Hoppa yfir valmynd
26. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Alls 232.539 kjósendur á kjörskrárstofnum

Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té.  Á stofnum þeim, sem hún hefur unnið vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl 2011 eru 232.539 kjósendur og eru konur eilítið fleiri en karlar.  Þær eru 116.656 en þeir 115.883.  Í endanlegri tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu Hagstofu Íslands um atkvæðagreiðsluna, verður tekið tillit til tölu látinna og þeirra sem fá íslenskt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga.  Við alþingiskosningarnar 25. apríl 2009 voru 227.843 kjósendur á kjörskrá og nemur fjölgunin 4.696 eða 2,1%.

Kjósendur með lögheimili erlendis eru 11.608 eða 5,0% kjósendatölunnar og hefur þeim fjölgað um 1.667 frá síðustu alþingiskosningum eða um 16,8%.  Kjósendum með lögheimili hér á landi fjölgar um 3.029 eða 1,4%. Þeir sem vegna aldurs fá nú að kjósa í fyrsta sinn frá alþingiskosningunum 2009 eru 9.173 eða 3,9% af kjósendatölunni. 

Í lögum nr. 91. 25. júní 2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna segir að um kosningarrétt og kjörskrár til afnota í atkvæðagreiðslunni fari á sama hátt og við alþingiskosningar. Kjörskrár skulu þó miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 19. mars að þessu sinni.

Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 á kosningarrétt við kosningar til Alþingis hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi.  Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á og kosningarrétt í átta ár frá því hann flutti lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag.  Slíkur ríkisborgari á og kosningarrétt hér á landi eftir þann tíma, enda sé um það sótt.  Ákvörðun um að einhver sé þannig á kjörskrá tekinn gildir í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram.  Nú eru á kjörskrárstofnum 683 kjósendur sem svo stendur á um.

Sjá frekari upplýsingar hér á vef Þjóðskrár Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta