Sameiginleg yfirlýsing varnarmálaráðherra þátttökuríkja í JEF
Staða og horfur í öryggis- og varnarmálum í Evrópu vegna innrásar Rússlands í Úkraínu voru efst á baugi á tveggja daga fundi varnarmálaráðherra þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) sem lauk í Ósló í dag. Á fundinum fór einnig fram viðbragðsæfing þar sem reynt var á ákvarðanatökuferla og viðbrögð ríkjanna við aðstæður þar sem öryggi þeirra væri ógnað.
Sameiginleg yfirlýsing var gefin út af fundinum þar sem stuðningur ríkjanna við aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu er undirstrikaður og vilji þeirra til að efla samstarf á vettvangi JEF.
Bryndís Kjartansdóttir skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu sat fundinn af Íslands hálfu.
JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. Samstarfinu er ætlað að geta brugðist skjótt við hvers kyns aðstæðum á friðar-, hættu- og ófriðartímum, og stutt við annað fjölþjóðasamstarf, svo sem á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttökuríkin eiga jafnframt reglubundið og virkt öryggispólitískt samráð. Bretland leiðir samstarfið sem Öll Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og Holland eru aðilar að, auk Bretlands.