Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2005

Þriðjudaginn, 29. nóvember 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. september 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 19. september 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. júlí 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég lauk 12 einingum frá B-framhaldsskóla, á D-braut. LÍN tók þessar 12 einingar gildar sem 75% nám.

Ég var að ljúka bóklega hluta námsins og gat þess vegna ekki tekið fleiri einingar á önninni, þar sem ég átti aðeins þessar 12 einingar eftir til að ljúka þeim hluta. Það er ekki mögulegt að byrja á verklega hlutanum fyrr en þeim bóklega er lokið, og er verklegi hlutinn ekki í B-framhaldsskóla heldur í E-háskóla.

Svo vil ég einnig benda á að í mars 2005 hringdi ég í fæðingarorlofssjóð og sagði frá mínum aðstæðum. Þá var mér tjáð að ég ætti rétt á fæðingastyrk námsmanna, ég þyrfti bara að fá staðfestingu frá skólanum um að ég væri að ljúka þessum áfanga námsins. Þetta staðfestingablað sendi ég inn með umsókninni og liggur það hjá fæðingarorlofssjóði.“

 

Með bréfi, dagsettu 19. október 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 10. nóvember 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 26. júlí 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám. Þá var tekið fram að í stað fæðingarstyrks námsmanna yrði kæranda greiddur fæðingarstyrkur, sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist, eins og að framan greinir, þann 4. ágúst 2005 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að líta hvort tveggja til náms hennar á haustönn 2004 og vorönn 2005.

Samkvæmt staðfestingu B-framhaldsskóla, dags. 20. maí 2005, stundaði kærandi nám við skólann á D-braut og lauk 14 einingum á haustönn 2004, 12 einingum á vorönn 2005 og þar með öllum bóklegum áföngum á D-braut.

Þegar um er að ræða nám á framhaldsskólastigi teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13 - 18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Með hliðsjón af framangreindu nær nám kæranda á vorönn 2005 ekki að vera fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og þar með uppfyllir kærandi ekki skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 fyrir fæðingu barns hennar.

Nokkrar undanþáguheimildir er að finna frá skilyrðinu um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þá segir í 19. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna skilgreindra heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda var tekið til sérstakrar skoðunar hvort undanþáguheimild 20. gr. reglugerðarinnar gæti átt við um aðstæður kæranda. Var niðurstaða lífeyristryggingasviðs sú að þó kærandi hefði á vorönn 2005 lokið þeim áfanga að ljúka bóklegum hluta D-brautar hefði hún ekki með því lokið ákveðinni prófgráðu og að þar með uppfyllti hún ekki skilyrðin sem sett væru í 20. gr. reglugerðarinnar fyrir undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám.

Þá var ekki talið að nokkur önnur framangreindra undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, gæti átt við um aðstæður kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 14. nóvember 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. nr. 90/2004 eiga foreldrar, sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi ffl. er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá sé heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 4. ágúst 2005. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 4. ágúst 2004 fram að fæðingu barns.

Kærandi stundaði nám við B-framhaldsskóla á D-braut. Hjá skólanum er almennt miðað við að 100% nám sé 18 einingar á önn. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hennar á haustönn 2004 og vorönn 2005. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum lauk kærandi 14 einingum á haustönn 2004 og 12 einingum á vorönn 2005 og lauk með því bóklega hluta náms hennar.

Kærandi uppfyllir skilyrði þess að hafa verið í fullu námi á haustönn 2004 en ekki á vorönn 2005, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt 20. gr. reglugerðarinnar er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. D-braut er 88 einingar sem skiptast þannig að bóklegar greinar eru 56 einingar og verklegar greinar eru 32 einingar. Kærandi hefur einungis lokið bóklega hluta námsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi því ekki lokið ákveðinni prófgráðu. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 20. gr. reglugerðarinnar um undanþágu frá fullu námi. Aðrar undanþágur ffl. og reglugerðarinnar frá skilyrðinu um fullt nám eiga ekki við í máli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta