Hoppa yfir valmynd
11. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 1/2024

Mánudaginn 11. mars 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. janúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. desember 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið nóvember 2022 til febrúar 2023.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu nóvember 2022 til febrúar 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. desember 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir þá mánuði. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 248.190 kr., án álags.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. janúar 2024. Með bréfi, dags. 9. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 22. janúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála krefst kærandi þess að farið verði yfir verklag og reglur Fæðingarorlofssjóðs er varði launahækkanir (kjarasamningsbundnar og aðrar) á meðan á fæðingarorlofi standi og að réttur til að taka hlutfallslegt fæðingarorlof samhliða hlutfallslegri vinnu sé virtur án þess að til skerðinga komi. Ekki sé rétt að miða leyfilegar tekjur við margra ára gamlar launatölur sem séu löngu úreltar og í engu samræmi við þau laun sem hafi verið í gangi á vinnumarkaði á umræddu tímabili. Kærandi hafi lent í því að þurfa að endurgreiða allt fæðingarorlof á fjögurra mánaða tímabili vegna hærri tekna á þeim rúmu tveimur árum sem liðið höfðu frá viðmiðunartímabili fæðingarorlofssjóðs. Launahækkanir á almennum vinnumarkaði hafi verið þær mestu í mörg ár á þessu tímabili og það hafi komið illilega niður á kæranda. Hann hafi unnið 80% og verið í 20% fæðingarorlofi en vegna hærri tekna hafi hann verið yfir viðmiðum sjóðsins og hafi því ekki mátt taka fæðingarorlof samhliða vinnu.

Kærandi hafi lagt mikið upp úr því að vinna ekki meira en 80% og í góðri trú um að hann væri ekki að gera neitt rangt. Ári eftir að orlofið hafi verið greitt út hafi Fæðingarorlofssjóður samband og krefjist gagna sem hann nýti síðan sem rökstuðning fyrir endurgreiðslukröfu vegna „ofgreidds“ fæðingarorlofs. Kærandi skilji ekki hvernig það standist kröfur um meðalhóf og markmið með fæðingarorlofi að neita þeim sem vilji taka hlutfallslegt fæðingarorlof. Kærandi hafi tekið hlutfallslegt fæðingarorlof þar sem fullt fæðingarorlof (80% af tveggja ára gömlum launum) dugi ekki til þess að reka heimili. Á sama tíma og verðlagshækkanir hafi verið miklar og launahækkanir líka telji Fæðingarorlofssjóður það svindl af hans hálfu að hafa tekið hlutfallslegt orlof til þess að drýgja tekjur heimilisins (án þess að unnið væri meira en 80%). Reglur um að fæðingarorlof sé ætlað að bæta tekjutap án þess að til komi tekjuauki séu mjög ófullkomnar í svona aðstæðum og geri það að verkum að þeim sem séu svo óheppnir að hafa ekki efni á því að taka á sig mikla launalækkun á sama tíma og ungabarn sé komið í heiminn sé neitað um einu leiðina sem í boði sé til þess að taka fæðingarorlof. Kærandi hefði glaður tekið 100% fæðingarorlof ef það hefði verið í boði, aðstæður heima fyrir hafi verið mjög erfiðar og það hafi verið gífurlegt álag að vinna á þessum tíma. Annað hafi þó ekki verið í boði. Reglur Fæðingarorlofssjóðs komi niður á þeim sem séu efnaminni og/eða hafi ekki bakland. Það geti ekki talist eðlilegt.

Réttur til fæðingarorlofs sé varinn í lögum en reglur og reglugerðir komi svo í veg fyrir að sumir þjóðfélagshópar geti nýtt orlofið. Það sé skrýtið, sérstaklega í ljósi þess að mikil opinber umræða hafi verið um hversu slæmt það sé að feður nái ekki að fullnýta fæðingarorlof. Það sé vegna reglna sem þessara sem komi í veg fyrir að fjölskyldur geti lifað af í fæðingarorlofi. Ekkert tillit sé tekið til útgjalda heimils, fjölda barna eða þess að mörg börn hafi komið í heiminn á skömmum tíma. Ekkert tillit sé tekið til þess að annað barna þeirra hjóna hafi látist á meðgöngu og vegna þess hafi þau eignast mjög fatlað barn með heilaskaða, heilalömun, flogaveiki og aðra kvilla. Það sé mjög ósanngjarnt að setja alla í sama flokk, að láta sömu reglur gilda um fólk sem sé að eignast sitt fyrsta barn og þeirra sem séu að eignast annað barn á tveimur árum. Kærandi sé ekki að fara fram á hærra fæðingarorlof eða neina sérmeðferð heldur rétt til að taka út það litla fæðingarorlof sem sé í boði samhliða vinnu án þess að til skerðinga komi. Þetta sé betur rakið í fylgiskjölum. Úrskurðarnefnd þurfi að skoða launahækkanir á umræddu tímabili og hvort að Fæðingarorlofssjóður hafi reiknað rétt viðmiðunartímabil en þá hafi kærandi verið bæði í fæðingarorlofi og á hlutabótaleið vegna Covid. Kærandi telji öruggt að útreikningar Fæðingarorlofssjóðs séu rangir.

 

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir nóvember og desember 2022 og janúar og febrúar 2023 þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá sínum vinnuveitanda á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2021.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. október 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir janúar og febrúar 2023. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Launaseðlar, tímaskýrslur og skýringar vinnuveitanda hafi borist, dags. 25. október 2023. Við yfirferð gagnanna hafi komið í ljós að einnig þyrfti að óska eftir gögnum vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir nóvember og desember 2022. Skýringar kæranda, launaseðlar og tímaskýrslur hafi borist, dags. 8. nóvember 2023. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 8. nóvember 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og innsendum skýringum og gögnum að kærandi hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna. Þá hafi borist beiðni um niðurfellingu á 15% álagi, dags. 16. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 11. desember 2023, hafi niðurfelling á 15% álagi verið samþykkt, auk þess sem kæranda hafi verið send ný greiðsluáskorun þar sem upphæð meðaltals heildarlauna hafi verið leiðrétt og honum tilkynnt að tekið hefði verið tillit til skýringa hans og vinnuveitanda vegna launa í nóvember og desember. Það sé hin kærða ákvörðun.  

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. 13. gr. sé starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu.  

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 1. mgr. 25. gr. að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.  

Með umsókn kæranda, dags. 5. ágúst 2022, hafi hann sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem hafi fæðst X 2021. Tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda og hann hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 24. ágúst 2023.  

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hans verið 687.260 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi töku fæðingarorlofs hefðu þau hækkað í 727.742 kr. sem hafi verið miðað við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, honum til hagsbóta, við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. Einnig hafi greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði verið uppreiknaðar í þær viðmiðunartekjur sem þær greiðslur miðuðust við í samræmi við 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020. Þá heimili 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna ekki að eingöngu skuli miðað við launakjör foreldris á því tímamarki er foreldri hefji töku fæðingarorlofs heldur beri að miða við meðaltal heildarlauna á því viðmiðunartímabili samkvæmt 7. málsl. sem liggi til grundvallar hverju sinni. Ekki sé heimilt að taka tillit til launabreytinga eftir upphaf fæðingarorlofs foreldis við mat á ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna.  

Tímabilið 1. til 30. nóvember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 109.962 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 145.548 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 35.587 kr., miðað við 20% fæðingarorlof, án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir nóvember 2022 hafi kærandi þegið 837.896 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna í nóvember 2022 784.547 kr. Hann hafi því fengið 121.323 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum á því tímabili en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir nóvember 2022 miðað við 20% fæðingarorlof sé því 64.732 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 31. desember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 109.962 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 145.548 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 35.587 kr., miðað við 20% fæðingarorlof, án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir desember 2022 hafi kærandi þegið 860.934 kr. í laun. Að teknu tilliti til skýringa kæranda og vinnuveitanda sé greiðsla launa fyrir vinnu unna í desember 2022 716.283 kr. Hann hafi því fengið 107.670 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum á því tímabili en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir desember 2022 miðað við 20% fæðingarorlof sé því 61.153 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 30. janúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 109.962 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 145.548 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 35.587 kr., miðað við 20% fæðingarorlof, án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir janúar 2023 hafi kærandi þegið 717.363 kr. í laun. Í skýringum vinnuveitanda og kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í janúar 2023. Hann hafi því fengið 107.886 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir janúar 2023 miðað við 20% fæðingarorlof sé því 61.153 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 28. febrúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 109.962 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 145.548 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 35.587 kr., miðað við 20% fæðingarorlof, án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir febrúar 2023 hafi kærandi þegið 717.363 kr. í laun. Í skýringum vinnuveitanda og kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í febrúar 2023. Hann hafi því fengið 107.886 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir febrúar 2023 miðað við 20% fæðingarorlof sé því 61.153 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í ákvæði 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna heimild til að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris og að taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Þannig heimili ákvæðin ekki að miðað sé einvörðungu við launakjör foreldris eins og þau séu við upphaf fæðingarorlofs né að tekið sé tillit til launabreytinga eftir fyrsta dag fæðingarorlofs.  

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að foreldri sé heimilt að taka fæðingarorlof samhliða skertu starfshlutfalli og að ekki sé heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Foreldri geti því ekki nýtt fæðingarorlof yfir staka daga heldur þurfi hvert tímabil fæðingarorlofs að ná yfir að minnsta kosti hálfan mánuð í senn. Í tilfelli kæranda hafi hann sótt um 20% fæðingarorlof fyrir tímabilið 1. nóvember til 28. febrúar 2023. Kærandi hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við tilkynningar þar um. Greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr., í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs kæranda í þeim almanaksmánuðum sem greitt hafi verið fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr. laga nr. 144/2020, og skuli því koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein.  

Eins og áður hafi verið rakið hafi í greiðsluáskorun til kæranda, dags. 11. desember 2023, verið gætt að uppreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði í samræmi við 4. mgr. 23. gr. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda. Einnig hafi verið tekið tillit til launabreytinga í samræmi við 7.-8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt gögnum málsins sé óumdeilt að kærandi hafi fengið greitt frá vinnuveitanda fyrir sama tímabil og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eigi við. Í lögum nr. 144/2020 sé ekki að finna heimild til að fella niður eða lækka endurkröfu vegna aðstæðna eins og þeirra sem sé lýst í kæru á högum kæranda og fjölskyldu hans.  

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 248.190 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 248.190 kr., sbr. bréf til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 11. desember 2023.  

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið nóvember 2022 til febrúar 2023.

Í 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um viðmiðunartímabil og útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X 2021. Kærandi skipti fæðingarorlofi sínu á fleiri en eitt tímabil og tók fæðingarorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli eins og heimilt er samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020, meðal annars 20% orlof á tímabilinu nóvember 2022 til febrúar 2023 sem ágreiningur málsins lýtur að. Kærandi hafði þá þegar tekið 20% orlof í september 2022 og 100% í október 2022.

Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. ágúst 2023, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili, frá mars 2020 til og með febrúar 2021, hafi verið 687.260 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri því 549.808 kr. miðað við 100% fæðingarorlof. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi töku fæðingarorlofs, þ.e. september 2022, höfðu þau hækkað í 727.742 kr. Tekið var mið af þeirri fjárhæð við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020, kæranda til hagsbóta.

Kærandi fékk greiddar 109.962 kr. úr Fæðingarorlofssjóði fyrir nóvember 2022, desember 2022, janúar 2023 og febrúar 2023 og var á því tímabili einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans miðað við 20% fæðingarorlof og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur frá vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í fyrirliggjandi sundurliðun vegna ofgreiðslu til kæranda kemur fram að hann hafi í nóvember 2022 fengið greiddar 121.323 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu. Í desember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 107.670 kr. umfram það sem heimilt var samkvæmt framangreindu og 107.886 kr. í janúar og febrúar 2023. Ofgreiðsla fyrir framangreint tímabil næmi því samtals 248.190 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. laga nr. 144/2020 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Fyrir liggur að fallist var á það í tilviki kæranda að fella niður álagið.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi fékk ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið nóvember 2022 til febrúar 2023 þar sem hann fékk of háar greiðslur frá vinnuveitanda samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. það sem að framan er rakið. Fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda nemur 248.190 kr., án álags, en ákvæði 41. gr. laga nr. 144/2020 er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið nóvember 2022 til febrúar 2023 því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. desember 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið desember 2022 til febrúar 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta