Hoppa yfir valmynd
19. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2009

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

    

í málinu nr. 16/2009

 

Ólögmætar framkvæmdir: Ytra byrði og sameign. Kostnaðarþátttaka. Raflagnir.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. maí 2009, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Erindi álitsbeiðanda var vísað frá af hálfu nefndarinnar með bréfi, dags. 22. maí 2009, en álitsbeiðandi ítrekaði beiðni sína auk frekari skýringa með bréfi, dags. 26. maí 2009. Kærunefnd lagði fyrir álitsbeiðanda í fjórum liðum þær kröfur sem hún taldi að heyrði undir lögin með bréfi sínu, dags. 3. júní 2009, og voru staðfestar af álitsbeiðanda með bréfi, dags. 10. júní 2009, auk þess sem álitsbeiðandi fór fram á að ein krafa að auki yrði tekin til greina.

Með tölvubréfi C, dags. 18. júní 2009, var óskað eftir frekari fresti til að koma á framfæri greinargerð og var frestur veittur til 2. júlí 2009. Auk þess var álitsbeiðanda veittur frestur til 24. júlí 2009 með bréfi nefndarinnar, dags. 13. júlí 2009, til að gera athugasemdir við greinargerð. Þá var C veittur frestur til 28. ágúst 2009 til að gera athugasemdir.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð C, f.h. gagnaðila, dags. 2. júlí 2009, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 23. júlí 2009, og athugasemdir C, f.h. gagnaðila, dags. 28. ágúst 2009, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar mánudaginn 19. október 2009.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða tvíbýlishúsið X 1 sem byggt var árið 1924. Álitsbeiðandi er eigandi 2. hæðar en gagnaðili er eigandi 1. hæðar. Ágreiningur er um framkvæmdir og frágang í séreign og sameign, kostnaðarþátttöku, raflagnir og skáp.

 

Kærunefnd telur að kröfur álitsbeiðanda séu:

  1. Að framkvæmdir gagnaðila, þ.e. niðurrif veggja milli íbúða, niðurrif lagna, klipping á breiðbandskapli, málun útihurðar, glugga og húss, uppsetning útiljóss, dyrabjöllu, snerils og bréfalúgu, blómaker á tröppu, svo og ófullnægjandi frárennsli íbúðar á efri hæð, séu ólögmætar.
  2. Að gagnaðila beri að koma lögnum, anddyri efri hæðar og ytra byrði húss í fyrra horf á kostnað gagnaðila.
  3. Að gagnaðila sé skylt að koma aðalrofa raflagnar efri hæðar út úr sínu húsnæði inn í húsnæði álitsbeiðanda á sinn kostnað.
  4. Að gagnaðila hafi verið óheimilt að reisa skáp yfir vatnsinntökum.

 

Kröfuliður I.

Af hálfu gagnaðila kemur fram að hann hafi ráðist í endurbætur á vegg innan séreignar. Veggurinn, sem skilji að anddyri séreigna málsaðila hafi með öllu verið ófullnægjandi með tilliti til byggingalöggjafar og brunavarna enda óeinangraður með öllu. Veggurinn hafi hvorki verið rifinn niður né fjarlægður. Veggurinn hafi verið einangraður og klæddur með 12 mm krossvið og 2 x 12 mm gifsi. Framkvæmd þessi hafi farið fram án þess að veggurinn væri fluttur til og án þess að hrófla nokkuð við því sem viðkomi hagsmunum álitsbeiðanda. Vísar gagnaðili til bréfs byggingarfulltrúa, dags. 3. ágúst 2006.

Hvað varðar lagnir og breiðband þá hafi gagnaðili staðið í framkvæmdum á sínum tíma vegna séreignar sem lauk árið 2006, þrátt fyrir tafir sem rekja hafi mátt til háttsemi álitsbeiðanda. Málið hafi verið til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sem hafi úrskurðað svo að framkvæmdir á vegum gagnaðila væru álitsbeiðanda óviðkomandi og að byggingarleyfis vegna þessa væri ekki þörf. Um það vísar gagnaðili til bréfs byggingafulltrúa, dags. 3. ágúst 2006. Í nefndu bréfi sé fjallað um samráð vegna breytinga á lögnum. Um sé að ræða lagnir vegna breiðbands/loftnets sem álitsbeiðandi hafi samþykkt að yrðu fluttar úr skorsteini. Það sé því ekki um það að ræða að gagnaðili hafi klippt á breiðbandslagnir eða tengingu og látið við sitja, þaðan af síður án samþykkis álitsbeiðanda. Um framangreind málefni vísast til fundargerðar húsfélagsins vegna fundar sem fram fór 4. júlí 2006. Á umræddum fundi hafi álitsbeiðandi samþykkt flutning lagnanna. Í nefndri fundargerð hafi álitsbeiðandi einnig samþykkt uppsetningu nýrrar hitavatnsgrindar (sameign) með því skilyrði að hann tæki ekki þátt í kostnaði. Um aðrar breytingar á lögnum sé ekki að ræða. Þá sé hluta þessa framkvæmda ekki lokið. Reynt hafi verið að færa lagnir úr skorsteini og því þurft að aftengja breiðband. Álitsbeiðandi, þrátt fyrir formlegt samþykki, hafi staðið í vegi fyrir því lagnir þessar yrðu færðar úr skorsteini og hafi iðnaðarmenn þurft að hverfa af vinnustað vegna háttsemi álitsbeiðanda. Á endanum hafi gagnaðili ekki séð sér annað fært en að hætta við framkvæmdina að svo stöddu. Breiðbandskapall liggi þannig enn í gegnum skorsteininn þrátt fyrir fundarsamþykkt um að hann yrði færður. Breiðbandið hafi verið tengt aftur en framkvæmdinni sé ólokið eins og fram hafi komið. Engar tilfæringar á lögnum hafi farið fram í andstöðu við samþykki álitsbeiðanda eða lög um fjöleignarhús.

Hvað lýtur að útihurð þá séu hurðir álitsbeiðanda og gagnaðila sams konar hvað varði hönnun. Ljóst sé að gagnaðili hafi málað hurð sína hvíta til samræmis við hvítmálað tréverk allra glugga í húsinu fljótlega eftir kaupin árið 2006. Verði slíkt að teljast svo óveruleg breyting að ekki þurfi samþykki annarra við enda hafi hurðir beggja eigna legið undir skemmdum. Álitsbeiðandi hafi aldrei mótmælt litavali á hurð gagnaðila fyrr en nú eða lagt til tiltekið útlit. Taka skuli fram að álitsbeiðandi hafi sjálfur gripið til þess úrræðis að skreyta húsið og mála hurð sína rauða en slík framkvæmd hafi gengið mun lengra en sú sem nú sé kvartað yfir. Sú framkvæmd hafi verið liður í róttækum breytingum á ytra byrði húss sem kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi tekið fyrir í máli nr. 8/2009. Álitsbeiðandi hafi farið út í þær skreytingar eftir að gagnaðili hafði málað yfir áberandi veggjakrot vegfarenda á húsið, en til þess hafi gagnaðili notað sama lit og fyrir var á húsinu. Um hafi verið að ræða blettun til varnar útliti og verðmætum. Að framansögðu sé ljóst að hið upprunalega útlit sé ekki virt af álitsbeiðanda að þessu leyti og geti hann því vart gert kröfur í þeim efnum vegna eigin ráðstafana sem gangi mun lengra en ráðstafanir gagnaðila. Þá sé því við að bæta að hið upprunalega útlit hafi verið mjög óljóst enda hafi hurðir álitsbeiðanda og gagnaðila ekki verið kláraðar á sínum tíma. Óvarinn viðurinn hafi legið undir skemmdum. Um sé að ræða hurðir sem alltaf átti að mála og aldrei hafi verið gert ráð fyrir að yrðu glærlakkaðar eða þaktar með viðarvörn, enda henti slík meðferð ekki gerð hurðanna.

Í ljósi málsatvika og forsögunnar, sbr. einkum álit kærunefndar í máli nr. 8/2009, séu kröfur er lúti að málun húss í besta falli furðulegar. Gagnaðili hafi í engu breytt útliti hússins með málun. Gagnaðili hafi brugðið til þess ráðs að mála fyrir veggjakrot með samlitri málningu, þ.e. í sama lit og húsið hafi verið fyrir. Um hafi verið að ræða blettun, til varnar útliti og verðmætum. Gluggar gagnaðila hafi vissulega verið málaðir, en fyrir nokkrum árum síðan. Notaður hafi verið sami litur og var og hafi alltaf verið á gluggum efri hæðar.

Þá greinir gagnaðili frá því að hann hafi sett upp útiljós með samþykki álitsbeiðanda fyrir um það bil þremur árum og hafi álitsbeiðandi lýst yfir sérstakri ánægju með þá framkvæmd á þeim tíma. Álitsbeiðandi hafi ekki verið krafinn um kostnað vegna þessa. Engar athugasemdir, utan samþykkis, hafi komið vegna uppsetningar þess fyrr en löngu síðar, þ.e. nú fyrst, en þeim hafi ekki fylgt krafa um sérstakt útlit hvorki nú frekar en fyrr. Megi ætla að krafa þessi sé nú sprottin af niðurstöðu kærunefndar í máli nr. 8/2009. Ljósið sé af þeirri gerð sem fari vel við byggingarstíl hússins. Ljóst sé að engin lýsing var á svæðinu. Gagnaðili hafi talið nauðsynlegt að inngangur væri upplýstur jafnt af praktískum ástæðum sem og vegna öryggis, jafnt fyrir gagnaðila og álitsbeiðanda sem hafi samþykkt uppsetningu ljóssins.

Þá bendir gagnaðili á að álitsbeiðandi hafi aldrei gert athugasemdir við bréfalúgu, bjöllu eða sneril fyrr en nú. Hvorki liggi fyrir upprunalegt útlit né fundarsamþykkt um tiltekið útlit sem hafa skuli að leiðarljósi í framtíðinni hvað varði svo smávægileg atriði sem bréfalúga og snerill séu í þessu samhengi. Ljóst sé að gagnaðila verði hvorki meinað að vera með, hvort heldur sem er, bréfalúgu né sneril á hurð og þaðan af síður dyrabjöllu, enda um séreign að ræða og sjálfsögð réttindi. Þá liggi ekki fyrir að hægt hefði verið að útvega sams konar lúgu og sneril eða dyrabjöllu til samræmis við eign álitsbeiðanda á sínum tíma. Umræddur snerill og bréfalúga auk dyrabjöllu hafi verið á hurð gagnaðila um nokkurra ára bil án athugasemda. Í dag sé ekki nema blæbrigðamunur á þessum hlutum, utan dyrabjöllu. Í ljósi framangreinds og atvika allra í málinu sé vart hægt að komast að annarri niðurstöðu en að 30. gr. laga um fjöleignarhús eigi ekki við og samþykki álitsbeiðanda sé því ekki þarft. Verði hins vegar lagt til sérstakt útlit sé ekki útlokað að gagnaðili verði við slíku. Það hafi hins vegar aldrei verið gert. Hvað varði dyrabjölluna sérstaklega, þá gildi sömu rök og sjónarmið um það atriði og hér að framan greini. Eins og sjá megi á mynd sé bjallan úr hvítu efni sem falli vel að húsinu, enda staðsett þannig að hún sést illa, þ.e. innan á karmi, nema mjög nálægt sé komið og ekki frá götu.

Greinir gagnaðili frá því að ekkert blómaker sé á tröppum við sérinngang gagnaðila. Gagnaðili hafi fjarlægt það fyrir nokkru síðan enda hafi gróður ekki þrifist þar vegna skemmdarverka af mannavöldum, sem jafnvel megi rekja til háttsemi álitsbeiðanda.

Hvað varðar ófullnægjandi frárennsli íbúðar gagnaðila þá bendir hann á að lagnir í fjöleignarhúsum séu sameign, sbr. 7. og 8. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús. Sé eitthvað athugavert við frárennsli frá íbúð gagnaðila sé það sameiginlegt verkefni sem húsfélagið verði að leysa en ekki gagnaðili einn og á eigin kostnað. Að öðru leyti kannist gagnaðili ekki við að frárennsli sé í ólagi með þeim hætti að það hafi áhrif á hagsmuni álitsbeiðanda.

Gagnaðili fer þess á leit við nefndina að framangreindum kröfum álitsbeiðanda verði vísað frá eða hafnað.

 

Álitsbeiðandi mótmælir því sem gagnaðili heldur fram um vegginn og telur gagnaðila hafa stolið veggnum þar sem hann sé horfinn. Anddyri álitsbeiðanda og eldhús séu skemmd og berist hljóð úr anddyri jarðhæðar upp á 2. hæð.

Bendir álitsbeiðandi á að hurðirnar séu úr dýrum við. Þær hafi verið hannaðar og settar upp 1982 eða 1983 og verið fullfrágengnar. Upprunalegt útlit hafi ekki verið óljóst. Gagnaðili hafi málað hurð og glugga án samráðs og ekki fengið leyfi hönnuðar til að mála hurðina en það hafi álitsbeiðandi fengið.

Mótmælir kærandi því hvernig framkvæmd gagnaðila var háttað varðandi málun húss enda hafi það ekki verið gert vel. Litur hússins hafi verið ræddur og hafi álitsbeiðandi aftekið hvíta litinn. Það hafi gagnaðila átt að verið kunnugt um.

Hvað útiljósið varði hafi það verið sett upp árið 2006, nokkru eftir húsfund, en álitsbeiðandi hafi aldrei rætt eða hrósað uppsetningu útiljóssins sem sé ekki fagurt, of lítið og á röngum stað. Álitsbeiðandi hafi ekki samþykkt uppsetningu þess. Hefði gagnaðili krafist þátttöku í kostnaði við ljósið, uppsetningu þess og rekstur hefði hann þurft að fá samþykki álitsbeiðanda, svo og að setja það upp milli útidyra hússins en ekki eins langt frá dyrum efri hæðar eins og hægt var. Þar af leiðandi krefjist álitsbeiðandi þess að útiljósið verði fjarlægt.

Álitsbeiðandi bendir á að snerillinn sé of stór og umgjörðin nái inn í hurðarfalsið. Bæði sé hann ljótur og valdi skemmdum á falsinu. Krefst álitsbeiðandi þess að viðurkennt verði að, áður en villandi og ljót dyrabjalla fyrir tvíbýlishús sé sett upp fyrir eina jarðhæð og skagi þar að auki út, leitað verði samþykkis álitsbeiðanda.

Gagnaðili hafi fjarlægt blómakerin eftir að álitsbeiðandi skrifaði lögfræðingi hans. Krefst álitsbeiðandi þess að fá staðfestingu á því að gagnaðila hafi borið að bera blómakerin undir sig áður en hann setti þau á tröppuna.

Álitsbeiðandi telur það ekki í sínu hlutverki að greiða fyrir lagnir sem gagnaðili fjarlægir án samþykkis. Frárennslið hafi ekki verið lagað og verði væntanlega ekki gert á meðan gagnaðili á jarðhæðina.

Varðandi breiðbandskapalinn þá hafi verið klippt á hann fyrir atbeina gagnaðila og hefur álitsbeiðandi það staðfest af hálfu rafeindavirkja síns. Enda hafi gagnaðili ekki mótmælt þeim gjörningi.

 

Gagnaðili telur það með öllu fráleitt að vegg milli íbúða vanti eðli málsins samkvæmt. Enn fremur sé það víðs fjarri að lögnum hafi verið breytt eða þær eyðilagðar, hverju nafni sem þær nefnist, með þeim hætti sem álitsbeiðandi hafi lýst. Málflutningi álitsbeiðanda hvað þessi atriði varði sé því alfarið vísað á bug sem ósönnum og ósönnuðum. Engar breytingar hafi verið gerðar á sameign eða séreign sem samþykki álitsbeiðanda hafi þurft við í þeim framkvæmdum sem fram fóru 2006. Byggingarleyfi fyrir áður gerðum framkvæmdum hafi verið gefið út 6. júní 2006. Byggingarfulltrúinn í R hafi ekki gert neinar athugasemdir eftir þann tíma enda hafi framkvæmdum að mestu verið lokið. Vísast hér að öðru leyti til andsvara gagnaðila, dags. 2. júlí sl., og fylgigagna auk meðfylgjandi bréfs byggingafulltrúa til embættis borgarlögmanns, dags. 5. maí 2009, vegna kæru álitsbeiðanda til umboðsmanns Alþingis.

Bendir gagnaðili á að eins og fram komi í athugasemdum álitsbeiðanda hafi breiðbandskapall verið tengdur að nýju.

 

Kröfuliður II.

Gagnaðili telur að kröfuliður II eigi ekki við nein rök að styðjast. Um lagnir hafi þegar verið fjallað. Álitsbeiðandi hafi einnig gert kröfu um að gagnaðili komi ytra byrði húss í samt horf og verði að skilja þá kröfu í ljósi 1. kröfuliðar og vísast því til þeirrar umfjöllunar hér að framan. Þá áréttar gagnaðili að kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi gert álitsbeiðanda sjálfum að koma ytra byrði í samt horf, vegna málunar/skreytingar á ytra byrði hússins, sbr. mál nr. 8/2009, sem virt hafi verið að vettugi svo um muni.

Þá telur gagnaðili að krafa álitsbeiðanda varðandi anddyri efri hæðar og eldhús sé óljós. Hér sé hins vegar greinilega verið að vísa til rýma sem hvort um sig séu innan séreignar álitsbeiðanda sjálfs og gagnaðili hafi ekki aðgang að enda sé hvergi innangengt milli eignanna. Engar framkvæmdir hafi farið fram af hálfu gagnaðila sem áhrif hafi haft á anddyri efri hæðar eða hagsmuni álitsbeiðanda að öðru leyti þar að lútandi. Sama gildi um óljós, órökstudd og ósönnuð málefni er varði eldhús álitsbeiðanda. Vísast hér að nýju til bréfs byggingafulltrúa, dags. 3. ágúst 2006. Þess krefst gagnaðili að kröfum þessum verði vísað frá eða hafnað með öllu.

 

Álitsbeiðandi bendir á að í bréfi byggingarfulltrúa frá 3. ágúst sé ekki verið að tala um breiðbandskapal heldur pípulagnir. Þegar 6. júní hafi komið fram að vatnslagir efri hæðar hafi verið fjarlægðar og að klippt hafi verið á breiðbandskapal.

Álitsbeiðandi hafi fengið pípulagningarmann til að lagfæra leka en hann hafi séð að öllum lögnum hafi verið raskað, bráðabirgðaslöngur komnar í stað allra lagna til efri hæðar og vinna skammt á veg komin.

Þá greinir álitsbeiðandi frá því að hann hafi samþykkt flutning mælagrindar á húsfundi 4. júlí. Álitsbeiðandi hafi þó sett tvö skilyrði, annars vegar að gagnaðili sæi til þess að blöndunartæki á efri hæð og í risi yrðu hreinsuð og að ofninn í anddyri efri hæðar yrði lagfærður, hins vegar að breiðband yrði tengt aftur áður en mælagrindin yrði flutt. Það hafi þó ekki verið gert.

Álitsbeiðandi telur rétt, beri álitsbeiðanda að hafa samráð við gagnaðila, að þá beri gagnaðila að hafa samráð við sig þegar hann hafi málað ytra byrði húss.

 

Bendir gagnaðili á að lokun fyrir hita og rafmagn hafi verið tímabundin aðgerð meðan á framkvæmdum hafi staðið, þegar þess þurfti á árinu 2006. Hiti og rafmagn sé tengt og ekkert tjón hafi orðið á vatnsrennsli eða rafstreymi um húsið vegna þessa.

 

Kröfuliður III.

Gagnaðili greinir frá því að gert sé ráð fyrir að rafmagnstafla sem innihaldi aðalrofa fyrir eign álitsbeiðanda, sé inni í séreign gagnaðila. Gagnaðili hafi enga hagsmuni af því að rofinn sé þarna inni og hafi síður en svo komið því svo fyrir að hann yrði færður þangað. Staðsetning lagna og rafmagnstöflu sé með sama móti og hafi verið, líklegast frá upphafi. Lagnir séu sameign þar til inn fyrir vegg séreignar er komið, sbr. 8. gr. laga um fjöleignarhús. Þar sem rafmagnstaflan sé einnig sameiginleg verði hún að teljast til sameignar að sama skapi. Af ofangreindu sé ljóst að það sé ekki á ábyrgð og kostnað gagnaðila að verða við slíkri kröfu. Gagnaðili hafi að sjálfsögðu kynnt sér með hvaða hætti mætti koma rofa þessum út úr séreign hans, en niðurstaða þeirrar könnunar hafi verið sú að fara þyrfti í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir sem gagnaðili hyggist ekki standa einn að. Þess sé krafist að kröfum álitsbeiðandi hvað þetta atriði verði hafnað.

 

Álitsbeiðandi bendir á að enginn hafi haldið því fram að gagnaðili hafi fært aðalrofa raflagnar álitsbeiðanda inn á jarðhæð. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir að rofinn yrði færður yfir til sín, það hafi verið gerlegt. Þar sem það hefði verið á kostnað álitsbeiðanda hafi hann ekki gert kröfur á gagnaðila á þeim tíma. Hins vegar hafi gagnaðili farið með aðalrofa álitsbeiðanda sem séreign sína og bannað flutning á rofanum, sbr. rafvirkja hans.

 

Kröfuliður IV.

Gagnaðili bendir á að um sé að ræða skáp í anddyri innan séreignar gagnaðila, sbr. teikningar, en inntök orkuveitunnar séu þar að finna. Álitsbeiðandi geti engar kröfur gert um að innanstokksmunir og innréttingar innan séreignar gagnaðila verði fjarlægð. Eins og málavöxtum sé háttað sé það mikil kvöð fyrir gagnaðila að inntök lagna séu innan séreignar hans. Honum verði ekki meinað að setja upp skáp yfir vatnsinntökum enda um eðlilega og sjálfsagða ráðstöfun að ræða innan séreignar. Beri því að hafna þessari kröfu alfarið.

 

Gagnaðili óskar eftir tillögum álitsbeiðanda um heildarútlit hússins svo koma megi í veg fyrir málarekstur af tagi sem þessu fyrir kærunefnd fjöleignarhúsamála í framtíðinni. Sé þá óskað eftir skynsömum tillögum hvað varði litaval á steyptum yfirborðsflötum, þ. á m. steyptu grindverki auk útihurða. Skulu tillögur þess efnis sendar C enda útiloki gagnaðili ekki að fallast á þær.

 

Álitsbeiðandi bendir á að vatnsinntök séu sameign en þeim hafi gagnaðili lokað af og gert jafnvel betur. Í dómssáttinni frá 2007, þar sem viðurkenndur hafi verið réttur álitsbeiðanda til að komast að inntökum orku, séu þrjú símanúmer sem álitsbeiðanda beri að hringja í, óski hann inngöngu. Það sé torvelt fyrir álitsbeiðanda að komast að inntökunum ef mikið liggur við. Því krefst álitsbeiðandi þess að vatnsinntök og aðalrofi verið gerð aðgengilegt ásamt mælum.

 

III. Forsendur

Eins og fram kemur hér að framan vísaði kærunefnd erindi álitsbeiðanda að stærstum hluta frá með bréfi dagsettu 22. maí sl. Hins vegar var ákveðið að leggja fjórar af kröfunum sem kærunefnd taldi að gætu lotið að túlkun á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fyrir gagnaðila. Varðandi kröfulið I bendir gagnaðili á að framkvæmdum þeim sem þar eru taldar upp hafi lokið árið 2006. Málið hafi verið til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sem hafi úrskurðað að umræddur veggur væri álitsbeiðanda óviðkomandi enda um að ræða séreign gagnaðila. Að því er tekur til samráðs um breytingu á lögnum hafi álitsbeiðandi samþykkt að þær yrðu fluttar úr skorsteini, sbr. fundargerð 4. júlí 2006. Gagnaðili hafi málað útihurð sína hvíta til samræmis við tréverk og glugga og hafi álitsbeiðandi ekki mótmælt litavali fyrr en nú. Sjálf hafi álitsbeiðandi málað hurð sína rauða og skreytt húsið án samráðs. Útiljós hafi gagnaðili sett upp með samþykki álitsbeiðanda fyrir um þremur árum. Ekki hafi verið gerð athugasemd við útiljós, bjöllu eða sneril fyrr en nú. Álitsbeiðandi andmælir þessu og telur að breytingar gagnaðila á vegg í íbúð sinni hafi valdið skemmdum á íbúð álitsbeiðanda þar sem þangað berist nú hljóð úr anddyri íbúðar gagnaðila. Þá mótmælir álitsbeiðandi því að hafa veitt samþykki fyrir uppsetningu útiljóss eða öðrum framkvæmdum gagnaðila. Enn fremur bendir álitsbeiðandi á að snerillinn sé of stór og umgjörðin nái inn í hurðarfalsið. Hann sé þar að auki ljótur og valdi skemmdum. Þá sé dyrabjalla villandi og ljót. Breiðbandskapall hafi verið klipptur í sundur af gagnaðila. Hvað varðar kröfulið II þá eigi flest þau sömu sjónarmið við sem rakin hafa verið hér að framan. Á það er bent að engar framkvæmdir hafi átt sér stað af hálfu gagnaðila á anddyri sem hafi áhrif á séreign álitsbeiðanda. Gagnaðili bendir á að rafmagnstafla sem innihaldi aðalrofa fyrir eign álitsbeiðanda sé í séreign sinni. Gagnaðili hafi enga hagsmuni af þessu fyrirkomulagi og samþykki fyrir sitt leyti að aðalrofinn sé fluttur en neitar að þurfa að standa einn að kostnaði vegna þessa. Gagnaðili bendir á að varðandi kröfulið IV þá sé um að ræða skáp í anddyri séreignar gangaðila, sbr. teikningar, sem gagnaðili hafi engan ráðstöfunarrétt yfir. Hann hafi látið setja upp skáp til að hylja inntakið enda sé það mikil kvöð fyrir hann að hafa þau í íbúðinni. Álitsbeiðandi telur hins vegar að með því hafi gagnaðili hindrað aðkomu að inntakinu.

    

Hlutverk kærunefndar er skv. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, að gefa rökstutt álit greini eigendur fjöleignarhúsa á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögunum. Hér að framan er rakinn margþættur ágreiningur aðila. Má af því ráða að hér sé á ferðinni alvarleg samskiptavandamál en kærunefnd fjallaði um mál milli sömu aðila í málum nr. 48/2004, 3/2005 og 8/2009. Ákvæði 36. gr. laga um fjöleignarhús, sem segir að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign, eru skýr. Deila aðila hér lýtur hins vegar fyrst og fremst að atriðum um staðreyndir máls, einkum hvort fyrir liggi samþykki fyrir framkvæmdum sem og afleiðingum af þeim.

Kærunefnd bendir á skyldu aðila til að freista þess að leysa samskiptamál af þessu tagi innan húsfélagsins. Gagnaðili óskar í greinargerð sinni eftir tillögum álitsbeiðanda um heildarútlit hússins svo koma megi í veg fyrir árekstra af því tagi sem hér um ræðir. Kærunefnd getur hins vegar ekki tekið afstöðu til málsatvika og sönnunaratriða af þessu tagi, stangist fullyrðingar aðila á í þeim efnum, enda hvorki gert ráð fyrir aðila- né vitnaskýrslum fyrir nefndinni. Í tilviki sem þessu verður því að leysa úr ágreiningi fyrir dómstólum reynist ágreiningur ósættanlegur.

Það er því mat kærunefndar að ekki sé unnt á grundvelli fyrirliggjandi gagna og á grundvelli laga um fjöleignarhús að skera úr þessum ágreiningi málsaðila heldur þurfi þeir að reka málið fyrir dómi náist ekki samkomulag þeirra í milli. Ber því að vísa öllum kröfum álitsbeiðanda frá nefndinni.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri öllum kröfum álitsbeiðanda í málinu frá nefndinni.

 

Reykjavík, 19. október 2009

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta