Brýn þörf á samtakamætti um björgun hafsins
Í dag, 8. júní, er alþjóðlegur dagur hafsins. Markmiðið með deginum er að auka vitund almennings um hafið og þess mikilvæga hlutverks sem höfin hafa í daglegu lífi okkar og velferð. „Endurnýjun: sameiginleg aðgerð fyrir hafið“ er þema dagsins af hálfu Sameinuðu þjóðanna og undirstrikar brýna nauðsyn þess að íbúar jarðar taki höndum saman um að bjarga hafinu.
Í lok þessa mánaðar verður haldin önnur alþjóðleg ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um hafið: UN Ocean Conference. Þá koma saman þjóðarleiðtogar, frumkvöðlar, ungmenni og fulltrúar frjálsra félagasamtaka í Lissabon, höfuðborg Portúgal, til þess meðal annars að ræða nýjungar byggðar á vísindum um nýjan kafla í alþjóðlegum aðgerðum til bjargar hafinu.
Hafráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna var síðast haldin 2017 en annarri ráðstefnunni hefur verið ítrekað frestað. Megintilgangur hennar er að endurnýja fyrirheit um að ná heimsmarkmiði 14, Líf í vatni - Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun.
Einnig má nefna að í ár er alþjóðlegt ár fiskveiða (International year of artisanal fisheries) og fiskeldis í smáum stíl og einnig stendur nú yfir UNESCO áratugur vísinda í þágu hafsins.
Hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram dagana 27. júní til 1. júlí. Gestgjafar eru ríkisstjórnir Portúgal og Kenía.