Nr. 25/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 18. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 25/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU22120001
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 30. nóvember 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Hvíta-Rússlands ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2022, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í 10 ár.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi en til vara að endurkomubanni sem ákveðið hafi verið verði markaður skemmri tími og taki einungis til Íslands en ekki alls Schengen-svæðisins.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 9. nóvember 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2022, var kæranda synjað um efnismeðferð hér á landi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-505/2022, dags. 22. febrúar 2022, var kærandi dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu í tólf mánuði vegna ítrekaðra brota gegn 2. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærandi var fluttur til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar 29. apríl 2022. Samkvæmt gögnum málsins virðist kærandi hafa komið aftur hingað til lands með flugi 11. júní 2022. Samkvæmt lögregluskýrslu var kærandi handtekinn 19. júní 2022 m.a. vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs, skjalafals og ólöglegrar dvalar í landinu. Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 19. júní 2022, sætir kærandi endurkomubanni á Schengen-svæðið samkvæmt ákvörðun norskra yfirvalda til 2. júlí 2023 og finnskra yfirvalda til 9. janúar 2023. Þá kemur fram í framangreindum dómi héraðsdóms í máli kæranda að kærandi sæti endurkomubanni á Schengen-svæðið til 31. maí 2024 samkvæmt héraðsdómi í Danmörku.
Hinn 13. september 2022 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga vegna framangreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. febrúar 2022 og var kæranda veittur kostur á að leggja fram andmæli. Engin andmæli bárust Útlendingastofnun fyrir töku ákvörðunar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2022, var kæranda brottvísað frá Íslandi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveðið endurkomubann á Schengen-svæðið í tíu ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 15. nóvember 2022 og 30. nóvember 2022 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kæranda kemur fram að hann krefjist þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi en til vara að endurkomubanni sem ákveðið hafi verið verði markaður skemmri tími og það taki einungis til Íslands en ekki alls Schengen-svæðisins enda sé kærandi með alþjóðlega vernd í Hollandi.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum.
Líkt og áður greinir var kærandi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-505/2022, dags. 22. febrúar 2022, dæmdur til tólf mánaða fangelsisrefsingar vegna ítrekaðra brota gegn 2. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til þess eru skilyrði d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga uppfyllt í málinu.
Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að ekki væru upp aðstæður í málinu sem leiddu til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Í 1. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, kemur fram að heimilt sé að frávísa eða brottvísa útlendingi úr landi þegar skilyrðum XII. kafla laga um útlendinga er fullnægt og ákvörðunin brjóti ekki í bága við 42. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun lagði kærandi að nýju fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 21. desember 2022. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var aðeins með almennum hætti tekin afstaða til þess hvort það gæti talist ósanngjörn ráðstöfun að brottvísa kæranda og var ekki horft sérstaklega til aðstæðna kæranda í heimaríki hans. Með tilliti til þeirra nýju upplýsinga er bárust frá Útlendingastofnun við meðferð málsins er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að leggja mat á aðstæður í heimaríki kæranda, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, og hvort þær komi í veg fyrir að brottvísun hans sé heimil.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Þar sem ekki hefur farið fram mat á aðstæðum í heimaríki kæranda, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, þykir rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant‘s case.
Þorsteinn Gunnarsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares