Hoppa yfir valmynd
2. september 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 65/2002

Þriðjudaginn, 2. september 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 3. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu, sem tilkynnt var með bréf stofnunarinnar, dags. 16. júlí 2002.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Þannig er mál með vexti að A veiktist á meðgöngu og var tekin frá allri vinnu þangað til hún átti að fæða 14. ágúst 2002. Frá 12 júní tíl 12 ágúst 2002 var Tryggingastofnun ríkisins  (TR) búnir að taka ákvörðun um það að greiða henni veikindalaun síðustu 2 mánuði fyrir fæðingu.

B fór þess á leit við A hvort það væri nokkur möguleiki að hún ynni 50% mjög létt störf vegna sumarleyfa og annarra vandamála hjá B. Áður en A samþykkti að fara aftur að vinna fór ég D og A til TR þar sem okkur var tjáð hjá einum af ráðgjafa TR að ef A færi aftur að vinna myndi það ekki bitna á hennar veikindalaunum annað en þann tíma sem hún ynni hjá B og TR myndi greiða henni mismuninn sem búið var aðsamþykkja. Ráðgjafi TR fyllti út hluta af skýrslunni sem við áttum að afhenda atvinnurekanda hennar áður en hún þáði vinnuna.

Litlu seinna eftir að A fór að vinna fékk hún bréf frá TR dagsett 16. júlí um að þeim hafi borist viðbótargögn um að hún væri að vinna 50% starf og hún muni missa veikindalaunin af því hún fór aftur  að vinna og hún eigi á hættu að missa allt fæðingarorlofið.

Þegar ég D, fór svo til TR voru viðbrögðin þannig að mér tjáð að við yrðum bara að hafa samband við lögfræðing og kæra málið.

Þegar við fórum saman til TR að athuga hvort A ætti að fara að vinna aftur, var okkur vel tekið en gefnar rangar upplýsingar. Nú þegar við þurfum að hlaupa milli stofnana, fjölda lögfræðinga og sækja um allskonar gögn og aukagreiðslur hjá hennar stéttarfélagi erum við engu nær.

Ef okkur hefðu verið gefnar réttar upplýsingar frá TR hefði A aldrei farið að vinna aftur fyrir minni peninga en búið var að lofa að greiða henni fyrir veikindalaun frá TR. Ef ráðgjafi TR hefði gefið okkur réttar upptýsingar hefði þetta mál aldrei orðið að svona miklu rugli.

Núna er TR að refsa A fyrir það að hafa farið aftur að vinna í hluta starf fyrir ríkið. Ef hún hefði ekki farið að vinna hefði hún fengið allt greitt án nokkrar mála. Það er alveg ótrúlegt að svona mikið rugl komi frá röngum upplýsingum sem okkur var gefið frá ráðgjafa TR.

Við erum ekki að fara fram á neinar auka greiðslur. Eina sem hún er að fara fram á er að hún fái greiddan mismuninn á þeim tveggja mánaða veikindalaunum sem TR ætlaði að greiða henni að frádregnum launum hennar frá B.“

 

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 28. febrúar 2002 og móttekinni 28. maí sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 12. ágúst vegna væntanlegrar fæðingar 14. ágúst. Í umsókninni kom fram að óskað væri eftir lengingu á greiðslum vegna veikinda á meðgöngu frá 11. júní -11. ágúst 2002. Einnig var framvísað læknisvottorði dags. 27. maí þar sem kom fram að hún hefði hætt störfum í þungun 18. febrúar og staðfestingu vinnuveitanda um  að hún myndi falla af launum 12. júní n.k. en þá væri veikindaréttur hennar búinn.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 6. júní var samþykkt lenging á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda frá 14. júní, þ.e. hámarkslengingu þar sem áætlaður fæðingardagur var 14. ágúst og lenging á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði getur verið að hámarki 2 mánuði. Í bréfinu kom fram að til grundvallar niðurstöðunni lægju upplýsingar um að hún heföi verið frá vinnu og án launa frá 12. júní n.k.

20. júní barst ódagsett tilkynning um fæðingarorlof þar sem fram kom að kærandi yrði í fæðingarorlofi 12. ágúst 2002- 12. ágúst 2003.

Tilkynning um breytingu á töku fæðingarorlofs dags. 4. júlí barst 9. júlí þar sem fram kom að kærandi væri að vinna í 50% vinnu 1. – 31. júlí. Með fylgdi læknisvottorð dags. 25. júní þar sem fram kom að vegna meðgöngu væri hámarksvinna 4 tímar á dag.

Þar sem lenging á greiðslum hafði verið samþykkt á grundvelli þess að hún væri óvinnufær með öllu og án launa og þessi viðbótargögn báru með sér að hún hefði hafið störf að nýju var kæranda með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 16. júlí tilkynnt á grundvelli þess að skilyrði fyrir lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði væri að þungaðri konu sé nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns og þar sem hún hefði ekki gert það uppfyllti hún ekki skilyrði um lengingu á greiðslum fæðingarorlofs. Af þessum sökum hefði hún verið ranglega afgreidd með lengingu greiðslna  frá 14. júní sl. Fæðingarorlof hennar muni í staðinn hefjast frá 1. ágúst nk. Við þetta var bætt ábendingu um að til að hún missti ekki rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þyrfti hún að sækja um sjúkradagpeninga hjá Tryggingastofnun ríkisins eða úr sjúkrasjóði stéttarfélags síns frá því launagreiðslur féllu niður 12. júní og fram til 1. júlí og að ef staðfesting á  greiðslum sjúkradagpeninga bærist ekki yrði umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað og afgreiddur til hennar fæðingarstyrkur.

Í framhaldi af þessu barst andmælabréf frá G-félagasamtökunum dags. 25. júlí þar sem því var m.a. haldið fram að um væri að ræða afturköllun á ákvörðun sem væri íþyngjandi fyrir kæranda, að kærandi hefði fengið upplýsingar frá TR um að enginn réttindamissir yrði ef hún færi aftur til starfa og að það að hún hafi aftur hafíð líkamlega léttari störf og í lægra starfshlutfalli sé í fullu  samræmi við 11. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Því var svarað með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 2. ágúst þar sem m. a. kom fram að kærandi hefði framvísað nýjum gögnum sem litið hefði verið á sem afturköllun af hennar hálfu á fyrri umsókn, að bréf dags. 16. júlí hefði verið skrifað í þeim tilgangi að benda henni á að sækja um sjúkradagpeninga til að hún missti ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, að ekki væri hægt staðreyna  nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur hafí verið lagður í þær af hennar hálfu til viðbótar því að ekki verði heldur séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafí áhrif á réttindi hennar til greiðslna þar sem réttindi og skilyrði þeirra séu bundin í lögum og lagatúlkun og einnig að óviðeigandi sé að vísa til 11. gr. laganna þar sem málið varði lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu en ekki lengingu vegna öryggis- og heilbrigðisástæðna.

Eftir að kærandi hafði fengið samþykkta lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu á grundvelli þess að hún hefði lagt niður störf barst tilkynning um að hún hefði hafið störf að nýju á þeim tíma sem lengingin átti við um. Í bréfi þar sem henni verið tilkynnt um samþykktina kom skýrt fram að grundvöllur hennar var að  hún væri frá vinnu og án launa á tímabilinu. Lífeyristryggingasvið lítur svo á að þegar tilkynnt var um að kærandi hefði hafið störf að nýju hafí hún framvísað nýjum gögnum sem fólu í sér afturköllun á umsókn sem búið var að samþykkja á grundvelli  þess að hún væri ekki i að vinna á sama tíma.

Að endingu skal athygli kæranda vakin á því að skv. launaseðlum sem hún framvísaði er stéttarfélag hennar E en það þýðir að hún getur sótt um greiðslur úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði opinberra starfsmanna (FOS) vegna mismunar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu launa sem hún hefði átt rétt  á skv. þeim reglum sem giltu fyrir gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá H. “

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, en þó aldrei lengur en tvo mánuði, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 kemur fram að með heilsufarsástæðum í 4. mgr. sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna og langvarandi, sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni.

Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.- 4. mgr. 17. gr. ffl. með vottorði læknis sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Með umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 4. mgr. 17. gr. ffl. skal fylgja staðfesting vinnuveitanda og í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður sbr. 6. mgr. 17. gr. ffl. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Í yfirlýsingu B, dags. 27. maí 2002, segir að kærandi muni falla út af launaskrá þann 12. júní n.k. en þá sé veikindaréttur hennar búinn. Í læknisvottorði, dags. 27. maí 2002, segir að kærandi hafi hætt störfum þann 18. febrúar vegna sjúkdóms í þungun. Í vottorðinu er getið um endurteknar blæðingar á 1. og 2. þriðjungi meðgöngu og að ráðlögð sé alger hvíld. Þá liggur fyrir annað læknisvottorð, dags. 25. júní 2002, en þar segir að vegna meðgöngu sé hámarksvinna kæranda 4 tímar á dag. Með tilkynningu um breytingu á töku fæðingarorlofs, dags. 4. júlí 2002, er upplýst að kærandi sé í 50% vinnu á F-deild frá 1. júlí til 31. júlí.

Kærandi ól barn 9. ágúst 2002. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja verður ekki talið að hún uppfylli það skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 að hafa lagt niður launað starf af heilsufarsástæðum. Hún hefur því ekki öðlast rétt til lengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í framangreindum ákvæðum er það gert að skilyrði að störf séu lögð niður að öllu leyti vegna óvinnufærni. Hvorki er að finna í lögunum eða reglugerðinni heimild til undanþágu frá þeirri reglu.

Í rökstuðningi með kæru kemur fram að kærandi telur sig hafa fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um skilyrði þess að öðlast rétt til framlengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurð um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta