Ytra mat á framkvæmd Biophiliumenntaverkefnisins
Helstu niðurstöður verkefnamatsins sýna að Biophilia hefur haft jákvæð áhrif á kennsluaðferðir og greina má aukinn áhuga kennara sem tóku þátt í verkefninu á að beita skapandi aðferðum við kennslu
Þriggja ára formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni um Biophiliu menntaverkefnið lýkur í lok þessa árs. Verkefnið hefur verið viðamikið en 33 skólar, 147 kennarar og 4354 nemendur í átta löndum hafa tekið þátt í því.
Markmiðið með Biophilia menntaverkefninu er að kenna börnum á skapandi hátt um tónlist og náttúruvísindi með aðstoð tækni og þverfaglegra kennsluhátta.
Ráðgjafarfyrirtækið Attentus gerði úttekt á Biophiliu menntaverkefninu að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis en henni var ætlað að leggja mat á framkvæmd og aðferðafræði norræna Biophiliu menntaverkefnisins, hverjir veikleikar og styrkleikar verkefnisins hafi verið og afla upplýsinga um hvaða áhrif verkefnið hafði á þátttakendur, störf þeirra og starfsumhverfi.
Helstu niðurstöður sýna að Biophilia hefur haft jákvæð áhrif á kennsluaðferðir þátttakenda. Greina má aukinn áhuga þeirra kennara sem tóku þátt í því að beita skapandi aðferðum í kennslu og í flestum þátttökulöndunum merktu menn aukinn áhuga nemenda á tónlist og náttúruvísindum í kjölfar kennslunnar.