Hoppa yfir valmynd
4. október 2001 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 4. október 2001

Ár 2001, 4. okt. 2001, var fundur haldinn í Mannanafnanefnd. Fundinn sátu Andri Árnason, formaður, Guðrún Kvaran og Margrét Jónsdóttir.

Eftirtalin mál voru tekin til afgreiðslu:

Mál nr. 86/2001

Eiginnafn: Marijón (kk.)

Úrskurðarbeiðandi:

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Marijón tekur eignarfallsendingu (Marijóns) og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Marijón er tekin til greina og skal fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 87/2001

Eiginnafn: Heiðaringi (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Nafnið Heiðaringi telst samsett úr tveimur sjálfstæðum nöfnum. Telst slík samsetning brjóta í bág við íslensk málkerfi. Þá hefur nafnið ekki unnið sér hefð í íslensku. Beiðni um nafnið Heiðaringi er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Heiðaringi er hafnað.

Mál nr. 88/2001

Eiginnafn: Kristínbjörg (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Nafnið Kristínbjörg telst samsett úr tveimur sjálfstæðum nöfnum. Telst slík samsetning brjóta í bág við íslensk málkerfi. Þá hefur nafnið ekki unnið sér hefð í íslensku. Beiðni um nafnið Kristínbjörg er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um nafnið Kristínbjörg er hafnað.

Mál nr. 89/2001

Eiginnafn: Engill (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Engill tekur eignarfallsendingu (Engils) og samræmist að öðru leyti 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Engill er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 90/2001

Eiginnafnið: Elka (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Elka tekur eignarfallsendingu (Elku) og samræmist að öðru leyti 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Elka er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 91/2001

Eiginnafnið: Mekkin (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Mekkin telst vera ritmynd af eiginnafninu Mekkín og verður fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Mekkin er samþykkt og verður það fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Mekkín.

Mál nr. 92/2001

Millinafn: Miðdal

Mannanafnanefnd hefur borist erindi dómsmálaráðuneytisins, dags. 31. ágúst 2001, þar sem óskað er álits mannanafnanefndar á umsókn XXX um að sonur hennar fái að taka upp millinafnið Miðdal, skv. 1. mgr. 13. gr. laganna sbr. 5. mgr. sömu greinar.

Millinafnið Miðdal telst uppfylla 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og verður fært á mannanafnaskrá.

Úrskurðarorð:

Millinafnið Miðdal er samþykkt og skal það fært á millinafnaskrá.

Mál nr. 93/2001

Eiginnafnið: Axelma (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Axelma tekur eignarfallsendingu (Axelmu) og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Axelma er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 94/2001

Eiginnafn: Rósenkrans (kvk)

Mannanafnanefnd hefur borist erindi dómsmálaráðuneytisins, dags. 11. september 2001, þar sem óskað er álits mannanafnanefndar á beiðni XXX um að fá að taka upp nafnið Rósenkrans sem eiginnafn, með vísun til 22. gr. laga um mannanöfn. Nafnið Rósinkrans er eiginnafn karla. Verður ritmynd þess, Rósenkrans, því ekki tekið á eiginnafnaskrá kvenna.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Rósenkrans (kvk) er hafnað.

Mál nr. 95/2001

Millinafn: Rósenkrans

Mannanafnanefnd hefur borist erindi dómsmálaráðuneytisins, dags. 11. september 2001, þar sem óskað er álits mannanafnanefndar á beiðni XXX um að fá að taka upp nafnið Rósenkrans sem millinafn, með vísun til 22. gr. laga um mannanöfn. Nafnið Rósinkrans er eiginnafn karla. Verður ritmynd þess, Rósenkrans, því ekki tekið á eiginnafnaskrá kvenna. Nafnið Rósenkrans (Rósinkrans) telst vera eiginnafn karla og verður því ekki tekið upp sem millinafn, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Rósenkrans er hafnað.

Mál nr. 96/2001

Eiginnafnið: Blær (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Blær telst vera karlmannsnafn, sbr. úrskurð þáverandi mannanafnanefndar frá 24. júní 1998, og er það á mannanafnaskrá sem slíkt. Með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er beiðni um eiginnafnið Blær sem kvenmannsnafn hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um nafnið Blær (kvk) er hafnað.

Mál nr. 97/2001

Eiginnafnið: Aaron (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Nafnið Aaron telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki er hefð fyrir umræddum rithætti. Er beiðni um eiginnafnið Aaron er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Aaron er hafnað.

Mál nr. 98/2001

Eiginnafn: Bangaly (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Skv. erindi úrskurðarbeiðanda er annað foreldri drengs erlendur ríkisborgari og upplýst er að föðurbróðir barnsins ber nafnið Bangaly. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 45/1996 er XXX heimilt að taka upp nafnið Bangaly fyrir dreng sinn.

Úrskurðarorð:

Beiðni XXX um eiginnafnið Bangaly fyrir dreng sinn er tekin til greina.

Mál nr. 99/2001

Eiginnafn: Sorin (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Skv. erindi Hagstofu Íslands dags. 1. okt. sl. f.h. úrskurðarbeiðenda er þess farið á leit við mannanafnanefnd að með úrskurði verði kenninafnið Sorinel aðlagað íslensku máli og dóttir úrskurðarbeiðenda fái kenningu til nafnsins Sorin (Sorinsdóttir).

Úrskurðarorð:

Beiðni úrskurðarbeiðenda um aðlögun nafnsins Sorinel í Sorin er tekin til greina.

Mál nr. 100/2001

Eiginnafn: Magnes (kvk)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Magnes tekur eignarfallsendingu (Magnesar) og uppfyllir að öðru leyti 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Magnes er tekin til greina og verður það fært á mannanafnaskrá.

Fleira ekki gert, fundi slitið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta