Hoppa yfir valmynd
15. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2009

Fimmtudaginn 15. október 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. ágúst 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. ágúst 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. maí 2009 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Haustið 2006 hóf ég nám í B-fræði við D-háskóla, um leið og ég hóf að starfa hjá E í 50% stöðu meðfram skóla. Þetta fyrirkomulag varði allt til október 2008. Þá rættist gamall draumur, þegar ég fékk inngöngu í F-fræði hjá I-skóla. Um 200 umsækjendur sóttu um námið, og var ég einn af 20 sem komust að. Brýnt var fyrir okkur að miklar kröfur væru gerðar til námsins, og tók ég því þá ákvörðun um að segja upp starfi mínu á E og gera hlé á námi mínu við D-háskóla. Fram að jólum var námið við I-skóla einungis bóklegt og gekk það mjög vel. Fór svo að ég var einna hæstur í bekknum með meðaleinkunn X úr prófum. Eftir jól tók við verklegur hluti námsins, [...]. Ég, ásamt um helmingi hópsins, féll í þessum hluta námsins. Samkvæmt alþjóðlegum reglum er ekki gefið tækifæri á að taka námið, eða hluta þess upp aftur. Og því var staða mín sú, í febrúar 2009, að ég var atvinnulaus og í námshléi.

Þetta var mjög óheppileg staða, því í ljós kom að vegna þess að ég hafði sagt upp starfi mínu á E, og gert hlé á náminu við D-háskóla í október, 6 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns míns, uppfyllti ég engar kröfur um fæðingarorlof. Hvorki sem launþegi né sem námsmaður.

Það er mjög sorglegt að eiga von á sínu fyrsta barni og hafa ávallt staðið skil á sínu að verða uppvís að því að lenda á milli í „kerfinu“ vegna þess að maður tók ákvörðun á röngum tíma. Hefði ég t.a.m. gert námshlé og sagt starfi mínu lausu í nóvember 2008 hefði ég bæði uppfyllt kröfur um fæðingarorlof sem launþegi, og fæðingarstyrk námsmanna!

Þar sem ég er skráður í áframhaldandi nám í B-fræði við D-háskóla, haustið 2009 var mér bent á að sækja um fæðingarstyrk námsmanna, af starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs. Umsókn minni fylgdi námsframvinda mín úr D-háskóla, I-skóla, staðfesting á uppsögn, staðfesting á skráningu í námsleyfi auk bréfs þar sem ég gerði grein fyrir stöðu minni.

Samkvæmt bréfi, dagsett 26. maí 2009, var umsókn minni hafnað.

Ég kæri þann úrskurð hér með, auk þess sem ég óska þess að mál mitt verði tekið fyrir á ný og þessari stöðu minni sýndur skilningur.“

 

Með bréfi, dagsettu 21. ágúst 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 25. ágúst 2009. Í greinargerðinni segir:

Með umsókn, dags. 12. mars 2009, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 7. maí 2009. Á umsókninni kemur fram að foreldrar ætli að fara sameiginlega með forsjá barns og þau muni skila samkomulagi staðfestu af sýslumanni þar um. Slíkt samkomulag hefur ekki borist og því verður ekki séð að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barnsins, sbr. og útprentanir úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með umsókn kæranda fylgdi námsferilsáætlun frá D-háskóla, dags. 24. mars 2009, yfirlit einkunna úr sama skóla, bréf frá J, dags. 25. mars 2009, bréf frá kæranda, dags. 25. mars 2009, bréf frá I-skóla, ódagsett, niðurstöður ATC prófa frá sama skóla, dags. 18. desember 2008, staðfesting á atvinnuleysisskráningu, dags. 26. mars 2009 og útprentun úr rafrænu umsóknarsvæði Vinnumálastofnunar, fæðingarvottorð, dags. 2. júní 2009 og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 9. febrúar 2009. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. maí 2009, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í 7. mgr. 19. gr. ffl. kemur fram að réttur foreldris til fæðingarstyrks sé bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst, sbr. þó 8. mgr. Í 8. mgr. kemur fram að forsjárlaust foreldri eigi rétt á fæðingarstyrk liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008.

Kærandi hefur enn ekki uppfyllt skilyrði 7. eða 8. mgr. 19. gr. ffl. og þegar af þeirri ástæðu getur hann ekki átt rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Engu að síður hefur verið skoðað hvort kærandi teljist hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa verið í fullu námi.

Barn kæranda fæddist þann Y. maí 2009 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. maí 2008 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá D-háskóla, dags. 24. mars 2009, kemur fram að kærandi hafi verið skráður í námshlé haustið 2008 og vorið 2009. Samkvæmt gögnum frá D-háskóla virðist kærandi því ekki hafa verið í námi við skólann á framangreindu 12 mánaða tímabili. Á ódagsettu vottorði frá I-skóla kemur fram að kærandi hafi stundað nám hjá I-skóla og setið grunnnámskeið í H-fræðum. Hafi bóklegi hlutinn verið kenndur frá 21. október til 17. desember 2008 og verið 360 kennslustundir. Á yfirliti frá sama skóla, dags. 18. desember 2008, kemur fram að kærandi hafi staðist öll fög bóklega hlutans. Verklegi hluti námsins var síðan kenndur 8. janúar til 10. febrúar 2009 og var 192 kennslustundir. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi ekki staðist verklega hlutann og hætt námi í febrúar 2009 í I-skóla.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Á gögnum frá Vinnumálastofnun kemur fram að kærandi hafi verið skráður án atvinnu frá 3. febrúar 2009. Samkvæmt skrám skattyfirvalda kemur fram að kærandi hafi þegið greiðslur frá Vinnumálastofnun – Greiðslustofu í mars 2009 og laun frá Ríkissjóði Íslands frá því í febrúar 2009 og fram að fæðingardegi barns.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Í 12. mgr. 19. gr. ffl. er þannig að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda. Ekki verður heldur séð að nein önnur undanþága í lögunum eða reglugerðinni geti átt við hjá kæranda.

Á vottorði frá J, dags. 25. mars 2009 kemur fram að kærandi hafi látið af störfum þann 15. október 2008 vegna náms. Kærandi er svo, eins og áður hefur verið rakið, skráður í nám frá 21. október 2008 þar til hann skráir sig úr námi í febrúar 2009 og á atvinnuleysisbætur frá 3. febrúar 2009. Hann er jafnframt með laun frá K frá því í febrúar 2009 og fram að fæðingu barnsins. Kærandi uppfyllir því heldur ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 26. maí 2009.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Hinn 5. október 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála afrit af samningi kæranda og barnsmóður hans um sameiginlega forsjá barnsins, staðfestum af sýslumanninum í Reykjavík sama dag.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Í 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl)., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 3. mgr. 4. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, sbr. og c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að fullt nám samkvæmt ffl. er 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við
75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms
.

Barn kæranda fæddist Y. maí 2009. Með hliðsjón af því er við það miðað að tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 16. gr. laga nr. 74/2008, sé frá Y. maí 2008 til Y. maí 2009.

Kærandi stundar nám í B-fræði við D-háskóla. Samkvæmt vottorði frá skólanum, dagsettu 24. mars 2009, var kærandi skráður í námshlé haustið 2008 og vorið 2009. Kærandi stundaði einnig nám hjá I-skóla. Í ódagsettu vottorði frá skólanum kemur fram að kærandi hafi setið grunnnámskeið í F-fræðum. Námskeiðinu var annars vegar skipt í bóklegt nám sem var kennt frá 21. október til 17. desember 2008 og hins vegar verklegt nám sem kennt var frá 8. janúar til 10. febrúar 2009. Samkvæmt gögnum málsins stóðst kærandi fyrri hluta námskeiðsins en ekki síðari. Því hafi kærandi hætt námi hjá I-skóla í febrúar 2009.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði um a.m.k. sex mánaða fullt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þá verður ekki talið að ákvæði ffl. eða reglugerðar nr. 1218/2009 heimili að vikið sé frá skilyrði um sex mánaða fullt nám vegna aðstæðna kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta