Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samningur um kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands undirritaður

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands undirrituðu í dag í Hátíðarsal Háskóla Íslands samning um kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands undirrituðu í dag í Hátíðarsal Háskóla Íslands samning um kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands. Samningurinn er til fimm ára, frá og með árinu 2007 til ársins 2011.

Sameiginlegt markmið samningsaðila er að tryggja gæði kennslu og rannsókna við Háskólann og stuðla að metnaðarfullri framþróun í starfsemi skólans á samningstímanum. Jafnframt eru með samningnum skapaðar forsendur fyrir því að Háskóli Íslands öðlist viðurkenningu í framtíðinni sem háskóli í fremstu röð í heiminum.

Framlög skólans voru hækkuð um 300 milljónir króna á fjárlögum 2007 í tengslum við samninginn. Rannsóknarframlög til skólans munu hækka um 640 milljónir króna árlega á tímabilinu 2008-2011 og hafa þá hækkað um tæpa þrjá milljarða í lok samningstímabilsins, árið 2011. Í langtímaáætlun um útgjöld ríkisins er jafnframt gert ráð fyrir að framlög til háskólastigsins aukist árlega um 3,5% vegna fjölgunar nemenda.

  • Samningurinn felur í sér að fjárveitingar ríkisins til rannsókna við Háskóla Íslands þrefaldast á samningstímanum.
  • Framlög ríkisins til kennslu og rannsókna aukast á samningstímanum um samtals 75% samanborið við framlög á fjárlögum árið 2006
  • Á fjárlögum 2006 voru bein framlög til rannsókna við Háskólann um 43% af kennsluframlagi. Í lok samningstímans verður það hlutfall komið yfir 100%.

Meginmarkmið samningsins er að staðfesta stöðu Háskóla Íslands í fararbroddi íslenskra háskóla, jafnframt því að styrkja stöðu skólans verulega í alþjóðlegu umhverfi háskólamenntunar. Samningurinn er hornsteinn fjármögnunar á stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 sem samþykkt var af háskólafundi og staðfest af háskólaráði í maí sl.

Í samningnum er meðal annars stefnt að því að stórefla rannsóknatengt framhaldsnám við Háskólann með því að fimmfalda fjölda brautskráðra doktora og tvöfalda fjölda brautskráðra meistaranema á samningstímabilinu. Framboð námskeiða í framhaldsnámi verður aukið, m.a. með auknu samstarfi við erlenda háskóla. Samfara því er stefnt að auknum afköstum í rannsóknum og eflingu á gæðum þeirra. Fjölga á birtingum vísindagreina kennara við Háskóla Íslands í virtum, alþjóðlegum, ritrýndum tímaritum og útgáfu bóka gefnum út hjá virtum bókaútgefendum. Fjárframlög til kaupa á rannsóknatækjum verður aukið til muna. Áhersla er lögð á að tryggja gæði kennslu og rannsókna í greinum sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu og fræðilega breidd og fjölbreytni í háskólastarfsemi á Íslandi.

Einnig á að nýta fjölbreytileika Háskóla Íslands til að efla þverfræðilegar rannsóknir með það að markmiði að skapa nýja þekkingu og fræðasvið og efla tengsl við atvinnu- og þjóðlíf. Áætlað er að starfsemi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni hefjist fyrir lok 2007. Þar verði frjór vettvangur samstarfs Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja, nýsköpunar- og hátæknifyrirtækja, rannsóknastofnana og fleiri skyldra aðila.

Kveðið er á um að styrkja skuli stjórnkerfi Háskóla Íslands. Skipting Háskóla Íslands í deildir og skorir verður endurskoðuð í því skyni að efla starfseiningar hans. Samtímis verður stoðþjónusta við kennara og nemendur styrkt til þess að skapa fyrirmyndar námsumhverfi. Lögð er áhersla á að bæta kennslustofur og tæknibúnað, lesaðstöðu, félagsaðstöðu, bókakaup og aðgang að rafrænum tímaritum og gagnasöfnun.

Gert er ráð fyrir að Háskólinn þrói gæðamatskerfi fyrir lok árs 2007 sem felur í sér fjölbreyttar leiðir til að meta gæði náms og kennslu. Fyrir lok árs 2008 verður  innleitt nýtt vinnumatskerfi kennslu sem er ætlað að hvetja til góðra kennsluhátta og þróunarverkefna. Jafnframt mun Háskólinn móta sér skýra stefnu um fjarkennslu fyrir árslok 2007 og verður húnefld í völdum greinum. Styrkja á samstarf við landsbyggðina. Unnið verður að sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands eins og tilefni er til í samræmi við ákvörðun Alþingis.

Háskóla Íslands er ætlað að auka tekjur sínar úr innlendum, norrænum, evrópskum og norðuramerískum samkeppnissjóðum um 100% fram til ársins 2011. Þá er auknum framlögum í Rannsóknasjóð  Háskólans ætlað að efla doktorsnám og að undirbúa umsóknir til alþjóðlegra samkeppnissjóða.

Menntamálaráðuneytið, Háskóli Íslands, 11. janúar 2007

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta