Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2005

Þriðjudaginn, 22. nóvember 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. október 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett sama dag.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 23. ágúst 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég vil með bréfi þessu fara fram á að feðraorlofsgreiðslur mínar verði endurskoðaðar. Feðraorlof mitt var samþykkt 23. ágúst sl. fyrir mánuðina september, október og nóvember og mánaðargreiðslur mínar ákvarðaðar kr. 237.758,-. Þessar greiðslur voru reiknaðar út frá launum mínum mánuðina september 2003 til og með ágúst 2004. Frá júní 2003 til og með maí 2004 var ég í námsleyfi frá störfum mínum sem B á D-sjúkrahúsi og þáði þann tíma aðeins hluta reglubundinna launa minna, þáði engar yfirvinnugreiðslur og var einn og hálfur mánuður námsleyfis míns þar að auki launalaust leyfi. Vegna mistaka í launagreiðslum kemur það launaleysi ekki fram fyrr en ég er kominn aftur til starfa og sýna launamiðar mínir fyrir þann tíma og skrá starfshlutfall mitt því 0% í júní og 0,5065% í júlí.

Ég hef haft óslitna ráðningu á D-sjúkrahúsi, áður E-sjúkrahúsi, frá febrúar 1996 til dagsins í dag og hef verið fastráðinn frá 1997. Þetta er áréttað í bréfi F til TR dags. 23. júní 2005, og þar er einnig staðfest tímabil námsleyfis míns og skiptingu þess. Á þeim tíma sem ég hef starfað hjá sjúkrahúsinu hafa starfsskyldur mínar ekki tekið grundvallarbreytingum né heldur starfskjör mín. Því sýnir það tímabil sem TR byggir útreikninga sína á ekki rétt þau starfskjör sem ég hverf frá til feðraorlofs míns.

Ég fer því fram á að greiðslur mínar í foreldraorlofi verði byggðar á launum mínum næstu 12 mánuði fyrir töku orlofs míns, þ.e. september 2004 til og með ágúst 2005 skv. meðfylgjandi launamiðum. Heildarlaun mín á því tímabili eru, að frádregnum bílastyrk, G krónur eða að jafnaði H krónur á mánuði.

Til áréttingar þess að þetta tímabil gefi réttari mynd af starfskjörum mínum en það tímabil sem TR byggði útreikninga sína á, sendi ég yfirlit yfir heildarlaun mín árin 2001 og 2002, (sjá meðfylgjandi yfirlit frá D-sjúkrahúsi). Þar kemur fram að heildarlaun mín á sjúkrahúsinu voru I krónur árið 2001, eða J krónur að meðaltali á mánuði, og K krónur árið 2002 eða L krónur að meðaltali á mánuði.“

 

Með bréfi, dagsettu 13. október 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 1. nóvember 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og óskar kærandi eftir því að viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans verði annað en litið var til við afgreiðslu umsóknar hans.

Með umsókn, dags. 20. september 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði frá 1. september 2005 að telja. Umsóknin varðar barn sem fætt er 27. nóvember 2004, sem jafnframt var áætlaður fæðingardagur þess.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 10. nóvember 2004, var farið fram á frekari gögn frá honum. Þann 24. júní 2005 var móttekin staðfesting D -sjúkrahúss, dags. 23. júní 2005, um samfellda fastráðningu kæranda. Þann 17. ágúst 2005 var móttekin tilkynning um fæðingarorlof kæranda til vinnuveitanda hans, dags. 26. og 27. júlí 2005, ásamt launaseðlum fyrir júní og júlí 2005. Þá lágu jafnframt fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 23. ágúst 2005, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 27. nóvember 2004 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda. Útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var miðaðar við tekjur hans tímabilið september 2003 til og með ágúst 2004.

Barn kæranda fæddist, eins og fyrr segir, þann 27. nóvember 2004. Það eru því lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, eins og þau voru fyrir gildistöku breytingalaga nr. 90/2004, sem eiga við um rétt kæranda til fæðingarorlofs og til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skyldi miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lyki tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu var tekið fram að hér væri átt við almanaksmánuði.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skyldi teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Var þar miðað við að upphaf orlofs væri í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skyldi útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við það tímamark, jafnvel þótt annað foreldrið nýtti rétt sinn til töku orlofs síðar.

Fæðingar- og foreldraorlofslögin höfðu ekki að geyma neina heimild til að víkja frá framangreindri reglu 2. mgr. 13. gr. laganna. og því telur lífeyristryggingasvið að ekki sé heimilt að taka til greina ósk kæranda um að útreikningur fæðingarorlofsgreiðslna til hans miðist við annað tímabil en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 23. ágúst 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sem byggist á tekjum hans tímabilið september 2003 til og með ágúst 2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. nóvember 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 27. nóvember 2004.

Um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði fer eftir þeim reglum laga nr. 95/2000 (ffl.) sem giltu á upphafsdegi fæðingarorlofs, þ.e. áður en breyting var á þeim gerð með lögum nr. 90/2004 sem tóku gildi þann 1. janúar 2005. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. ffl. skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skyldi miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Hvorki í lögum nr. 95/2000 né í reglugerð nr. 909/2000 er að finna ákvæði sem heimila undantekningar frá þeirri reglu. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna til kæranda í fæðingarorlofi er samkvæmt því frá september 2003 til og með ágúst 2004.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta