Ísland styður verkefni sem miðar að því að útrýma fæðingarfistli í Síerra Leóne
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Argentina Matavel-Piccin, yfirmaður skrifstofu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) fyrir Vestur- og Mið-Afríku, hafa skrifað undir samstarfssamning um verkefni sem styður stjórnvöld í Síerra Leóne í viðleitni sinni við að útrýma fæðingarfistli í landinu. Um er að ræða nokkuð algengt og mjög alvarlegt vandamál í landinu, en með verkefninu munu lífsgæði fjölda kvenna batna til mikilla muna. Verkefnið verður unnið í náinni samvinnu við heilbrigðisyfirvöld í Síerra Leóne en frjáls félagasamtök taka jafnframt þátt í því.
Fæðingarfistill er alvarlegt og viðvarandi vandamál í fátækustu ríkjum heims þar sem algengt er að barnungar stúlkur eignist börn, en kvillinn þekkist varla á Vesturlöndum. Talið er að um 2.400 konur og stúlkur þjáist af fæðingarfistli í Síerra Leóne og fjöldi bætist við á hverju ári.
„Fæðingarfistill er ein alvarlegasta og sorglegasta afleiðing barnsfæðinga ungra stúlkna í þróunarríkjum. Ísland hefur í meira en áratug stutt alþjóðlega baráttu gegn fæðingarfistli, bæði með fjárframlögum til UNFPA og í alþjóðlegu málsvarastarfi fyrir kyn- og frjósemisheilsu og réttindum kvenna,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við undirritunina. Þá ítrekaði hún að jafnrétti kynjanna og mannréttindi væru forgangsmarkmið í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og að stuðningur við baráttuna gegn fæðingarfistli væri í samræmi við þær áherslur. „Við erum mjög stolt af því að vera hluti af þessu verkefni í Síerra Leóne,“ sagði hún.
Verkefnið byggist á smærra verkefni UNFPA gegn fæðingarfistli sem Ísland hóf að styðja í Síerra Leóne árið 2020. Fyrr á þessu ári hóf utanríkisráðuneytið að skoða, í samstarfi við UNFPA og heilbrigðisyfirvöld í Síerra Leóne, hvernig auka mætti umfang verkefnisins og ná því metnaðarfulla markmiði að útrýma fæðingarfistli í landinu. Úr varð nýtt samstarfsverkefni sem er sérstaklega í þágu fátækra stúlkna og kvenna sem hafa verið jaðarsettar vegna fæðingarfistils. Verkefnið beinist bæði að orsökum og afleiðingum fæðingarfistils. Þannig verður beitt fyrirbyggjandi aðgerðum sem snúa að fræðslu og vitundarvakningu í samfélögum og betra aðgengi að kynheilbrigðisþjónustu. Þá verður líka lögð áhersla á bætta mæðravernd, auk ókeypis skurðaðgerða til að lækna fistilinn. Jafnframt verður stutt við stúlkur og konur sem gangast undir skurðaðgerðir með valdeflandi verkefnum sem styrkja afkomugrundvöll þeirra. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um sjö milljónir Bandaríkjadala yfir fimm ára tímabil.
„Fæðingarfistill er vanrækt heilsufars- og mannréttindamál sem kemur verst niður á jaðarsettum konum og stúlkum. Vandamálið er hluti af kynjaójafnrétti og félagslegum gildum sem standa í vegi fyrir valdeflingu kvenna og stúlkna,“ sagði Argentina Matavel-Piccin, yfirmaður skrifstofu UNFPA fyrir Vestur- og Mið-Afríku, af þessu tilefni. Hún sagði jafnframt að verkefnið sem Ísland styðji nálgist viðfangsefnið með yfirgripsmiklum og heildstæðum hætti. „Langvarandi samstarf okkar við ríkisstjórn Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í áframhaldandi verkefni UNFPA við að útrýma fæðingarfistli í Síerra Leóne sem og á heimsvísu, og gerir konum um allan heim kleift að endurheimta sína mannlegu reisn.“
Nú er unnið að undirbúningi að auknu tvíhliða samstarfi Íslands við Síerra Leóne og verkefnið verður eitt af lykilverkefnum á sviði jafnréttismála í landinu á komandi árum.