Sýslumaðurinn á Ísafirði tímabundið til starfa hjá ríkislögreglustjóra.
Fréttatilkynning
32/2006
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur ákveðið, að tillögu Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra, að Sigríður Björk Guðjónsdóttir sýslumaður á Ísafirði komi tímabundið til starfa hjá embætti ríkislögreglustjóra. Sigríður hefur samþykkt að taka að sér að undirbúa breytingar sem verða vegna nýskipunar lögreglumála um næstkomandi áramót. Hún mun meðal annarra verkefna undirbúa stofnun greiningardeildar og rannsóknardeildar og gerð stofnanasamnings á milli dómsmálaráðuneytis og ríkislögreglustjóra og annast önnur verkefni sem varða embætti ríkislögreglustjóra og lögreglulið landsins. Sigríður mun hefja störf við embættið hinn 1. september og starfa fram að áramótum. Dómsmálaráðherra hefur falið Kristínu Völundardóttur sýslumanni á Hólmavík að gegna störfum sýslumanns á Ísafirði í fjarveru Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur.
Reykjavík 9. ágúst 2006