Samráð um breytingar á texta í aðalnámskrá framhaldsskóla um námsbrautir á 4. hæfniþrepi, önnur lokapróf og starfsbrautir fyrir fatlaða
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ákveðið að efna til samráðs um breytingar á aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Markmiðið með breytingunum er að gefa betri leiðsögn við skipulagningu og staðfestingu námsbrautalýsinga.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur ákveðið að efna til samráðs um breytingar á aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Markmiðið með breytingunum er að gefa betri leiðsögn við skipulagningu og staðfestingu námsbrautalýsinga. Breytingar eru lagðar til á eftirfarandi köflum: 8.2, 8.4, 8,5 (nýr kafli), 8.6, 10.6, 10.6.4, 13.3, Viðauki 2 - Lýsingar á námslokum í framhaldsskóla.
Með breytingunum eru skilgreiningar á námslokum á 4. hæfniþrepi gerðar ítarlegri og möguleikar nemenda að loknu námi dregnir fram. Námslokin eru annars vegar flokkuð eftir því hvort þau fela í sér löggild starfsréttindi eða ekki, þ.e. Viðbótarnám við framhaldsskóla eða Nám til starfsréttinda. Hins vegar eftir því hvort námið hafi verið skipulagt þannig að viðurkenndur háskóli ábyrgist að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006 og sé því tilbúinn að meta námið til eininga þó svo námið fari fram við aðra skóla eða rannsóknastofnanir. Orðið fagháskólanám er sett í heiti þess flokks sem einkennist af því að fyrir liggi samstarfssamningur eða yfirlýsing frá viðurkenndum háskóla um mat til ECTS eininga háskóla.
Með breytingu á lýsingu á námslokunum „önnur lokapróf“ er dregin fram áhersla á starfsnám og listnám og tekin út sá möguleiki að námslokin „önnur lokapróf“ geti flokkast sem bóknám. Almennt bóknám á 1. og 2. hæfniþrepi flokkast að jafnaði sem framhaldsskólapróf og námslok á 3. hæfniþrepi sem stúdentspróf.
Lýsing á starfsbrautum fyrir fatlaða er bætt og í viðauka er fjallað um þær sem sérstök námslok og falla þau ekki lengur undir námslokin „önnur lokapróf“.
Breytingarnar fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur á að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegra draga að breytingum, sem lagðar verða fyrir ráðherra.
Veittur er frestur til að gera athugasemdir við drögin til og með 20. janúar 2017. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna kafla aðalnámskrár, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á [email protected] með efnislínunni: „Breytingar á texta í aðalnámskrá framhaldsskóla um námslok á 4. hæfniþrepi, önnur lokapróf og starfsbrautir fyrir fatlaða“.