Þörf á endurnýjaðri von um samstöðu
Í dag, á stofndegi Sameinuðu þjóðanna, kallar António Guterres aðalframkvæmdastjóri samtakanna eftir því að glæða gildi sáttmála Sameinuðu þjóðanna lífi í hverju heimshorni. Hann kallaði jafnframt eftir endurnýjaðri von og vissu um samstöðu á heimsvísu í ávarpi sem hann flutti í tilefni dagsins.
Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar upp úr rústum síðari heimsstyrjaldarinnar og stofnskrá samtakanna var staðfest á þessum degi, 24. október, árið 1945. „Á sama tíma og við höldum upp á dag Sameinuðu þjóðanna skulum við blása nýju lífi í von og trú okkar á því hverju við getum áorkað þegar við vinnum saman öll sem eitt,“ sagði Guterres og minnti á að samtökin hefðu verið stofnuð til þess að afstýra átökum og byggja upp alþjóðasamvinnu.
„Í dag reynir á samtökin okkar sem aldrei fyrr. En Sameinuðu þjóðirnar voru gerðar fyrir svona augnablik.“
Eitt af megin markmiðum Sameinuðu þjóðanna er að binda enda á sárafátækt, draga úr ójöfnuði og bjarga heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun sem samþykkt voru af öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 2015.
Guterres benti í ávarpi sínu á að Sameinuðu þjóðirnar ættu að standa vörð um jörðina, meðal annars með því að segja skilið við jarðefnaeldsneyti og hefja byltingu endurnýjanlegrar orku. Hann vakti einnig athygli á því hvernig Sameinuðu þjóðirnar freista þess að skapa jöfn tækifæri og frelsi fyrir konur og stúlkur og tryggja um leið mannréttindi fyrir alla.
Í tengslum við heimsmarkmiðin og aukið vægi þróunarsamvinnustefnu Íslands í þróunarstarfi og mannúðarmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er ein staða hjá fastanefnd Íslands í New York skilgreind sem staða þróunarsamvinnufulltrúa. Markmiðið er að fylgja betur eftir áherslum Íslands innan stofnana Sameinuðu þjóðanna sem sinna málaflokkum sem tengjast þróunarstarfi.