Trú, kyn og stjórnmál í ljósi mannréttinda
Linda Hogan, prófessor í samkirkjulegri guðfræði, er sjötti fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) á vormisseri 2018. Fyrirlestur hennar nefnist: „Trú, kyn og stjórnmál í ljósi mannréttinda. Sifjafræðileg greining“ og verður fluttur í Hátíðasal Háskóla Íslands mánudaginn 19. mars á milli kl. 12.00 og 13.00.
„Sambandið á milli trúar og mannréttinda er umdeilt hitamál, ekki síst þegar fjallað er um jafnrétti kynjanna og mannréttindi kvenna. Í fyrirlestrinum er því haldið fram að trúarbrögð geti verið mikilvægur bakhjarl í baráttu fyrir mannréttindum kvenna en því aðeins að sifjafræðilegri gagnrýni sé beitt á trúarbrögðin. Slík gagnrýni skorar á hólm eðlishyggjulegan skilning á menningu, einsleitni samfélaga og óbreytanleika hefða,“ eins og segir í frétt frá UNU-GEST.
Linda Hogan er prófessor í samkirkjulegri guðfræði við Trinity-háskóla í Dublin og fyrrverandi aðstoðarrektor við skólann. Hún kennir og rannsakar siðfræði fjölmenningar og samskipti trúarbragða, kyn og mannréttindi. Síðasta bókin hennar heitir Keeping Faith with Human Rights og kom út hjá Georgetown University Press, 2016.
Fyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) á vormisseri 2018 er tileinkuð Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en í ár eru 70 ár síðan hún var samþykkt.
Mannréttindayfirlýsingin nær yfir grundvallarréttindi sem allir menn – karlar og konur – eiga tilkall til. Markmið fyrirlestraraðarinnar er að fjalla um þá þætti sem viðhalda kynjamismunun og ójafnrétti í ólíkum samfélögum og vekja athygli á gildi mannréttinda sem verkfæris til að takast á við viðvarandi kynjaójöfnuð.
Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.
Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn.
Finndu viðburðinn á Facebook!