Mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla
Í tengslum við endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla lét mennta- og menningarmálaráðuneyti gera könnun meðal allra grunnskóla landsins vorið 2019 þar sem spurt var um innleiðingu núverandi aðalnámskrár sem tók gildi 2011 og 2013 og hvernig hún nýtist í hverjum skóla fyrir sig. Þá fóru einnig fram rýniviðtöl við nemendur, kennara, foreldra og skólastjórnendur og vettvangsheimsóknir til þess að fá gleggri mynd af stöðunni.
„Þessi könnun er hluti af lögboðnu eftirliti ráðuneytisins og sýnir okkur nauðsyn þess að skýra og efla þekkingu skólasamfélagsins á aðalnámskránni. Ljóst er að það er almenn ánægja með inntak hennar og hæfnimiðað nám en við getum stutt mun betur við skólana í að vinna með hana og það munum við gera,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðmælendur í rýnihópaviðtölum voru 113; nemendur, kennarar, foreldrar og skólastjórnendur. Skólastjórnendur 122 grunnskóla svöruðu rafrænni spurningakönnun um efnið sem er 74% svarhlutfall. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að enn ríki umtalsverð óvissa um marga þætti í núgildandi aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og 2013 þrátt fyrir að talsverður tími hafi gefist til innleiðingar hennar. Vísbendingar eru um að námsmatið hafi skapað óöryggi hjá skólastjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum og að stuðning hafi skort frá menntamálayfirvöldum.
Skólastjórnendur meta almennt að innleiðing grunnþátta og lykilhæfni aðalnámskrár hafi gengið vel en telja þörf fyrir frekari stuðning við innleiðingu og þá helst í formi leiðsagnar. Kallað er eftir meira samtali, utanaðkomandi ráðgjöf, mati og eftirfylgni.
Viðmælendur voru jákvæðir í garð hugmyndafræði aðalnámskrárinnar og fram kom almenn ánægja með áherslu á hæfnimiðað nám. Ekki er kallað eftir umfangsmiklum breytingum á inntaki aðalnámskrárinnar heldur einfaldari og skýrari útfærslu í tilteknum greinasviðum, aðallega samfélagsfræði- og náttúrugreinum. Einfalda þarf hæfni- og matsviðmið til muna og fækka þeim. Skilningur á matsviðmiðum við lok 10. bekkjar er í sumum tilvikum takmarkaður og áhyggjur eru af ósamræmi milli skóla og námssviða innan og milli skóla, t.d. í list- og verkgreinum.
Til að mæta þeim ábendingum sem finna má í niðurstöðum könnunarinnar er nú unnið að úrbótaaðgerðum í góðu samráði við hagaðila. Skipað verður teymi sérfræðinga sem aðstoðar skóla til að vinna með hæfni- og matsviðmið næstu tvö ár og þannig stuðlað að samræmdum stuðningi við skólastjórnendur og kennara. Greinasvið aðalnámskrár og hæfni- og matsviðmið þeirra verða endurskoðuð og ferli innleiðingar breytinga á aðalnámskrá bætt. Framboð á námsgögnum sem tekur mið af hæfnimiðaðri námskrá verður aukið sem og fræðsla um notkun þess í kennslu. Inntak samræmdra könnunarprófa verður endurskoðað og áhersla lögð á að kennaranám og starfsþróun kennara og skólastjórnenda taki mið af hæfniviðmiðum aðalnámskrár.
Skýrsluna má lesa hér.