Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið

832/2019. Úrskurður frá 28. október 2019

Úrskurður

Hinn 28. október 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 832/2019 í máli ÚNU 18080004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. ágúst 2018, kærði A f.h. Stapa ehf., ákvörðun utanríkisráðuneytisins um synjun beiðni um aðgang að samningum sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) og utanríkisráðuneytið gerðu við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) án útstrikana.

Þann 14. júlí 2018 óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum samningum sem utanríkisráðuneytið og undirstofnanir þess hafi gert við íslenskar orkurannsóknir („ÍSOR“) frá árinu 2003 til þess dags er beiðnin var lögð fram. Í beiðninni kemur fram að kærandi hafi orðið þess áskynja að ÍSOR hafi gert víðtækan samning við umhverfis- og auðlindaráðuneytið þann 30. ágúst árið 2013 og að ÍSOR og ráðuneytið hafi gert viðaukasamning við þann samning þann 27. apríl 2018. Um sé að ræða verulegar fjárhæðir sem ríkisráðgjafarstofnun, sem samkvæmt lögum nr. 86/2003 sé ætlað að starfa á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði fái í hendur beint frá fagráðuneyti sínu auk þess sem það virðist vera undirliggjandi samkomulag um það að stærstu orkufyrirtækin (t.d. Landsvirkjun og Norðurorka) leggi ÍSOR til tugi milljóna til rannsókna, sem samkeppnisaðilum ÍSOR gefist ekki færi á að nálgast og virðist ekki að vita af.

Beiðninni var svarað með bréfi, dags. 14. ágúst 2018. Var kæranda veittur aðgangur að átta samningum á milli ÍSOR og ICEIDA. Utanríkisráðuneytið synjaði þó kæranda um aðgang að upplýsingum sem afmáðar voru úr sex samningum og viðaukum við þá.

Í svarbréfi ráðuneytisins til kæranda kemur m.a. fram að ÍSOR sé ríkisstofnun sem keppi á markaði við einkaaðila, sbr. 5. gr. laga nr. 86/2003 og falli starfsemi þess því undir 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Að mati ráðuneytisins hafi samningarnir að hluta til að geyma upplýsingar sem rétt þyki að leynt fari á grundvelli samkeppnissjónarmiða. Vísað er til þess að þrátt fyrir að ÍSOR sé ríkistofnun sem sett hafi verið á fót með lögum fái stofnunin ekki framlög úr ríkissjóði. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 86/2003 og athugasemdum við greinina í frumvarpi til laganna starfi ÍSOR á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði og afli sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum eða öðrum verkefnum á starfssviði ÍSOR. Meðal annars af þeim sökum hafi verið lagt til að stofnunin fengi ekki beinar fjárveitingar af fjárlögum og að einkaréttarlegar reglur um kaup og sölu giltu um þá þjónustu sem ÍSOR veitir en ekki reglur opinbers réttar um þjónustugjöld. Það sé mat ráðuneytisins að það fari þvert á framangreint ákvæði upplýsingalaga og rökin að baki því ef veittur verði aðgangur að samningum viðskiptalegs eðlis sem ÍSOR hafi gert. Slíkt geti skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu ÍSOR sem sé í samkeppni við innlend og erlend fyrirtæki á almennum markaði sem ekki séu skyldug til að veita slíkar viðskiptaupplýsingar. Ráðuneytið telji að í ljósi þess að beiðnin í málinu komi frá fyrirtæki í beinni samkeppni við ÍSOR, vegi hagsmunir ÍSOR þyngra en hagsmunir kæranda.

Í svari ráðuneytisins til kæranda kemur einnig fram að aðgangur hafi verið takmarkaður með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Að mati ráðuneytisins sé hætta á því að óheftur aðgangur að samningunum skaði samskipti Íslands við erlend ríki og alþjóðastofnanir, einkum UN Environment. Af þeim sökum telji ráðuneytið eðlilegt að veita ekki umbeðnar upplýsingar.


Í kæru segir m.a. að það sé útbreiddur misskilningur innan stjórnsýslunnar að ÍSOR njóti ekki beinna ívilnana beint frá ríkinu og að stofnunin þiggi ekki fé af fjárlögum. Í svari sem kæranda hafi borist frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hinn 25. júlí 2018 komi skýrt fram að það framlag sem ÍSOR fái með samningi við það ráðuneyti komi af fjárlögum ársins 2018. Þessu til viðbótar megi ráða af svörum Orkustofnunar og Jarðhitaskólans við fyrirspurn kæranda að sú húsleiga sem ríkisstofnanirnar greiði fyrir aðstöðu sína að Grensásvegi 9 sé langt undir markaðsverði. Það eitt og sér sé ívilnun í skilningi EES-reglna. Því sé erfitt að sjá að starfsemi ÍSOR sé í raun löguð að þeim lagagrunni sem um stofnunina hafi verið sett. Þá gæti misskilnings í svari utanríkisráðuneytisins varðandi stöðu ÍSOR í stjórnkerfinu en ÍSOR heyri undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Miðað við þær ívilnanir sem ÍSOR hljóti verði vart með sanngirni haldið fram að stofnunin starfi á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði eins og kveðið sé á um í 5. gr. laga nr. 86/2003.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2018, var utanríkisráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn utanríkisráðuneytisins barst 23. október 2018. Í umsögninni segir m.a. að ráðuneytið hafi veitt kæranda aðgang að samningum ráðuneytisins við ÍSOR frá árinu 2003 til þess tíma er beiðnin var afgreidd. Aðgangur hafi þó verið takmarkaður að hluta á grundvelli 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í svarbréfi ráðuneytisins til kæranda sé að finna rökstuðning fyrir ákvörðun um takmarkaðan aðgang. Sérstaklega hafi þar verið vísað til varfærnissjónarmiða við lögskýringu á ákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga vegna hættu á trúnaðarbresti í alþjóðasamstarfi. Einnig hafi verið vísað til samkeppnissjónarmiða við skýringu á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga og fordæma úrskurðarnefndarinnar, m.a. í málum nr. A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011. Ráðuneytið árétti þær málsástæður og lagarök sem fram komi í bréfi þess til kæranda.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. október 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem utanríkisráðuneytið afmáði úr sex samningum sem afhentir voru kæranda. Um er að ræða upplýsingar og fylgiskjöl eftirfarandi samninga:

1. Samkomulag um lán á starfsmönnum ÍSOR til jarðhitaverkefnis ÞSSÍ í Úganda, dags. 19. desember 2003.
2. Þróunarsamvinnustofnun, Uganda 2005, dags. 25. maí 2005.
3. Jarðeðlisfræðilegar mælingar í Eritreu, samningur 2008, dags. 1. október 2008.
4. Verksamningur milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Íslenskra orkurannsókna, dags. 17. september 2009.
5. Verksamningur milli ÍSOR og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, dags. 23. nóvember 2010.
6. Verksamningur milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Íslenskra Orkurannsókna, ódagsettur.

Ákvörðun ráðuneytisins um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum í samningunum er reist á 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en samkvæmt greininni er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist enda hafi þau að geyma upplýsingar um atriði sem tiltekin eru í 6 töluliðum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að það er skilyrði takmörkunar upplýsingaréttar almennings á grundvelli 10. gr. að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess. Beiðni um upplýsingar verður ekki synjað með stoð í ákvæðinu nema aðgangur almennings leiði af sér hættu á tjóni á einhverjum þeim hagsmunum sem njóta verndar samkvæmt ákvæðinu.

Í 2. tölul. 10. gr. er að finna heimild til að takmarka aðgang almennings að upplýsingum um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir eftirfarandi:

„Ákvæðið á við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða öðrum toga. Þeir hagsmunir sem hér er verið að vernda eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að.“

Auk þess segir orðrétt:

„Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir ekki synjað nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða er ljóst að varfærni er eðlileg við skýringu á ákvæðinu.“

Í 4. tölul. 10. gr. er að finna heimild til að takmarka aðgang almennings að upplýsingum um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.

Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:

„Markmiðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýsinga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona háttar til. Meginsjónarmiðið að baki þessu ákvæði er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr. Athuga verður þó í þessu sambandi að í sumum tilvikum eru fyrir hendi skýrar reglur um skyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar í tengslum við viðskipti, sbr. lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða. Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.“

Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats á því að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nr. 813/2019, 764/2018, 762/2018 auk úrskurða í málum nr. A-492/2013, A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011, sem kveðnir voru upp í gildistíð eldri upplýsingalaga.

Í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 813/2019 og 764/2018 var komist að þeirri niðurstöðu að rekstur ÍSOR feli ekki í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna í skilningi upplýsingalaga heldur sé um að ræða samkeppnisrekstur sem fyrirtækið verður að standa og falla með. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál leikur ekki vafi á því að þeir samningar sem kærandi óskaði aðgangs að feli í sér upplýsingar um viðskipti ÍSOR að því leyti sem stofnunin er í samkeppni við aðra. Eru því fyrstu tvö skilyrði beitingar 4. tölul. 10. gr. uppfyllt. Í þriðja skilyrðinu felst hins vegar að meta þarf sérstaklega hvort samkeppnishagsmunir ÍSOR af því að gögnin lúti leynd séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Er þá til þess að líta að aðeins er heimilt að undanþiggja gögn upplýsingarétti á grundvelli 10 gr. upplýsingalaga, þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast.

2.

Utanríkisráðuneytið afmáði upplýsingar úr 5. gr. samningsins „Samkomulag um lán á starfsmönnum ÍSOR til jarðhitaverkefnis ÞSSÍ í Úganda“, dags. 19. desember 2003. Í greininni er kveðið á um upphæð greiðslna til ÍSOR til að bæta stofnuninni það tekjutap sem stofnunin verði fyrir vegna launalausra leyfa starfsmanna samkvæmt samningnum.

Þá afmáði ráðuneytið 3. efnisgrein samningsins „Þróunarsamvinnustofnun, Uganda 2005“, dags. 25. maí 2005. sem fjallar um fyrirkomulag vinnu starfsmanna ÍSOR fyrir ÞSSÍ við verkefni í Úganda árið 2005. Í efnisgreininni er fjallað um greiðslur Þróunarsamvinnustofnunar til ÍSOR vegna láns á starfsmönnum, heimildir ÍSOR til þess að kynna þátttöku starfsmannanna í verkefninu og nöfn starfsmanna sem áætlað var að kæmu að verkinu.

Ákvörðun ráðuneytisins um að afmá ofangreindar upplýsingar úr samningunum er rökstudd með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst á það að um sé að ræða upplýsingar um samkeppnisrekstur ÍSOR. Upplýsingarnar varða aftur á móti einnig ráðstöfun opinberra fjármuna sem almenningur hefur hagsmuni af að geta kynnt sér. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er aðgangur almennings að upplýsingunum ekki til þess fallinn að hafa áhrif á samkeppnishagsmuni ÍSOR eða valda stofnuninni tjóni en upplýsingarnar eru komnar nokkuð til ára sinna. Úrskurðarnefndin telur þar af leiðandi ekki að ÍSOR hafi slíka hagsmuni af því að upplýsingarnar fari leynt að þeir réttlæti að upplýsingarnar séu undanþegnar aðgangi almennings. Er það því mat nefndarinnar að utanríkisráðuneytinu að sé ekki heimilt að undanþiggja upplýsingarnar sem afmáðar voru úr samningunum með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Á kærandi því rétt til aðgangs að samningunum án útstrikana.

3.

Samningurinn „Jarðeðlisfræðilegar mælingar í Eritreu, dags. 1. október 2008“, er um framkvæmd og kostun jarðeðlisfræðilegra rannsókna á jarðhitasvæðinu við eldfjallið Alid í Eritreu. Afmáðar voru upplýsingar í 1. gr. og 4. gr. samningsins og synjað um aðgang að fylgiskjali með samningnum í heild sinni, með vísan til 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Í 1. gr. samningsins er að finna skilgreiningu verksins, á hvaða tímabilið verkið verði unnið og hver beri ábyrgð á verkefninu. Hafa þar verið afmáðar upplýsingar um að hluti þess verði unninn af Jarðfræðistofnun Eritreu samkvæmt samningi sem teljist fylgiskjal með samningnum.

Í 4. gr. er kveðið á um þann kostnað sem ÞSSÍ beri að greiða ÍSOR vegna verkefnisins, upphæð hans og hvenær hann skuli greiddur. Í fylgiskjali með samningnum, sem telst vera hluti hans, er að finna kostnaðaráætlun á ensku.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki að upplýsingar um að ÍSOR og Jarðfræðistofnun Eritreu hafi stofnað til samstarfs um jarðhitaverkefni séu upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir sem mikilvægir almannahagsmunir krefjist að leynt fari, sbr. 2. tölul. 10 gr. upplýsingalaga. Ekki verður séð að aðgangur almennings að upplýsingunum geti haft neikvæð áhrif á samskipti og gagnkvæmt traust á milli Íslands og Eritreu en ákvæðinu verður aðeins beitt ef hætta er á því að milliríkjasamskipti torveldist. Verður því kæranda ekki synjað um aðgang að þeim upplýsingum á grundvelli 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá telur úrskurðarnefndin ekki að í samningsákvæðinu komi fram upplýsingar um mikilvæga samkeppnishagsmuni ÍSOR sem heimilt er að undanþiggja upplýsingarétti almennings á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Hvað varðar upplýsingar sem fram koma í 4. gr. samningsins um greiðslur ÞSSÍ til ÍSOR vegna verkefnisins er um að ræða samkomulag um ráðstöfun opinbers fjár sem almenningur á ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur ÍSOR ekki slíka hagsmuni af því að upplýsingarnar fari leynt að þeir réttlæti að upplýsingarnar séu undanþegnar aðgangi almennings á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Verður því utanríkisráðuneytinu gert að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem afmáðar voru úr 4. gr. samningsins.

Hvað varðar fylgiskjal með samningnum þá er um að ræða kostnaðaráætlun vegna jarðhitaverkefnisins. Kemur þar fram ferðakostnaður starfsmanna ÍSOR og farangurs, kostnaður vegna vinnu starfsmanna ÍSOR á vettvangi og annar kostnaður vegna verkefnisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að framangreindar upplýsingar varði viðskipti ÍSOR á samkeppnissviði stofnunarinnar. Til þess er hins vegar að líta að upplýsingarnar voru tíu ára gamlar þegar kærandi óskaði eftir aðgangi að þeim og varða aðeins eitt afmarkað verkefni. Er því vandséð að mikilvægir samkeppnishagsmunir ÍSOR standi aðgangi almennings í vegi, sbr. 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Í fylgiskjalinu koma einnig fram upplýsingar um hvað Jarðfræðistofnun Eritreu leggi til verkefnisins. Þær upplýsingar varða framkvæmd þróunarverkefnis samkvæmt samningi Íslands og Eritríu og þar af leiðandi lúta þær einnig að samskiptum ríkja í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að utanríkisráðuneytinu hafi verið heimilt að undanskilja upplýsingarnar sem fram koma í viðaukanum með vísan til undanþáguákvæðis 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga enda hefur nefndin ekki forsendur til að draga í efa þá staðhæfingu utanríkisráðuneytisins að óheftur aðgangur almennings að slíkum upplýsingum geti verið til þess fallinn að torvelda samstarfsverkefni ríkja.
Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kærandi eigi rétt á aðgangi að upplýsingunum sem afmáðar voru úr samningnum á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, að undanskildum upplýsingum um framlag Jarðfræðistofnunar Eritreu til verkefnisins í fylgiskjali með samningnum.

4.

Utanríkisráðuneytið afmáði upplýsingar sem fram koma í 1.-3. gr. samningsins „Verksamningur milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Íslenskra orkurannsókna“, dags. 17. september 2009, og synjaði kæranda um aðgang að tveimur viðaukum við samninginn í heild sinni, með vísan til 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Með samningnum er ÍSOR falið að veita sérfræðiaðstoð á sviði jarðhita í Níkaragva árið 2009 og er tekið fram að verkefnið sé hluti af þróunaraðstoð ÞSSÍ.

Í 1. gr. samningsins er fjallað um skilgreiningu verks- og samningsgagna. Þar er einkum vísað til tveggja viðauka við samninginn, verk- og fjárhagsáætlunar. Í 2. gr. samningsins er að finna ákvæði um verkgreiðslur en synjað var um aðgang að greininni í heild sinni. Í 3. gr. hans er vísað til þess að verk- og fjárhagsáætlun vegna ársins 2009 séu fylgiskjöl með samningnum en synjað er um aðgang að greininni í heild sinni.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál fela framangreind ákvæði samningsins ekki í sér upplýsingar um mikilvæga samkeppnishagsmuni ÍSOR sem heimilt er að undanþiggja upplýsingarétti almennings á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá verða þær ekki undanskildar upplýsingarétti á grundvelli 2. tölul. 10. gr. enda er ekki um að ræða upplýsingar um þau samskipti sem njóta verndar ákvæðisins. Utanríkisráðuneytinu ber því að veita kæranda aðgang að upplýsingunum.

Í viðauka I með samningnum kemur fram ítarleg kostnaðaráætlun verkefnisins en fram kemur að hún hafi verið unnin sameiginlega af ráðuneyti í Níkaragva, ÞSSÍ og ÍSOR. Í kostnaðaráætluninni er tiltekinn sá kostnaður sem stjórnvöld í Níkaragva, ÞSSÍ og ÍSOR hafi vegna verkefnisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga í efa þá staðhæfingu utanríkisráðuneytisins að aðgangur almennings að kostnaðaráætluninni, sem felur í sér upplýsingar um kostnað og kostnaðarskiptingu íslenska ríkisins og samstarfsríkis vegna verkefni, geti torveldað samninga um samstarfsverkefni við erlend ríki. Er því fallist á að utanríkisráðuneytinu hafi verið heimilt að takmarka aðgang að viðauka 1 með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Í viðauka II með samningnum er að finna kostnaðaráætlun ÍSOR vegna verkefnisins. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er um að ræða upplýsingar um viðskipti ÍSOR á samkeppnissviði stofnunarinnar. Upplýsingarnar varða hins vegar einnig framkvæmd þróunarverkefnis samkvæmt samningi Íslands og Níkaragva og þar af leiðandi lúta þær einnig að samskiptum ríkja í skilningi 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að utanríkisráðuneytinu hafi verið heimilt að undanskilja upplýsingarnar sem fram koma í viðaukanum með vísan til undanþáguákvæðis 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga enda geti óheftur aðgangur almennings að slíkum upplýsingum verið til þess fallinn að torvelda samstarfsverkefni ríkja.

5.

Utanríkisráðuneytið afmáði upplýsingar sem fram koma í 1. og 2. gr. samningsins „Verksamningur milli ÍSOR og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands“, dags. 23. nóvember 2010, þar sem samið er um að ÍSOR taki að sér að uppfæra eigna- og mannauðslista ARGeo (African Rift Geothermal Development Facility) og taka saman skýrslu um stöðu jarðhitamála í Austur-Afríku. Þá voru afmáðir hlutar úr tveimur fylgiskjölum við samninginn. Vísað er til 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Í 1. gr. samningsins er fjallað um skilgreiningu verks- og samningsgagna. Kemur þar fram nánari lýsing á þeirri sérfræðiaðstoð sem ÍSOR tekur að sér að veita með samningnum auk þess sem vísað er til fylgiskjals með samningnum. Í 2. gr. hans er að finna ákvæði um verkgreiðslur til ÍSOR. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekki um að ræða upplýsingar um mikilvæga samkeppnishagsmuni ÍSOR sem heimilt er að undanþiggja upplýsingarétti almennings á grundvelli 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá verða þær ekki undanskildar á grundvelli 2. tölul. 10. gr. enda lúta þær ekki með beinum hætti að þeim samskiptum sem vernduð er með ákvæðinu.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki vafa leika á því að ráðuneytinu hafi verið heimilt að afmá fjórðu málsgrein og síðasta málslið efnisgreinar 5 í fylgiskjali 1 með samningnum með vísan til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, enda eru þær upplýsingar sem þar koma fram til þess fallnar að hafa neikvæð áhrif á þá hagsmuni sem ákvæðinu er ætlað að vernda. Hins vegar verður ekki séð að upplýsingar, sem afmáðar voru á blaðsíðu 2 í fylgiskjalinu, sem fjalla um það hvernig mat starfsmanns ÍSOR skuli fara fram, verði felldar undir undantekningarákvæði 10. gr. upplýsingalaga, enda er hvorki um að ræða upplýsingar um samskipti sem felld verða undir 2. tölul. né upplýsingar sem varða mikilvæga samkeppnishagsmuni ÍSOR, sbr. 4. tölul. greinarinnar.

Kæranda var synjað um aðgang að fylgiskjali 2 í heild sinni. Upplýsingarnar fjalla um ARGeo samstarfsverkefnið, markmið þess verkefnis sem samið var um, aðferðafræðina sem notuð verði við vinnslu verkefnisins og tungumál verkefnisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að jafnvel þótt upplýsingarnar varði samstarf íslenska ríkisins og fjölþjóðastofnunar séu upplýsingarnar sem fram koma í viðaukanum ekki viðkvæmar og tæplega til þess fallnar að torvelda samstarf eða valda nokkru tjóni, verði þær gerðar aðgengilegar. Því telur nefndin ekki skilyrði til þess að fella viðaukann undir undanþáguákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þar sem aðrar undanþágur eiga ekki við um upplýsingarnar verður að fallast á rétt kæranda til aðgangs að þeim.

6.

Utanríkisráðuneytið afmáði einnig upplýsingar úr 1. gr. og 3. gr. samningsins „Verksamningur milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Íslenskra Orkurannsókna“, ódagsettur. Þá voru afmáðar upplýsingar úr hlutum viðauka við samninginn. Auk þess var kæranda synjað um aðgang að fylgiskjali með samningnum og viðauka við hann. Vísað er til 2. og 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Með samningnum var samið um að ÍSOR taki að sér sérfræðiaðstoð á sviði jarðhitamála vegna stuðnings ÞSSÍ við jarðhitaleit í Búrúndi.

Úr 1. gr. samningsins voru afmáðar upplýsingar um að verkið sé skilgreint í fylgiskjali sem teljist hluti samningsins. Í 3. gr. samningsins voru afmáðar upplýsingar um verkáætlun og fjárhagsáætlun. Þar koma m.a. fram afsláttarkjör vegna útseldrar vinnu og efnagreininga, heildarkostnaður vegna verksins og sundurliðaður kostnaður.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst á það að um sé að ræða upplýsingar sem varða samkeppnisrekstur ÍSOR. Upplýsingarnar varða aftur á móti einnig ráðstöfun opinberra fjármuna sem almenningur hefur hagsmuni af því að geta kynnt sér. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er aðgangur almennings að upplýsingunum ekki til þess fallinn að hafa áhrif á samkeppnishagsmuni ÍSOR eða valda stofnuninni tjóni. Úrskurðarnefndin telur því ekki að ÍSOR hafi slíka hagsmuni af því að upplýsingarnar fari leynt að þeir réttlæti að upplýsingarnar séu undanþegnar aðgangi almennings. Er það því mat nefndarinnar að utanríkisráðuneytinu að sé ekki heimilt að undanþiggja upplýsingarnar sem afmáðar voru úr samningunum með vísan til 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þá verða upplýsingarnar ekki undanþegnar með vísan til 2. tölul. greinarinnar.

Úr fylgiskjali I með samningnum voru afmáðar upplýsingar úr 3. málsgrein sem fjallar um umfang verkefnis ráðgjafa á vegum ÍSOR í Búrúndí og 5. gr. sem kveður á um áfangagögn. Þá hafa verið afmáðar úr 6. málsgrein upplýsingar um dagsetningar verkefnisins. Auk þess var kæranda synjað um aðgang að viðauka við samninginn en þar er að finna uppkast að verkáætlun vettvangsvinnu sem segir til um dagskrá starfsmanna ÍSOR í Búrúndí. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að jafnvel þótt þessar upplýsingar varði samstarf íslenska ríkisins við annað ríki séu upplýsingarnar sem fram koma í þessum samningsákvæðum ekki viðkvæmar og til þess fallnar að valda nokkrum skaða í samskiptum Íslands og Búrúndí. Eru því ekki efni til þess að fella þær undir undanþáguákvæði 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Þar sem aðrar undanþágur eiga ekki um upplýsingarnar verður að fallast á rétt kæranda til aðgangs að þeim.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda, Stapa ehf., um aðgang að eftirfarandi upplýsingum:

1. Upplýsingum um framlag Jarðfræðistofnunar Eritreu á bls. 2. í fylgiskjali með samningnum „Jarðeðlisfræðilegar mælingar í Eritreu“, dags. 1. október 2008.
2. Viðaukum I og II við samninginn „Verksamningur milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Íslenskra orkurannsókna“, dags. 17. september 2009.
3. Fjórðu málsgrein og síðasta málslið efnisgreinar 5 í fylgiskjali 1 með samningnum „Verksamningur milli ÍSOR og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands“, dags. 23. nóvember 2010.

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti felld úr gildi og lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem synjað var um aðgang að.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta