Grunn- og framhaldsnámskeið um NPA
Félagsmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um þátttöku væntanlegra notenda, aðstoðarmanna og umsýsluaðila á grunn- og framhaldsnámskeið um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Ráðuneytið skipuleggur námskeiðin í samráði við hagsmunaaðila og munu grunnnámskeiðin verða haldin að minnst kosti fjórum sinnum árið 2019. Ekki liggur fyrir hver fjöldi framhaldsnámskeiða verður en það ræðst af fjölda umsækjenda.
Hvert grunnnámskeið tekur sextán klukkustundir og skiptist á tvær vikur. Fyrri vikuna verður kennt í tvo daga frá klukkan 09.00 – 13.00 og seinni vikuna tvo daga frá klukkan 09.00 – 13.00. Hvert framhaldsnámskeið tekur fjórar klukkustundir fyrir notendur og ef notendur ætla einnig að annast umsýslu þá bætast fjórar klukkustundir við.
Fyrsta grunnnámskeiðið verður haldið í húsnæði Framvegis, Skeifunni 10b dagana 28. til 29. maí og 3. til 4. júní. Umsækjendum er bent á að sækja um á vef Framvegis.
Fólk sem býr á landsbyggðinni hefur tækifæri til þess að sækja þessi námskeið hjá símenntunarstöðvum víðs vegar um landið.
Námskeiðslýsingu er hægt að nálgast á vefsíðu NPA hjá félagsmálaráðuneytinu.
Þeir ganga fyrir á námskeiðinu í maí sem eru að gera sína fyrstu samninga á árinu 2019.
Umsóknarfrestur er til 20. maí 2019.
Fleiri grunn- og framhaldsnámskeið verða haldin frá september til nóvember 2019.