Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2001 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 29. ágúst 2001

Ár 2001, miðvikudaginn 29. ágúst, var fundur haldinn í Mannanafnanefnd. Fundinn sátu Andri Árnason, formaður, Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir.

Eftirtalin mál voru tekin til afgreiðslu:

 

Mál nr. 76/2001

Eiginnafn: Gígja (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Nafnið Gígja telst vera viðurkennt ættarnafn, auk þess sem nafnið hefur öðlast hefð sem eiginnafn kvenna. Teljast því ekki lagaskilyrði fyrir nafninu sem eiginnafni karla, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Gígja er hafnað.

 

Mál nr. 77/2001

Eiginnafn: Barbára (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Barbára telst vera ritmynd eiginnafnsins Barbara og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Barbára er samþykkt og skal fært á mannanafnaskrá sem ritmynd af Barbara.

 

Mál nr. 78/2001

Eiginnafn: Anastasía (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Anastasía tekur eignarfallsendingu (Anastasíu) og fullnægir því 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Anastasía er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá.

 

 

Mál nr. 79/2001

Eiginnafn: Isabella (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Beiðni um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar frá 7. júlí 1999. Til rökstuðnings endurupptökubeiðni vísar úrskurðarbeiðandi m.a. til þess, að nafnið Ida sé skráð á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Ída.

Mannanafnanefnd vísar til þess, að nafnið Ida taldist hafa unnið sér hefð í íslensku vegna fjölda nafnbera. Isabella telst hins vegar ekki hafa unnið sér hefð með slíkum hætti í íslensku. Isabella telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Beiðni um endurupptöku er hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um endurupptöku úrskurðar frá 7. júlí 1999 er hafnað.

 

Mál nr. 80/2001

Eiginnafn: Kæja (kvk.)

Kæja telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, og ekki telst vera hefð fyrir þessum rithætti í þessu eða sambærilegum nöfnum.

Úrskurðarorð:

Beiðni um Kæja er hafnað.

 

Mál nr. 81/2001

Eiginnafn: Brimi (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Brimi tekur eignarfallsendingu (Brima) og fullnægir því 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Brimi er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá.

 

 

Mál nr. 82/2001

Staskuté verður Sólonsdóttir

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um aðlögun kenninafnsins Staskuté í Sólonsdóttir er samþykkt.

 

 

Mál nr. 83/2001

Millinafn: Bláfeld Staskuté

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Bláfeld telst fullnægja 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 og verður fært á millinafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Bláfeld er samþykkt og verður það fært á millinafnaskrá.

 

 

Mál nr. 84/2001

Eiginnafn: Petronella (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Petronella telst vera ritmynd af nafninu Petrónella og verður fært á mannanafnaskrá sem slíkt.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Petronella er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá sem ritmynd Petrónella.

 

Mál nr. 85/2001

Eiginnafn: Marten (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Marten telst vera ritmynd eiginnafnsins Martin og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Marten er samþykkt og skal fært á mannanafnaskrá sem ritmynd af Martin.

 

 

Fleira ekki gert, fundi slitið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta