Þakkað fyrir 40 ára þjónustu
Ögmundur Jónasson, ráðherra samgöngumála, heiðraði fyrir helgina Jónas Engilbertsson sem ekið hefur strætisvagni í Reykjavík í fjóra áratugi. Einnig var hann heiðraður af Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.
Jónas Engilbertsson náði þeim áfanga síðastliðinn föstudag að hafa ekið strætisvagni í 40 ár og fannst innanríkisráðherra tilhlýðilegt að taka á móti Jónasi er hann kom úr þeirri ferð sem markaði þennan áfanga. Jónas hefur þannig sinnt almenningssamgöngum í þessa fjóra áratugi og hefur án efa upplifað ýmsar breytingar á strætisvögnunum, umferðinni í Reykjavík og ferðavenjum fólks þennan tíma.