Hoppa yfir valmynd
11. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 12/2005

Þriðjudaginn, 11. október 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. febrúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. febrúar 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 3. janúar 2005 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Hér með fer ég fram á að við útgreikning greiðslna sem ég á rétt á að fá úr Fæðingarorlofsjóði verði tekið tillit til tekna sem ég vann mér inn á ágústmánuði 2004, en vantar í útreikning þann sem er að finna í fyrsta úrskurði Tryggingastofnunar þar að lútandi, dagsettum 24. nóvember og 7. desember 2004 og undirrituð af starfsfólki Fæðingarorlofssjóðs.

Í meðfylgjandi bréfum frá B, aðstoðarrektor D-háskóla og E, ritstjóra bókarinnar F, er vottað að ég hafi í ágústmánuði haft tekjur upp á samtals H krónur, Reiknað endurgjald af þessum verktakatekjum nemur I krónum. Þessar tekjur eru ekki inni í útreikningnum. Af þessum tekjum, sem ég fékk útborgaðar í septembermánuði, greiddi ég öll tilskilin opinber gjöld um mánaðarmótin september-október, en það breytir engu um að þetta eru tekjur fyrir vinnu sem innt var af hendi í ágúst.

Kæru minni til stuðnings leyfi ég mér að vitna til laga sem um þetta fjalla. Í 2. mgr. 13. gr laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Það tímabil sem miðað er við samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna er vinnutímabil starfsmannsins, þ.e. hvenær vinna var innt af hendi. Engu máli skiptir hvenær sú vinna kemur til útborgunar. Hvergi er minnst á gjalddaga kröfu. Það er alþekkt staðreynd að verktakar fá oft greitt fyrir vinnu sína samkvæmt útsendum reikningi jafnvel löngu eftir að vinnan var innt af hendi. Ýmsar ástæður geta legið því til grundvallar, t.d. óskir verkkaupa um að reikningur sé með tilteknum gjalddaga. Það breytir hins vegar engu um þá staðreynd að vinnan hefur verið unnin.

Samkvæmt mínum upplýsingum er Fæðingarorlofssjóður vanur að taka eftirágreidd laun launþega (sem í flestum tilvikum eru greidd út 1. virka dag næsta mánaðar á eftir) með í útreikning orlofsgreiðslna úr sjóðnum. Það sama á að gilda um verktaka, að mínu viti.

Hér tel ég ástæðu til að vísa einnig til meðalhófsreglu skv. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún hljóðar svo: „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“ Það er ótvírætt að stjórnvaldi, í þessu tilviki starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs/lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins, ber við lögskýringu að hafa hliðsjón af þessari reglu.

Í bréfi TR til mín, dagsettu 3. janúar 2005 og undirritað er af starfsmanninum I, kemur fram að viðurkennt sé að ég hafi fengið umræddar tekjur fyrir vinnu í ágúst, en engu að síður verði ekki tekið tillit til þeirra við útreikning orlofsgreiðslna til mín þar sem ég var ekki formlega skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingar fyrr en frá 1. september. Ég fæ ekki betur séð en að þessi útlegging sé íþyngjandi fyrir mig, einkum að teknu tilliti til þess að eftirágreidd laun launþega eru jafnan inni í slíkum útreikningum Tryggingastofnunar.

Ég vil hér ennfremur taka fram, að þessar verktakatekjur sem ég vann mér inn í ágústmánuði voru fyrstu slíku aukatekjur mínar ár árinu 2004, þar sem ég var annars í fullri vinnu sem launþegi á K. Skattkort mitt var fullnýtt vegna vinnu minnar þar. Ég veit ekki til þess að launþegar, sem taka að sér stök verkefni í verktakavinnu, séu skyldugir til að skrá sig sem sjálfstætt starfandi einstaklinga frá fyrsta degi þess mánaðar sem þeir taka slíkt verkefni að sér, svo fremi sem þeir standi skil á staðagreiðslu opinberra gjalda og lífeyrisiðgjalda þegar greitt hefur verið fyrir verkefnið.

Aðalatriðið hér er þó að miða ber útreikning fæðingarorlofsgreiðslna við vinnutímabil, ekki gjalddaga kröfu...“

 

Með bréfi, dagsettu 22. febrúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 31. mars 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 24. september 2004, sem móttekin var 12. október 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá og með 5. desember 2004. Umsóknin varðar barn kæranda, sem fætt er 17. nóvember 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 5. desember 2004.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 28. september 2004, tvær tilkynningar um fæðingarorlof, dags. 1. október 2004, launaseðlar fyrir september og október 2004, svo og skilagrein ásamt greiðslukvittun, dags. 1. október 2004, vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með bréfi til kæranda, dags. 24. nóvember 2004, var honum af hálfu lífeyristryggingasviðs tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda. Var útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðaður við tekjur kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra tímabilið september 2003 til ágúst 2004.

Kærandi óskaði síðar eftir breytingu á fæðingarorlofi hans og var honum því send ný greiðsluáætlun, dags. 7. desember 2004, sem byggðist á sama útreikningi og gert hafði verið í bréfi til hans, dags. 24. nóvember 2004.

Með greinargerð kæranda, dags. 8. desember 2004, sem móttekin var 10. desember 2004, fór hann fram á að við útreikning greiðslna þeirra sem hann ætti rétt á að fá úr Fæðingarorlofssjóði yrði tekið tillit til tekna sem hann hafði unnið sér inn sem sjálfstætt starfandi í ágústmánuði 2004 og sem ekki hafði verið tekið tillit til við afgreiðslu umsóknar hans. Í greinargerðinni gerði kærandi grein fyrir að hann hefði starfað fyrir tvo aðila sem sjálfstætt starfandi í ágúst 2004. Hefði hann fengið greitt fyrir þessi verk í september 2004 samtals H krónur og greitt opinber gjöld vegna þeirra um mánaðamótin september-október 2004. Greinargerð kæranda hafði enn fremur að geyma ítarlegan rökstuðning kæranda fyrir kröfu hans um að þessar greiðslur yrði teknar með inn í útreikning á greiðslum til hans úr Fæðingarorlofssjóði sem tekjur fyrir ágúst 2004. Meðfylgjandi greinargerð kæranda voru tvær staðfestingar. Önnur staðfestingin var frá D-háskóla, dags. 1. desember 2004 og kom þar fram að kærandi hefði fengið greiddar G krónur samkvæmt reikningi, dags. 1. september 2004, vegna innkomu í fyrirlestur 4. ágúst 2004. Hin staðfestingin var frá bókarinnar F, þar sem fram kom að kærandi hefði fengið greiddar M krónur samkvæmt reikningi, dags. 15. september 2004, fyrir vinnu sem innt var af hendi í ágúst 2004.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 3. janúar 2005, var kæranda gerð grein fyrir að greinargerð hans, dags. 8. desember 2004 og þau gögn sem henni fylgdu breyttu ekki fyrri afgreiðslu á umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og var vísað til þess að hann hefði ekki verið skráður sjálfstætt starfandi í ágúst 2004 og skráning á reiknuðu endurgjaldi ekki hafist fyrr en í september 2004.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Ef foreldri telur upplýsingar úr viðkomandi skrám ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Útreikningur á greiðslum til kæranda var, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. ffl., byggður á tekjum kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK tímabilið september 2003 til og með ágúst 2004, eins og fyrr segir. Kærandi lagði á hinn bóginn, á grundvelli heimildar í 3. mgr. 15. gr. ffl., fram gögn sem hann ætlaði að staðfesta að upplýsingar úr skrám skattyfirvalda gæfu ekki réttar upplýsingar um tekjur hans á fyrrnefndu tímabili.

Fyrir liggur að kærandi skráði sig hjá skattyfirvöldum sem sjálfstætt starfandi tímabilið september til desember 2004 og var reiknað endurgjald hans áætlað óreglulegt. Enn fremur að á skattframtali kæranda árið 2004, vegna tekjuársins 2003, taldi hann fram reiknað endurgjald L krónur, en var þó ekki skráður sem sjálfstætt starfandi á því tímabili. Í þeim tilvikum þegar sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa skráð sig með óreglulegt reiknað endurgjald eða talið fram á sig reiknað endurgjald án þess að vera skráður með reiknað endurgjald hefur lífeyristryggingasvið ekki séð sér annað fært við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en að deila áætluðu og/eða framtöldu reiknuðu endurgjaldi með þeim fjölda mánaða sem hinn sjálfstætt starfandi er skráður sem slíkur eða mánaðafjölda ársins hafi viðkomandi ekki skráð sig með reiknað endurgjald.

Á þeim grundvelli tók lífeyristryggingasvið reiknað endurgjald sem kærandi taldi fram á skattframtali 2004 inn í útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Var þar um að ræða reiknað endurgjald að fjárhæð L krónur, sem deilt var í með 12 og miðað við að reiknað endurgjald kæranda á árinu 2003 hefði að meðaltali verið N krónur á mánuði. Var þannig við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda litið til reiknaðs endurgjalds hans á árinu 2003 og við það miðað að tímabilið september til og með desember 2003 hefði hann haft N krónur í reiknað endurgjald á mánuði þrátt fyrir að í raun lægju engar upplýsingar fyrir um hvenær það starf var unnið sem lá að baki reiknuðu endurgjaldi kæranda á árinu 2003.

Á sama hátt taldi lífeyristryggingasvið ekki unnt að taka tillit til reiknaðs endurgjalds kæranda á árinu 2004 nema fyrir það tímabil sem hann valdi að skrá sig sem sjálfstætt starfandi með reiknað endurgjald. Þannig taldi lífeyristryggingasvið rétt að deila reiknuðu endurgjaldi kæranda árið 2004 niður á þá fjóra mánuði sem hann skráði sig með reiknað endurgjald, þ.e. tímabilið september til og með desember 2004, en það tímabil kom ekki inn í útreikning á greiðslum Fæðingarorlofssjóðs til kæranda.

Framlögð gögn af hálfu kæranda, sem benda til að hann hafi í raun unnið fyrir reiknuðu endurgjaldi árið 2004 í ágústmánuði, breyta ekki þeirri afstöðu lífeyristryggingasviðs að reiknað endurgjald geti einungis komið til útreiknings á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili sem viðkomandi einstaklingur velur að vera skráður með reiknað endurgjald eða á ársgrundvelli þegar reiknað endurgjald er talið fram án þess að viðkomandi hafi skráð sig með reiknað endurgjald.

Því telur lífeyristryggingasvið í ljósi alls framangreinds að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 7. desember 2004, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Verði niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála hins vegar á þann veg að úrskurðarnefndin telji rétt að fallast á kröfur kæranda um að reiknað endurgjald hans árið 2004 skuli koma inn í útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til hans, er þess hér með farið á leit að úrskurðarnefndin taki einnig á því hvert reiknað endurgjald hans fyrir ágúst 2004 hafi verið og hvernig framtalið reiknað endurgjald hans á tekjuárinu 2003 skuli koma inn í útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 6. apríl 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Óskað var eftir því með bréfi dagsettu 21. júní 2005 að kærandi legði fram afrit af rekstrarreikningum sem skilað var til skattstjóra fyrir árin 2003 og 2004, svo og staðfestum afritum af skattframtölum vegna sömu ára. Framangreind gögn bárust ekki.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).

Ekki er ágreiningur um að kærandi uppfyllir skilyrði laga nr. 95/2000 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem upplýsingar úr staðgreiðsluskrá staðfesta sex mánaða samfellt starf hans á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. ffl.

Barn kæranda er fætt 17. nóvember 2004. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá og með september 2003 til og með ágúst 2004.

Samkvæmt 3. mgr. 15. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldri úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Af hálfu kæranda var skilað inn skilagrein vegna reiknaðs endurgjalds fyrir september 2004 sem móttekin var af Tollstjóranum í Reykjavík 1. október 2004. Ekki hafði áður verið tilkynnt um sjálfstæða atvinnustarfsemi kæranda á árinu 2004.

Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur kærandi sýnt fram á að hann hafi starfað sem verktaki í ágúst 2004 og fengið greitt fyrir þau verk í september 2004. Staðfestar hafa verið greiðslur vegna þeirra verka að fjárhæð H krónur. Reiknað endurgjald sem talið var fram á skilagrein sem móttekin var af skattstjóra þann 1. október 2004 og staðgreiðsla og tryggingagjald greitt af var O krónur. Samkvæmt kæru var reiknað endurgjald vegna starfanna í ágúst I krónum. Af hálfu úrskurðarnefndar var óskað eftir að kærandi legði fram afrit af rekstrarreikningum áranna 2003 og 2004 þannig að unnt væri að sjá hver kostnaður væri af verktakavinnu kæranda. Einnig var óskað eftir staðfestum afritum af skattframtölum vegna sömu ára. Umbeðin gögn bárust ekki þrátt fyrir ítrekanir.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að reiknað endurgjald vegna starfa kæranda sem verktaka í ágústmánuði 2004 skuli teljast til heildarlauna á tólf mánaða viðmiðunartímabilinu. Hins vegar skortir gögn sem staðfesta nægjanlega fjárhæð hins reiknaða endurgjalds.

Samkvæmt framangreindu og á grundvelli fyrirliggjandi gagna telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að staðfesta verði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um breytingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem gögn málsins staðfesta ekki nægjanlega fjárhæð hins reiknaða endurgjalds.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um breytingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest, þar sem gögn málsins staðfesta ekki nægjanlega fjárhæð hins reiknaða endurgjalds.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta