Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 49/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 49/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100071

 

Kæra […] og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. október 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefnd kærandi) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. […], um að afturkalla alþjóðlega vernd hennar og barns hennar, […], fd. […], einnig ríkisborgari Íraks, ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Þá var beiðnum þeirra um endurnýjun á dvalarleyfi á Íslandi synjað.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kæranda og syni hennar verði veitt áframhaldandi alþjóðleg vernd, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Eiginmanni kæranda var veitt alþjóðleg vernd á Íslandi þann 9. ágúst 2011. Í kjölfarið var kæranda veitt alþjóðleg vernd sem maki flóttamanns og dvalarleyfi á grundvelli þágildandi 4. mgr. 46. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 2. mgr. 45. gr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016. Dvalarleyfi kæranda var dagsett þann 9. júlí 2012 með gildistíma til 8. september 2014.

Þann 13. ágúst 2013 barst Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar um kæranda og syni hennar frá sænsku útlendingastofnuninni á grundvelli þess að þau hefðu sótt um alþjóðlega vernd þar í landi þann 4. desember 2012. Í kjölfarið sendi Útlendingastofnun beiðni til Þjóðskrár Íslands þann 15. ágúst 2013 um að skrá kæranda og syni hennar úr landi. Þann 12. september 2016 óskaði eiginmaður kæranda eftir ferðaskilríkjum fyrir fjölskyldu sína. Þeirri beiðni var synjað þar sem þau voru ekki með gild dvalarleyfi hér á landi en þau höfðu ekki sótt um endurnýjun áður en dvalarleyfi þeirra runnu út 8. september 2014.

Þann 14. desember 2016 bárust Útlendingastofnun umsóknir um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir kæranda og þrjá syni hennar. Útlendingastofnun hringdi í kæranda þann 26. maí 2017 til að fá frekari upplýsingar svo hægt væri að komast að niðurstöðu í málinu. Útlendingastofnun sendi kæranda tilkynningu þann 8. júní 2017 um að verið væri að skoða hvort tilefni væri til að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í símtalinu, þ.e. að hún hafi snúið aftur til heimalands síns og búið þar í tvö ár. Kæranda var veittur frestur til 15. ágúst 2017 til að koma að andmælum. Bréfið var sent á heimilisfang sem tilgreint var í umsókn kæranda um dvalarleyfi. Þann 10. júlí kom eiginmaður kæranda til Útlendingastofnunar og tilkynnti að heimilisfangið í umsókninni væri rangt. Önnur tilkynning var því send í pósti á nýtt heimilisfang og andmælafrestur lengdur til 31. ágúst 2017. Þann 13. júlí skilaði eiginmaður kæranda inn afriti af umboði og sótti hann afrit af tilkynningunni sem send hafði verið 10. júlí 2017 þann 1. ágúst s.á. Eiginmaður kæranda skilaði inn greinargerð til stofnunarinnar þann 18. ágúst sl. vegna endurnýjunar á dvalarleyfi. Með ákvörðun, dags. 9. október 2017, var alþjóðleg vernd kæranda afturkölluð. Beiðni hennar um endurnýjun á dvalarleyfi á Íslandi var synjað. Þá var kæranda einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun sótti eiginmaður kæranda ákvörðun stofnunarinnar þann 30. október sl. og kærði ákvarðanirnar samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Kæranda var skipaður talsmaður þann 17. nóvember sl. á grundvelli 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Gögn málsins voru afhent talsmanni kæranda þann 21. nóvember og barst greinargerð kæranda þann 6. desember 2017. Þann 5. desember sl. óskaði kærunefnd eftir afriti af símtali Útlendingastofnunar við kæranda. Það barst kærunefnd 11. desember 2017

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar voru ákvæði 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. rakin sem og lögskýringargögn að baki þeim. Einnig var vísað til c-liðar 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðarinnar og skýringa á ákvæðinu í handbók samningsins. Útlendingastofnun taldi ljóst að fjögur ár hafi liðið frá því að kærandi hafi yfirgefið Ísland. Samkvæmt frásögn hennar sjálfrar hafi hún dvalið í heimalandi sínu í tvö ár. Aðspurð hvers vegna hún hafi snúið aftur til heimalands kvað kærandi sonum sínum hafa liðið illa og hún hafi haft áhyggjur af þeim. Kærandi hafi því ákveðið að fara til Svíþjóðar þar sem þau ættu ættingja þar og því næst til heimlands af ótta við að lenda í vandræðum. Kærandi hafi ekki greint frekar frá því af hverju hún hafi snúið aftur til heimalands síns og dvalið eins lengi og raun ber vitni. Útlendingastofnun hafnaði málsástæðu kæranda, um að óheimilt hefði verið að afturkalla vernd hennar vegna þess að henni hafi ekki verið tilkynnt um það fyrirfram að til stæði að afturkalla verndina, sem rangri þar sem tvö bréf þess efnis höfðu verið send kæranda og umboðsmanni hennar.

Ljóst væri að kærandi hafi einungis dvalið á Íslandi í um sex mánuði áður en hún hafi yfirgefið landið og haldið til Svíþjóðar í lok árs 2012. Það hafi ekki verið fyrr en í lok árs 2016 sem maki kæranda hafi lagt inn umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi. Að mati stofnunarinnar var ljóst að kærandi hafi farið til heimalands síns af fúsum og frjálsum vilja og hafi dvalið þar nú í nokkur ár. Að mati stofnunarinnar hafi kærandi því gefið til kynna að hún hafi ekki lengur þörf á þeirri vernd sem Flóttamannasamningurinn og lög um útlendinga tryggja. Þá væri ekki hægt að líta svo á að kærandi hafi einungis ætlað að fara í tímabundna heimsókn til heimalands síns. Að öðrum kosti væri litið framhjá megintilgangi flóttamannasamningsins.

Af þeim skýrslum sem Útlendingastofnun skoðaði um Kúrdistan, þar sem kærandi búi, hafi aðstæður breyst til hins betra síðan kæranda var veitt alþjóðleg vernd á Íslandi. Með vísan til gagna málsins væri ekkert sem benti til þess að kærandi sé nú í hættu á að sæta hefndaraðgerðum af hálfu hryðjuverksamtaka sem eiginmaður hennar hafi óttast, dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimalandi sínu.

Að mati Útlendingastofnunar bar einnig að líta til þess að kærandi væri fullorðinn einstaklingur sem hafi einungis dvalið í um hálft ár á Íslandi er hún hafi ákveðið af sjálfsdáðum að yfirgefa landið þrátt fyrir að eiga eiginmann hér á landi. Ekki var því hægt að líta svo á að kærandi hafi myndað tengsl við landið, í skilningi athugasemda við 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá hafi henni heldur ekki verið veitt ótímabundið dvalarleyfi. Jafnframt tali kærandi kúrdísku, sem sé helsta tungumálið sem notað er í Kúrdistan og þrír synir hennar séu búsettir í Kúrdistan. Það var mat Útlendingastofnunar að það væri ekki ósanngjörn ráðstöfun að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda með vísan til d-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Þegar af þeirri ástæðu var beiðni hennar um endurnýjun á dvalarleyfi sem hún hafði áður fengið veitt á grundvelli alþjóðlegrar verndar synjað.

Útlendingastofnun taldi, með vísan til orðalags 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um „ríka þörf á vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á þeim grundvelli verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar með tilliti til heilsufars og félagslegra þátta, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild sinni. Stofnunin mat það svæði sem kærandi býr nú á sem öruggt svæði og tók fram að kúrdísk stjórnvöld séu jafnframt með virkt refsivörslukerfi sem geti aðstoðað kæranda þurfi hún á því að halda eða óski eftir því. Niðurstaða Útlendingastofnunar var því sú að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda brjóti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga í ljósi þess að hún er ekki stödd hér á landi og hafi farið af sjálfsdáðum til heimalands síns fyrir nokkrum árum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi aðlagast illa hér á landi eftir að hafa fengið dvalarleyfi þann 9. júlí 2012. Hún og synir hennar hafi ekki haft aðgang að atvinnu eða námi sem hafi leitt til mikillar andlegrar vanlíðunar. Það hafi valdið því að hún ákvað að fara til Svíþjóðar með syni sína þar sem fjölskyldan eigi skyldmenni. Síðar hafi hún haldið til Chamchamal í Kúrdistan, Írak. Kærandi bendi á að þrátt fyrir að ástandið hafi skánað í Kúrdistan að þá sé það ekki í þeim mæli að ekki sé hættuástand þar lengur, heldur sé hættan í annarri mynd en árið 2011 þegar eiginmaður kæranda hafi flúið landið. Það verði að skoða sem eðlilega afleiðingu hins óeðlilega ástands, þ.e. í formi húsnæðisskorts og fátæktar. Þá sé ekki fyrirséð að stríðserjur séu ekki til staðar, enda Mosul skammt frá, eða í um tveggja klukkustunda akstursleið. Afleiðingar stríðsins sjáist glöggt ennþá, sbr. frétt á vefsvæði Sameinuðu þjóðanna frá 27. nóvember sl.

Kærandi byggir á því að ástandið í Chamchamal sé afar erfitt. Fréttir hafi borist um að þar ætti að setja herlög til verndar almenningi. Nýlega hafi verið þar árásir grímuklæddra manna, sem kærandi telji tilheyra ISIS öfgasamtökunum. Sá atburður hafi verið til marks um það að þótt búið sé að hrekja samtökin frá völdum í flestum þorpum og bæjum í Írak að þá séu hópar samtakanna enn starfandi. Kærandi bendi á að jafnvel þótt þessir hópar séu mun minni en áður og að samtökin hafi minnkað verulega þá séu þeir hættulegir almenningi á svæðum Kúrda.

Kærandi bendi á þá staðreynd að Írak sé enn að verulegu leyti háð aðstoð alþjóðasamfélagsins, þ.m.t. Sameinuðu þjóðunum, í formi öryggismála, enda hafi stærstu ríki heims sent heri sína til eða við Írak til að uppræta öfgasamtök ISIS. Þá séu merki um að máttur ISIS fari ekki þverrandi þótt að þeim sé sótt. Kærandi óttist að hefndaraðgerðir samtakanna verði miklar og að þeim verði beitt gegn Kúrdistan enda hafi það verið þar sem árásir ISIS hafi hafist upp úr arabíska vorinu. Alkunna sé að íröksk stjórnvöld standi höllum fæti, bæði hernaðarlega og fjárhagslega, og að afleiðing þess sé að uppbygging sé hægfara, auk þess sem aðstæður skapi hættur fyrir Kúrda.

Þrátt fyrir að Kúrdistan njóti sérstakrar heimastjórnar þá hafi héraðið löngum átt undir högg að sækja. Óeirðir milli Kúrda og annarra þjóðarbrota í Írak hafi ávallt verið til staðar og Kúrdar hafi í raun hvergi getað hallað höfði sínu í öryggi þess sem almenn mannréttindi eigi að bjóða. Ofan á það spinnist svo aðstæður dagsins í dag þar sem óöryggið sé algert. Kærandi hafist við í yfirgefinni skólabyggingu og eigi ekki greiðan aðgang að lífsnauðsynjum, s.s. mat og vatni, svo ekki sé minnst á aðra þætti sem veiti fólki öryggi og þægindi í venjulegu og eðlilegu ástandi samfélags. Kærandi og sonur hennar búi við ótta í Chamchamal. Að þeirra mati sé augljóst að þau njóti ekki þeirrar verndar sem heimaland þeirra hafi upp á að bjóða. Svo virðist vera sem Útlendingastofnun láti sér nægja að taka til greina að uppbygging hafi átt sér stað síðastliðin misseri án þess að taka tillit til umfangs nauðsynlegra aðgerða og uppbyggingar svo kærandi teljist geta treyst á vernd heimaríkis síns.

Þá bendi kærandi á það að eiginmaður hennar og barnsfaðir sé búsettur hér á landi og hafi dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar. Hjón eigi réttindi og skyldur sem ríkisvald geti ekki skert, þ.m.t. framfærsluskyldur, en eiginmanni kæranda sé með ákvörðun Útlendingastofnunar gert ómögulegt að uppfylla skyldur sínar gagnvart maka sínum og börnum. Engu breyti í þessu samhengi hvort fjölskylda hans hafi farið sjálfviljug til baka til heimalands síns. Það sem skipti meira máli sé að þau hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess, enda hafi þau búið við einangrun hér á landi.

Kærandi vísi í skilgreiningu 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um útlendinga á flóttamanni og telji hún sig uppfylla öll skilyrðin sem skilgreiningin marki. Í 3. mgr. 23. gr. laganna sé sérstaklega kveðið á um aukna rannsóknarskyldu í málum sem varði alþjóðlega vernd, en samkvæmt henni beri Útlendingastofnun skylda til að eiga samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áður en ákvörðun sé tekin. Að mati kæranda fáist ekki séð að samræmi sé á milli túlkana Sameinuðu þjóðanna og Útlendingastofnunar á aðstæðum í Kúrdistan, nánar tiltekið Chamchamal, Mosul eða Kirkuk.

Samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga sé óheimilt að senda útlending aftur á þann stað þar sem honum er hætta búin. Jafna verði stöðu kæranda til þess, þar sem telja verði óheimilt að halda útlendingi á þeim stað sem honum sé hætta búin, þótt hann hafi farið þangað sjálfur vegna þekkingarleysis á íslenskum lögum og alþjóðlegum reglum.

Kærandi óski eftir því til vara að fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hún vísi í réttindi barna til að umgangast báða foreldra sína, meginreglna hjúskaparréttar, réttindi hjóna til að fá að búa í samvistum og njóta lífsins í sameiningu. Samkvæmt upplýsingum frá eiginmanni kæranda sé hún haldin geðlægð sökum slyss eða áfalls. Hún hafi sætt skoðun þar að lútandi, en ástandið sé enn til staðar að mati eiginmanns hennar.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Þá á útlendingur almennt rétt á alþjóðlegri vernd uppfylli hann tiltekin skilyrði um fjölskyldutengsl við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi fengið alþjóðlega vernd á grundvelli þágildandi 4. mgr. 46. gr. eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, sem er sambærileg 2. mgr. 45. gr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016.

Í 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga, sem byggir á C-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Heimilt er að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr., þ.e. ef:

  1. hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns,
  2. hann hefur sjálfviljugur endurheimt ríkisfang sitt sem hann hafði glatað,
  3. hann hefur öðlast nýtt ríkisfang og nýtur verndar hins nýja heimalands,
  4. hann hefur sjálfviljugur sest að á ný í landi því sem hann yfirgaf eða dvaldist ekki í vegna ótta við ofsóknir,
  5. hann getur ekki lengur neitað að hagnýta sér vernd heimalands síns vegna þess að aðstæður þær sem höfðu í för með sér að hann var viðurkenndur flóttamaður eru ekki lengur fyrir hendi,
  6. hann getur horfið aftur til landsins sem hann hafði áður reglulegt aðsetur í vegna þess að aðstæður þær sem leiddu til þess að hann var viðurkenndur flóttamaður eru ekki lengur fyrir hendi, ef um ríkisfangslausan mann er að ræða.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir:

Greinin er sambærileg 47. gr. a gildandi laga um útlendinga og kveður á um skilyrði fyrir afturköllun alþjóðlegrar verndar. Ákvæðið á stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamningsins og er sambærilegt ákvæði að finna í norskum útlendingalögum. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skal túlkun fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók Flóttamannastofnunar. Rétt þykir að hafa heimildarákvæði sem þetta í lögum þótt líklegt sé að ekki reyni oft á það þar sem útlendingur hefur myndað tengsl við land þar sem hann nýtur alþjóðlegrar verndar og jafnvel fengið ótímabundið dvalarleyfi áður en aðstæður breytast í heimalandi eða fyrra búsetulandi. Getur reynt á þetta ákvæði þegar um er að ræða flóttamenn skv. 1. og 2. mgr. 37. gr., sem og fjöldaflóttaákvæði skv. 44. gr. Ávallt skal miðað við að ákvörðun byggist á mati á aðstæðum hvers einstaklings. Greinin er einnig með fyrirvara um beitingu 1. mgr. 42. gr. um bann við endursendingum þar sem sú grein á við.

Í þriðja kafla handbókar um réttarstöðu flóttamanna, málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna er fjallað um ákvæði sem binda enda á réttarstöðu flóttamanns. Þar segir að fyrstu fjórir töluliðir C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins fjalli um tilvik þar sem aðstæður flóttamanns hafa breyst af hans eigin völdum. Ákvæðin sem binda enda á réttarstöðu eru í eðli sínu takmarkandi og í þeim er að finna tæmandi upptalningu. Af þessum sökum ætti að túlka þau þröngt og ekki er heimilt að beita lögjöfnun til að færa rök fyrir öðrum ástæðum til að afturkalla réttarstöðu flóttamanns.

Eins og að framan greinir leiðir af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga að ákvæðið veitir heimild til afturköllunar alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður fellur ekki lengur undir skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 39. gr. laganna. Af athugasemdum við greinargerð má þó lesa að ákvæðinu sé einnig ætlað að ná til útlendinga sem veitt hefur verið vernd á grundvelli 44. gr. laganna, þ.e. vegna fjöldaflótta. Ákvæði 37. gr. og 44. gr. eiga það sammerkt að fjalla um vernd sem veitt er vegna flótta umsækjanda frá tilteknu landssvæði vegna aðstæðna tengdu ástandi á því landssvæði.

Fram hefur komið að ákvæði 37. gr. og 48. gr. laga um útlendinga eiga sér bæði stoð í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og er ákveðið samhengi milli ákvæðanna. Þannig er grundvöllur veitingar réttarstöðu flóttamanns skv. 37. gr. laganna, sbr. jafnframt 38. gr. laganna, að einstaklingur hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir og þurfi á vernd annars ríkis að halda vegna þess að slík vernd sé ekki til staðar í heimaríki. Ákvæði 48. gr. laga um útlendinga endurspegla þennan grundvöll fyrir vernd enda vísa þau tilvik sem þar eru talin upp til þess að þær ástæður sem geta leitt til veitingar á réttarstöðu flóttamanns séu ekki lengur fyrir hendi. Orðalagið „fellur ekki lengur“ í upphafsákvæði 48. gr. laga um útlendinga vísar jafnframt með beinum hætti til þess að ákvæðið eigi við þegar flóttamaður hafi, þegar vernd var upphaflega veitt, fallið undir skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr., 39. gr. eða eftir atvikum, 44. gr. laga um útlendinga.

Áður hefur verið rakið að kæranda og barni hennar var veitt vernd vegna fjölskyldutengsla við flóttamann, sbr. 4. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, sem er í grundvallaratriðum samhljóða 2. mgr. 45. gr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016. Grundvöllur verndar skv. 2. mgr. 45. gr. er í veigamiklum atriðum annars eðlis en skv. 37., 39. og 44. gr. laga um útlendinga. Forsendur verndar skv. 2. mgr. 45. gr. varða þannig aðeins óbeint ástandið í heimaríki eða fyrrum dvalarríki flóttamanns eða ótta hans við ofsóknir. Vernd samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi á grundvelli tiltekinna fjölskyldutengsla, þ.e. maka eða sambúðarmaka útlendings sem nýtur verndar samkvæmt IV. kafla laganna eða barna hans yngri en 18 ára sem eru án maka eða sambúðarmaka. Þótt ótvírætt sé að ákvæðið geri ráð fyrir því að fjölskyldumeðlimir flóttamanns þurfi á sambærilegri vernd að halda leiðir af lagagrundvellinum að slíka vernd má þó veita án þess að útlendingur þurfi að sýna fram á ótta við ofsóknir eða aðrar erfiðar aðstæður í heimaríki. Slík vernd er þannig ótengd þeim ástæðum sem tilgreindar eru í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Af því leiðir að grundvöllur þeirrar alþjóðlegu verndar sem veitt er skv. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga tengist aðeins óbeint þeim skilyrðum afturköllunar sem útlistuð eru á tæmandi hátt í 1. mgr. 48. gr. laganna. Þá er ekki vísað sérstaklega í grundvöll verndar skv. 2. mgr. 45. gr. í 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga eða í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi.

Í ljósi orðalags 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga og samræmis milli ákvæða laganna telur kærunefnd ekki unnt að túlka ákvæðið með þeim hætti að afturköllun verndar skv. 2. mgr. 45. gr. geti verið byggð á ákvæðum 48. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar kemur afturköllun verndar sem veitt er á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga almennt aðeins til greina ef forsendur verndarinnar, þ.e. þau fjölskyldutengsl sem þar eru tilgreind við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar, séu ekki lengur fyrir hendi og uppfyllt séu önnur skilyrði almennra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun slíkrar verndar. 

Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun verndar kæranda og barns hennar og synjun um endurnýjun á dvalarleyfi þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda og barns hennar um endurnýjun dvalarleyfis til nýrrar meðferðar í samræmi við niðurstöðu þessa úrskurðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og ólögráða barns hennar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsóknir kæranda og barns hennar um endurnýjun dvalarleyfis til nýrrar meðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant and her child are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants´ applications for renewal of their residence permits.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                    Pétur Dam Leifsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta