við sambærilegar mælingar meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2009, 2003 og 1997.

Guðrún Alda Harðardóttir – 1.500.000 kr.
„Áhrif jafnara kynjahlutfalls í starfsmannahópnum á leikskólastarfið“

Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig áhrifa megi gæta í leikskólastarfi þar sem hlutfall karlmanna er hátt í starfsmannahópnum. Rannsókninni er ætlað að stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd stúlkna og pilta, svo sem með að aukinni þekkingu og reynslu þeirra á kynjafræðum.

Gyða Margrét Pétursdóttir / Kristín Anna Hjálmarsdóttir – 2.500.000 kr.
„Áskoranir og hindranir í jafnréttisstarfi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu á stöðu og þróun jafnréttismála innan starfsmannaþáttar Embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, miðla þekkingunni og leggja traustan grunn að markvissri stefnumótunarvinnu í jafnréttismálum innan embættisins. Tvær megin áherslur liggja til grundvallar, 1) kortlagning á stöðu og þróun jafnréttismála innan starfsmannaþáttar og 2) þekkingarmiðlun og hagnýting niðurstaðnanna. Fjölbreyttari gögnum verður safnað um stöðu og tækifæri kynjanna innan stofnunarinnar en áður hefur verið gert.

Hafrún Kristjánsdóttir – 3.000.000 kr.
„Kynjajafnrétti í íþróttum“

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að gera ítarlega úttekt á stöðu jafnréttismála í íþróttum. Til afmörkunar mun rannsóknin einvörðungu skoða stöðu jafnréttismála í handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu en það eru þær íþróttir sem flestir iðka á Íslandi.

Haukur Freyr Gylfason – 1.000.000 kr.
„Eru konur heiðarlegri en karlar eftir því sem eiginhagsmunir eru meiri?“

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að komast að því hvort konur séu almennt heiðarlegri en karlar og hvort konur séu síður óheiðarlegri en karlar eftir því sem eiginhagsmunir eru meiri. Ef rétt reynist og konur hegða sér heiðarlegar en karlar eftir því sem meira er í húfi þá rennur það enn frekari stoðum undir þá ákvörðun að jafna kynjahlutfall í stjórnum hlutafélaga.

Hermína Gunnþórsdóttir – 2.000.000 kr.
„Meistaranám: Námsframvinda og atvinnutækifæri á landsbyggðunum“

Rannsóknin miðar að því að kanna hvaða meginþættir hafa áhrif á námsframvindu nemenda sem stunda meistaranám í Háskólanum á Akureyri og atvinnutækifæri á landsbyggðinni að námi loknu. Hvað námsframvindu varðar verða kannaðir hvaða þættir standa helst í vegi eðlilegrar námsframvindu og hvað hamlar því að fólki takist að ljúka námi. Í þessu sambandi verður kynjajafnrétti útgangspunktur.

Iðunn Garðarsdóttir – 1.000.000 kr.
„Kynjabilið“

Kynjabilið hefur verið starfrækt frá mars 2015. Starfsemin fer fram á Facebook og Twitter, þar sem bent er á skýrar birtingarmyndir kynjabils í samfélaginu. Dæmi um það eru ráðstefnur þar sem karlar eru í miklum meirihluta, fréttaflutningur þar sem hallar á annað kynið, kynjahlutföll í ríkisstjórn o.s.frv. Auk þess að benda á dæmi þess að pottur sé brotinn hefur Kynjabilið verið duglegt að hrósa því sem vel er gert. Verkefnið felst í því að vakta fréttatengda umræðuþætti í ljósvakamiðlum og gera þá tölfræði sem kemur út úr þeirri vöktun aðgengilega á vefsíðu.

Jafnréttisstofa / Arnfríður Aðalsteinsdóttir – 3.000.000 kr.
„Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir“

Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir er verkefni sem miðar að því að vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla í námi og starfi. Verkefnið er bundið við Norðurland eystra vegna nálægðar Jafnréttisstofu við Háskólann á Akureyri, önnur skólastig og atvinnulíf. Þessi afmörkun gerir að verkum að auðveldara verður að halda utan um verkefnið, mæla árangur og fylgja því eftir. Markmiðið er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir – 2.500.000 kr.
„Stelpur og tækni“

Tækniiðnaðurinn er orðinn ein af stærstu atvinnugreinum heims og því er mikil eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki. Stelpur og tækni er ætlað að vinna gegn kynbundu starfsvali, en eins og þekkt er stuðlar kynbundið starfsval meðal annars að kynbundnum launamun. Þrátt fyrir að konur séu í meirihluta háskólanemenda telja þær aðeins um þriðjung af nemendum í tæknitengdu námi á Íslandi. Stelpur og tækni hefur þó fyrst og fremst það skilgreinda hlutverk að vinna gegn kynbundnu náms- og starfsvali og vinna þannig um leið gegn launamun kynjanna.

Kristín Jónsdóttir – 2.000.000 kr.
„Kvennalistinn.is“

Vefurinn kvennalistinn.is er samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði að styðja konur um allan heim í stjórnmálum og til áhrifa í samfélögum í því skyni að stuðla að því að sjónarmið og reynsla kvenna verði stefnumótandi afl við þróun þeirra. Kvennaframboðin voru einstök á heimsvísu og nutu gífurlegrar athygli og virðingar. Mikið var fjallað um þau í heimspressunni og kvennalistakonum var boðið að halda fyrirlestra víða um heim um „hina íslensku aðferð.

Kríurnar, hagsmunafélag lögreglukvenna / Eyrún Eyþórsdóttir – 1.000.000 kr.
„Lögreglukynning fyrir stelpur“

Verkefnið snýr að kynningu á lögreglustarfinu fyrir stúlkur í framhaldskólum landsins með það að markmiði að auka hlutfall kvenna sem velja sér þennan starfsvettvang. Lögreglukonur hérlendis eru rétt um 12% lögreglumanna en það hlutfall er langt undir því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Ætlunin er að fara í alla framhaldskóla landsins með kynningu sem sérsniðinn er að stelpum. Kynningin mun innihalda hagnýtar upplýsingar um hvað felst í því að starfa sem lögreglukona og kynnt verða mismunandi verkefni og verksvið innan lögreglustarfsins.

Kvennaathvarfið/Sigþrúður Guðmundsdóttir – 750.000 kr.
„Tölum um ofbeldi“

Kvennaathvarfið hefur látið gera 5 mínútna teiknimynd, ætlaða börnum á aldrinum 6-12 ára, um ofbeldi á heimilum. Myndin er í senn fræðslumynd um eðli heimilisofbeldis, yfirlýsing um að ábyrgð á heimilisofbeldi liggi hjá fullorðnu fólki en ekki börnum og hvatning til barna um að segja frá búi þau, eða einhver sem þau þekkja, við ofbeldi á heimilum. Sótt er um styrk til að fylgja myndinni eftir með heimsóknum í grunnskóla og til foreldrafélaga með fræðslufyrirlestur fyrir starfsfólk og foreldra sem undirbúning að því að myndin verði sýnd í skólunum.

Kvenréttindafélag Íslands – 1.500.000 kr.
„Stafrænt ofbeldi gegn konum á Norðurlöndum“

Rannsóknin er framkvæmd í þremur löndum, Íslandi, Noregi og Danmörku en markmið hennar er að rannsaka mismunandi birtingarmyndir stafræns ofbeldis í þessum þremur löndum og hvernig þolendur upplifa leitina að réttlæti vegna þessa ofbeldis. Rannsóknin kortleggur þær leiðir sem þolendur stafræns ofbeldis hafa farið til að leita réttar síns og markmið hennar er að skrásetja hvað virkar vel í því ferli og hvað betur má fara.

Kvenréttindafélag Íslands – 1.000.000 kr.
„We Should All Be Feminists“

Til stendur að þýða bókina We Should All Be Feminists eftir Chimamanda Ngozi Adichie og gefa hana öllum fyrsta árs nemum í framhaldsskólum landsins, um 4000 ungmennum. Þetta verkefni er að sænskri fyrirmynd en Sveriges Kvinnolobby, stærstu kvennasamtök Svíþjóðar, og Albert Bonnier bókaforlagið gáfu út bók Adichie á sænsku, Alla borde vara feminister, og gáfu hana öllum nemendum á öðru ári í framhaldsskólum landsins. We Should All Be Feminists er stutt og hnitmiðuð bók sem vakið hefur mikla athygli erlendis. Í bókinni kynnir Adichie nýrri kynslóð fyrir jafnréttisbaráttunni og skilgreinir femínisma fyrir 21. öldina.

Landsnefnd UN Women á Íslandi / Inga Dóra Pétursdóttir – 1.000.000 kr.

„Nei við netníð“

Styrkurinn verður notaður til að kosta birtingar á fræðslumyndbandi í fjölmiðlum; útvarpi og Sjónvarpi, og útbúa kennsluefni sem hægt er að nota við kynningarátak í grunn- og framhaldsskólum. Samtökin vinna myndband fyrir átakið í samstarfi við Landsbankann, auglýsingastofu og Ungmennaráð UN Women á Íslandi. Markmið verkefnisins er að vekja landsmenn til vitundar um netníð og netofbeldi gegn konum og afleiðingar þess fyrir samfélög og þá sem fyrir því verða.

Landssamtök sauðfjárbænda / Svavar Halldórsson – 2.500.000 kr.
„Úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt“

Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvar hindranir fyrir framgangi kvenna innan sauðfjárræktar liggja og koma með tillögur að kerfisbreytingum sem leiða til úrbóta og aukins jafnréttis innan greinarinnar með tilheyrandi ávinningi fyrir greinina og samfélagið í heild. Mikilvægt er gera rannsóknir sem eru til þess fallnar að varpa skýrara ljósi á stöðu kvenna innan greinarinnar og gera út frá því stefnubreytingar sem rétta við mögulegan halla.

Lára Rúnarsdóttir – 1.000.000 kr.
„Kortlagning á stöðu kvenna í klassískri tónlist og djasstónlist á Íslandi“

Verkefnið er tvíþætt, annars vegar að kortleggja og safna saman gögnum sem gefa sýn á stöðu kvenna í klassískri tónlist og djasstónlist á Íslandi. Má þar nefna vægi og hlutdeild tónlistarkvenna í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum, útgáfufyrirtækjum, félögum, nefndum og ráðum innan tónlistargeirans. Að auki verður skoðuð kynjaskipting kennara og nemanda tónlistarskólanna á Íslandi og kynjaskipting þegar kemur að hljóðfæravali.

María Rún Bjarnadóttir – 3.500.000 kr.
„Takmarkar internetið mannréttindavernd?“

Megintilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort að hið landamæralausa eðli internetsins hafi hamlandi áhrif á mannréttindavernd ríkja sem bundin eru af Mannréttindasáttmála Evrópu, þegar reynir á athafnaskyldu ríkja til þess að tryggja réttindi á borð við friðhelgi einkalífs og persónuvernd á netinu. Í rannsókninni er sérstaklega fjallað um álitaefnið í samhengi við birtingu viðkvæms efnis sem einstaklingar hafa ekki samþykkt að verði gert aðgengilegt öðrum, sérstaklega efni sem vísað hefur verið til sem hrelliklám.

Ós Pressan – 500.000 kr.
„Ós Pressan Literary Journal“

The goal of the project is to create a public, printed space for voices of marginalized writers in Iceland. Ós Pressan began under the auspices of UNESCO as a part of the celebration of the hundred year anniversary of women winning the right to vote. The organization is rooted in the idea of gender equity. The literary scene in Iceland is predominantly male controlled and focused on publishing works written by native Icelanders in Icelandic. Ós challenges the status quo by bringing together woman writers who may or may not be native to Iceland with others who are also marginalized to challenge the status quo of publishing and literature in Iceland.

Pétur Skúlason Waldorff – 10.000.000 kr.
„Go for No - Tackling gender-based discrimination within the geothermal industry“

The Project: A documentary film to be used in awareness raising and in the campaign to support this initiative, and to document women´s stories on the path to career success, we plan to carry out case studies of women in different parts of the world, representing a range of cultures and economies. The commonality among the women featured from each country is that they are working in the field of geothermal energy, ergo they are highly educated, competent achievers in their field, which is traditionally male-dominated.

Ratatam / Eydís Eir Björnsdóttir – 2.000.000 kr.
„Opinberlega – Ratatam“

Meginmarkmið verkefnisins er að framleiða 10-15 leikin myndskeið sem eru stutt, hnitmiðuð og dreifast á samfélagsmiðla og eiga það sameiginlegt að ná til einstaklinga á aldrinum 18- 34 ára sem eru í meiri mæli á samfélagsmiðlum og hafa minni tilhneigingu til að halda athygli á efni með innihaldi á netmiðlum þar sem áreiti er stöðugt. Atburðir myndskeiðanna eru mörg hver byggð á raunverulegum atburðum úr íslenskum veruleika.

Rebekka Sigrún D Lynch – 2.500.000 kr.
„Ofbeldi gegn konum: Þáttur erfða og lífeðlislegra ferla í heilsufari þolenda til langframa“

Rannsóknin er doktorsverkefni í lýðheilsuvísindum við læknadeild Háskóla Íslands. Meginmarkmið verkefnisins er að öðlast betri skilning á afleiðingum ofbeldis og því lífeðlisfræðilega ferli sem er hrint af stað í þolandanum við ofbeldi. Vonin er að með betri þekkingu getum við bæði bætt heilbrigðisþjónustu fyrir þolendur ofbeldis og jafnframt komið í veg fyrir alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar með réttum forvörnum.

RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við HÍ / Kristín I. Pálsdóttir – 2.000.000 kr.
„Reynsla kvenna af áfengis- og vímuefnameðferð. Saga, upplifun og árangur – sjónarhorn þjónustuþega“

Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu kvenna af vímuefnameðferð hér á landi með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði. Undirmarkmið er að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðra upplifana í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum. Nálgunin í rannsókninni er þverfræðileg og verður leitast við að nýta ólíkar rannsóknaraðferðir og áherslur til að bæta þekkingu á sértækum vanda kvenna í meðferð.

Soffía Gísladóttir – 3.000.000 kr.
„Kvenna-vinna: Að búa til verðskulduð atvinnutækifæri fyrir kvenkyns innflytjendur“

Markmið verkefnisins er að finna fyrirstöðu og galla til að greina hvernig og hversvegna konur af erlendum uppruna lenda í og haldast í störfum sem eru undir þeirra getu og kunnáttu sem jafnframt er minna greitt fyrir. Þróa stuðningsþjónustu í því skyni að hafa á boðstólum hjálp og ráðleggingar til samþættingar á vinnumarkaði kvenna. Stuðla að viðurkenningu á menntun erlendis frá. Tengja konur af erlendum uppruna við svæðisbundna framkvæmdaaðila og atvinnurekendur. Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunnar, Háskólans á Akureyri og Alþjóðastofu Akureyrar.

Starfsgreinasamband Íslands / Drífa Snædal – 2.000.000 kr.
„Gegn mansali - samvinna yfir landamæri“

Markmið verkefnisins er að auka þekkingu hér á landi á mansali, miðla þeirri vinnu sem unnin hefur verið síðustu tvö árin og styrkja tengsl við erlenda aðila til að auðvelda samstarf í framtíðinni. Sótt er um styrk til að koma á fundi með norrænum samstarfsaðilum innan verkalýðshreyfingarinnar, löggæslunnar og félagsþjónustunnar. Verkefnið fjallar um að búa til Norrænan vettvang fyrir þessa aðila til að hittast og fá upplýsingar um bestu aðferðirnar á hverjum stað til að berjast gegn mansali.

Sviðslistarsamband Íslands / Marta Nordal– 2.500.000 kr.
„Rannsókn á stöðu kynjanna í sviðslistum“

Fjölmargar vísbendingar eru um kynjahalla innan sviðslista á Íslandi og færa má fyrir því rök að innsýn inn í stöðu kynjanna í greininni geti gefið til kynna hvernig má vinna að umbótum í því skyni að leiðrétta þann halla. Skoða þarf hvort og þá með hvaða hætti halli á karla annarsvegar og konur hinsvegar og greina undirliggjandi orsakir og áhrifaþætti. Rannsóknin er tilkomin að ósk fagfélaganna innan Sviðslistasambands Íslands.

Sögufélag  – 4.000.000 kr.
„Rannsóknarrit“

Vinna við rannsóknarrit um þróun kosningaréttar, lýðræðis og jafnréttis á Íslandi.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar / María Birna Jónsdóttir – 500.000 kr.
„Skuggakosningar í Hafnarfirði“

Verkefnið gengur út á það að virkja ungmenni til þátttöku í lýðræði með því að halda svokallaðar ,,skuggakosningar“ við framhaldsskóla í Hafnarfjarðarbæ (mögulega einnig við unglingadeildir grunnskólana). Skuggakosningar, með fyrirmynd í módeli sem Norðmenn hafa nýtt sér frá 1989, til þess að virkja og kveikja áhuga ungmenna í framhaldsskólum til þátttöku í lýðræði. Til þess að kynna fyrir ungmennum ferli lýðræðsins og kosninga er byrjað að fá ungliðahreyfingarnar frá stjórnmálaflokkunum að mæta í menntaskólana.

Women in Parliaments Global Forum – 3.500.000 kr.
„Girls in Parliaments“

Women in Parliaments Global Forum (WIP) aims to mobilise female members of Parliament to invite and host groups of girls at dedicated ‘Girls in Parliaments' days in National Parliaments on the occasion of the United Nations International Day of the Girl Child: 11 October 2016. This initiative wants to empower young women to increase their participation in social, economic and political activities by connecting them with female Parliamentarians in their national context. The Girls in Parliaments' initiative will allow the participants to learn about the legislative work of members of Parliaments and their rights to take part in decision - making processes.

Frá athöfninni í Iðnó

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta