Nr. 767/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 767/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23100083
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 21. september 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2023, um að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hans um vegabréfsáritun til Íslands.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 7. september 2023, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands og Schengen-svæðisins fyrir fjögurra daga dvöl frá 21. til 24. september 2023. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2023. Hinn 21. september 2023 barst kærunefnd kæra frá kæranda ásamt fylgigögnum. Með tölvubréfi kæranda, dags. 16. október 2023, kvaðst hann ekki hafa fengið nægar skýringar fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 28. nóvember 2023, voru kæranda færðar frekari skýringar fyrir hinni kærðu ákvörðun og honum veitt færi á að leggja fram frekari gögn vegna málsins. Frekari gögn voru lögð fram af hálfu kæranda með tölvubréfum, dags. 30. nóvember og 5. desember 2023.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru vísar kærandi til umsóknar sinnar og þeirrar synjunarástæðu sem ákvörðun Útlendingastofnunar byggist á. Kærandi telji sig uppfylla öll skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritunar og vísar til fylgigagna með umsókn sinni hvað það varðar. Þá óskar hann frekari leiðbeininga kærunefndar vegna meðferðar málsins á kærustigi.
Meðal fyglgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru ferðasjúkratrygging, dags. 7. september 2023, og atvinnustaðfesting frá vinnuveitanda, dags. 5. desember 2023.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Marokkó þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.
Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.
Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í tilteknum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem tilgreind eru í ákvæðinu er ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.
Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðun kæranda er merkt í reit 2 vegna synjunar á umsókn, þ.e. að ekki voru færð rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.
Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kæranda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir skriflegur rökstuðningur vegna ákvörðunar kæranda.
Meðferð umsóknar kæranda fór fram hjá utanríkisþjónustunni en hún var lögð fram hjá VFS skrifstofunni í Lundúnum, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.
Í gögnum málsins liggur m.a. fyrir afrit úr málaskrá Útlendingastofnunar vegna máls kæranda þar sem málsmeðferð umsóknar hans hjá utanríkisþjónustunni er rakin. Í málaskránni kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram ferðasjúkratryggingu né atvinnustaðfestingu vinnuveitanda. Kærandi hafi undirritað gátlista, dags. 7. september 2023, þar sem fram kom að hann myndi leggja fram þau fylgigögn sem skorti, innan fimm daga. Kærandi hafi ekki orðið við því og var ákvörðun í máli hans tekin 20. september 2023. Líkt og þegar hefur komið fram lagði kærandi fram frekari fylgigögn á kærustigi, þ. á m. ferðasjúkratryggingu og atvinnustaðfestingu vinnuveitanda.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Í ljósi þess að nú liggja fyrir gögn í máli kæranda sem áhrif geta haft á niðurstöðu máls hans, er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun þar sem lagt sé mat á þau nýju gögn sem nú hafa verið lögð fram.
Að framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration in the appellants case is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður