Hoppa yfir valmynd
21. desember 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Notkun nemenda á eigin snjalltækjum í grunn- og framhaldsskólum

Mennta- og menningarmálaráðherra og umboðsmaður barna hvetja alla grunn- og framhaldsskóla til að setja skýrar reglur um notkun snjalltækja í skólastarfi

Aukamynd-1
Aukamynd-1

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013 og markaði það mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna, þar sem sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna og tryggir hann öllum börnum upp að 18 ára aldri sérstaka vernd, umönnun og rétt til þátttöku.

Samkvæmt lögum um grunn- og framhaldsskóla, reglugerðum við lögin og aðalnámskrá skal starfsfólk ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja þeim menntun, öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar og náð árangri í námi. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni. Hver grunn- og framhaldsskóli setur sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum og úrræði og viðbrögð skóla eiga að vera í samræmi við réttinda nemenda og eiga að stuðla að jákvæðri hegðun og miða að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda.

Í gildandi reglugerðum um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunn- og framhaldsskólum er m.a. kveðið á um að nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur, beri ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum við samnemendur og starfsfólk skóla, þ.m.t. snjallsímum, rafrænum samskiptum og netnotkun . Þeir skulu einnig sýna nærgætni og gæta virðingar í allri framkomu sinni. Vakin er athygli á að 2015 voru útbúin í samráði við aðila skólasamfélagsins almenn viðmið um skólareglur, m.a. um að í skólareglum skuli setja ákvæði um notkun á rafeindatækjum sem skólinn á, tækjum sem nemendur koma með í skólann og um mynd- og hljóðupptökur á skólatíma og birtingu þeirra. Þessi viðmið eru á upplýsingavef Sambands íslenskra sveitarfélaga og eru grunn- og framhaldsskólar hvattir til að nýta sér þau.

Mennta- og menningarmálaráðherra og umboðsmaður barna hvetja alla grunn- og framhaldsskóla til að setja, í samráði við aðila skólasamfélagsins, skýrar reglur um notkun snjalltækja í skólastarfi og skýr viðurlög við brotum á þeim í samræmi við anda Barnasáttmálans og þess regluverks og markmiða sem skólar vinna eftir hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta