Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 517/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 517/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100010

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. október 2018 kærði einstaklingur sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. sömu laga.

Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 24. apríl 2018. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 5. júní 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 13. september 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 18. september 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 3. október 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 15. október 2018 og viðbótargagn þann 1. nóvember sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi en dvalarleyfi hans þar í landi væri útrunnið. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Þýskalands. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var einnig mat stofnunarinnar að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í máli kæranda. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá kom fram að kærandi skyldi fluttur til Þýskalands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er rakið að hann sé ríkisborgari […]. Samkvæmt gögnum málsins hafi kæranda áður verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi þann 25. mars 2014. Kærandi hafi mætt í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 5. júní sl. þar sem hann hafi greint frá aðstæðum sínum. Kvaðst kærandi vera þreyttur andlega og að hann hafi sótt meðferð hjá sálfræðingi og geðlækni í Þýskalandi. Kærandi hafi verið á lyfjum sem hann hafi fengið hjá lækni á Göngudeild sóttvarna. […]. Andlát bróður kæranda hafi verið mikið áfall fyrir hann. Kærandi hafi sótt um framlengingu á dvalarleyfi sínu í Þýskalandi árið 2017. Framlenging hafi ekki verið veitt og hafi þýsk stjórnvöld tjáð kæranda að hann þyrfti að yfirgefa landið og fara aftur til […]. Í kjölfarið hafi kærandi misst atvinnu sína, húsnæði og aðgang að heilbrigðiskerfinu. Kvaðst kærandi vera í hættu í Þýskalandi vegna yfirvofandi endursendingar til […].

Í greinargerð sinni gerir kærandi jafnframt grein fyrir aðstæðum og réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi og vísar hann m.a. til nýjustu ársskýrslna Amnesty International og Asylum Information Database í því sambandi. Þar komi m.a. fram að gríðarlegt álag hafi verið á hæliskerfinu í Þýskalandi og hafi þýsk stjórnvöld komið á fót sérstakri flýtimeðferð í því skyni að vinna á þessum fjölda umsókna. Flýtimeðferð þessi hafi verið gagnrýnd, m.a. að því leyti að ekki hafi tekist að tryggja nægjanlega réttláta málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem settar séu í þann farveg. Þá séu margar móttökumiðstöðvar yfirfullar og ekki hafi fengist nægir fjármunir til að veita umsækjendum viðeigandi og mannúðlega þjónustu, auk þess sem engar samræmdar reglur séu um aðbúnað umsækjenda í móttökumiðstöðvum. Umsækjendur njóti afar takmarkaðrar lögfræðiþjónustu á meðan meðferð umsókna þeirra standi. Umsækjendur eigi rétt á aðstoð lögfræðings við að áfrýja neikvæðri niðurstöðu til dómstóla, en slíka aðstoð sé aðeins hægt að nálgast með erfiðismunum.

Þá hafi frjáls félagasamtök harðlega gagnrýnt gæði þýska hæliskerfisins, framkvæmd viðtala og ákvarðanir þýskra stjórnvalda. Umsækjendur séu ekki nægilega upplýstir um réttindi sín og skyldur í viðtölum, þeir hafi iðulega ekki aðgang að lögfræðingi eða öðrum ráðgefandi aðila fyrir viðtal og starfsfólk þýsku útlendingastofnunarinnar noti óviðunandi viðtalstækni. Enn fremur hafi þýsk stjórnvöld gripið til ýmissa takmarkana á þeim rétti sem flóttafólk öðlist eftir að umsókn þess sé samþykkt, s.s. eftirlitsráðstafanir sem veki upp áhyggjur í tengslum við réttinn til friðhelgi og tjáningar. Andúð, ógnanir og ofbeldi gagnvart flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi verið vandamál um allt Þýskaland. Þá hafi stefna þýskra stjórnvalda í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna einnig tekið breytingum á síðustu árum. Meðal annars hafi lagabreytingar verið gerðar á útlendingalöggjöfinni sem hafi m.a. haft talsverð áhrif á vernd persónuupplýsinga, auk þess sem þau hafi takmarkað réttindi til dvalarleyfis og víkkað heimildir til varðhalds. Breytingar þessar hafi verið gagnrýndar af mannréttindasamtökum fyrir að brjóta þýsk lög og jafnvel fara gegn stjórnarskrá landsins.

Kærandi byggir á því að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Heildstætt mat á aðstæðum kæranda hafi ekki farið fram hjá Útlendingastofnun. Samkvæmt greiningu lækna á Göngudeild sóttvarna sé kærandi með […] og hafi fengið lyf til að halda þessum veikindum í skefjum. Kærandi leggi áherslu á skyldu íslenskra stjórnvalda til að leggja ítarlegt mat á stöðu hans og hugsanlegar afleiðingar endursendingar á andlegt og líkamlegt heilsufar hans.

Þá gerir kærandi grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum, auk þess að fjalla um hvað átt sé við með einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Af lögskýringargögnum við breytingarlög á lögum um útlendinga nr. 80/2016, sem hafi verið samþykkt í september 2017, sé ljóst að vilji löggjafans hafi staðið til þess að umsóknir einstaklinga um alþjóðlega vernd sem séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ávallt teknar til efnislegrar meðferðar.

Kærandi bendir á að við mat á því hvort viðkvæm staða kæranda leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í Þýskalandi þurfi að skoða einstaklingsbundnar aðstæður hans þar í landi. Kærandi hafi greint frá því að aðstæður hans í Þýskalandi hafi verið mjög erfiðar, en dvalarleyfi hans hafi ekki verið framlengt, honum hafi verið skipað að yfirgefa landið, hann hafi misst atvinnu sína og húsnæði og ekki haft aðgang að heilbrigðiskerfinu. Það sé óumdeilanlegt að sérstakar ástæður séu uppi í máli kæranda og því skuli umsókn hans tekin til efnislegrar meðferðar. Til stuðnings sjónarmiðum sínum vísar kærandi m.a. til fyrri úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 550/2017, 552/2017, 581/2017, 582/2017, 583/2017 og 586/2017.

Enn fremur fjallar kærandi um ákvæði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, og hvernig Útlendingastofnun hafi beitt ákvæðinu í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi lýsir þeirri afstöðu sinni að af úrskurðum kærunefndar útlendingamála sé ljóst að nefndin hafi við túlkun sína á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga gert mun minni kröfur um alvarleika en gerðar séu í umræddri reglugerð við mat á heilsufari og sérstökum ástæðum. Þá sé m.a. ljóst af lögskýringargögnum með 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að skilyrði reglugerðarinnar um sérstakar ástæður séu of þröng. Hvergi sé t.d. að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika eða alvarlega mismunun. Kröfur sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar hafi því enga stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni. Til stuðnings sjónarmiðum sínum vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 199/2018.

Kærandi lýsir þeirri afstöðu sinni að ótækt sé að senda hann frá Íslandi til Þýskalands á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hann njóti m.a. verndar 42. gr. laga um útlendinga og sambærilegrar grundvallarreglu þjóðaréttar sem leggi bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu (e. direct refoulement) og jafnframt endursendingu til þriðja ríkis ef fyrirsjáanlegt er að það muni senda hann áfram í slíka hættu (e. indirect refoulement). Kærandi hafi ekki fengið endurnýjun á dvalarleyfi sínu í Þýskalandi, hafi m.a. ekki aðgang að heilbrigðiskerfinu þar í landi og geti því ekki haldið áfram lyfjameðferð vegna andlegra veikinda sinna. Þá liggi fyrir að kærandi muni þurfa að yfirgefa Þýskaland og snúa aftur til […] þar sem ríki stríðsástand. Líf kæranda muni vera þar í bráðri hættu. Reynt hafi verið að afla staðfestingar á stöðu kæranda í Þýskalandi en án árangurs.

Hvað varðar varakröfu kæranda er vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga, auk 2. mgr. 23. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi fengist staðfest hvort kærandi hafi gilt dvalarleyfi í Þýskalandi eða njóti þar lágmarksréttinda. Stofnuninni hafi m.a. borið að afla frekari upplýsinga um aðstæður í Þýskalandi. Kærandi hafi lagt fram gögn um að dvalarleyfi hans sé útrunnið, auk gagna sem styðja við frásögn hans að öðru leyti. Í ljósi framangreinds beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og gera stofnuninni að taka málið til nýrrar meðferðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt viðbótarvernd í Þýskalandi þann 25. mars 2014 og í svari þýskra stjórnvalda til Útlendingastofnunar, dags. 1. október sl., kemur fram að sú vernd sé enn í gildi. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Þýskalandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi tæplega […] ára gamall karlmaður, […] og […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 5. júní sl. kvaðst kærandi m.a. vera þreyttur andlega og hafa sótt þjónustu sálfræðings og geðlæknis í Þýskalandi. Andlát bróður kæranda hafi haft mikil áhrif á hann.

Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. […], kemur m.a fram að kærandi glími við andlega erfiðleika og hafi fengið ávísuð lyf , sem m.a. eru ætluð til meðferðar við þunglyndi, kvíða, svefn- og geðtruflunum. Það sé mat hjúkrunarfræðings að kærandi eigi greinilega við einhverjar geðraskanir að stríða. Að svo stöddu komi […].

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi glímir við nokkra andlega erfiðleika og hefur haft þörf fyrir notkun nánar tilgreindra lyfja. Það er þó mat kærunefndar, með vísan til gagna málsins, að heilsufar kæranda og aðstæður hans að öðru leyti séu ekki slíkar að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Þýskalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2017 Human Rights Report – Germany (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 31. mars 2018),• Freedom in the World 2018 – Germany (Freedom House, 2. febrúar 2018),
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),
  • Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de) og
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

Í framangreindum skýrslum kemur m.a. fram að dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns séu gefin út til þriggja ára og dvalarleyfi einstaklinga með viðbótarvernd til eins árs með möguleika á endurnýjun til tveggja ára, samtals þrjú ár. Af framangreindum gögnum verður ekki séð að í Þýskalandi sé munur á réttindum einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og handhafa viðbótarverndar hvað varðar aðgang að húsnæði, heilbrigðisþjónustu og vinnumarkaði.

Í gögnum málsins kemur fram að þar sem grundvöllur endurnýjunar dvalarleyfis sé sá sami og veiting slíks leyfis fáist leyfið að jafnaði endurnýjað ef aðstæður einstaklingsins hafa ekki breyst. Einstaklingur með stöðu flóttamanns geti sótt um varanlegt dvalarleyfi að þremur árum liðnum og einstaklingur með viðbótarvernd að fimm árum liðnum frá því að hann kom til Þýskalands. Þá geta einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi sótt um ríkisborgararétt eftir átta ára löglega dvöl þar í landi. Ef skilyrði afturköllunar alþjóðlegrar verndar eru fyrir hendi tekur þýska útlendingastofnunin ákvörðun um afturköllun. Þótt alþjóðleg vernd sé afturkölluð leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að viðkomandi þurfi að yfirgefa Þýskaland. Þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um stöðu hans og getur hann í kjölfarið fengið áframhaldandi dvalarleyfi þrátt fyrir að alþjóðlega verndin hafi verið afturkölluð. Þá er möguleiki fyrir einstakling með dvalarleyfi að kæra ákvörðun yfirvalda um að draga til baka dvalarleyfi hans.

Í framangreindum skýrslum kemur ennfremur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi sama rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar en þeir þurfa að skrá sig í heilbrigðiskerfið. Sjúklingar þurfa almennt að greiða hluta af þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þeir njóta en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar sjúklingar geta ekki greitt fyrir slíka þjónustu. Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi sama rétt og þýskir ríkisborgarar til þess að fá nauðsynlega félagslega aðstoð, svo sem atvinnuleysisbætur, en þjónustan er bundin við búsetusvæði einstaklingsins sem getur þýtt að einstaklingar með alþjóðlega vernd verði að lúta ákveðnum skilyrðum varðandi búsetu. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að glæpum gegn innflytjendum í Þýskalandi hafi fjölgað á undanförnum árum en nýlega hafi stjórnvöld gert aðgerðaráætlun til að sporna gegn fordómum þar í landi.

Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að taka til skoðunar athugasemdir kæranda varðandi málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og aðstæður umsækjenda um vernd í Þýskalandi. Kærunefnd áréttar að kærandi nýtur viðbótarverndar í Þýskalandi. Samkvæmt framangreindum upplýsingum um aðstæður í Þýskalandi er grundvöllur endurnýjunar dvalarleyfis sá sami og veiting slíks leyfis og því fæst leyfið að jafnaði endurnýjað ef aðstæður einstaklings hafa ekki breyst. Í skýrslum um aðstæður í Þýskalandi er þess þó getið að endurnýjun slíkra leyfa hafi í einhverjum tilvikum tekið nokkrar vikur og jafnvel mánuði. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd ljóst að kærandi geti sótt um og fengið endurnýjun á dvalarleyfi sínu í Þýskalandi að því gefnu að aðstæður hans hafi ekki breyst.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 fjallaði dómstóllinn um endursendingar einstaklinga til ríkja þar sem þeir hafa hlotið alþjóðlega vernd. Í ákvörðuninni kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við slíka endursendingu nái ekki alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi telur kærunefnd að tryggt sé að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi glímir við nokkra andlega erfiðleika og hefur þurft á lyfjum að halda. Það er þó mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Gögn málsins bera enn fremur ekki með sér að kærandi gangist undir meðferð hérlendis sem verði rofin með flutningi til Þýskalands. Líkt og að framan er rakið eiga einstaklingar með viðbótarvernd í Þýskalandi sama rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sinna þar í landi. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er m.a. tekið fram að hann hafi misst atvinnu sína og húsnæði í Þýskalandi. Kærunefnd bendir á að samkvæmt skýrslum um aðstæður í Þýskalandi njóta einstaklingar með viðbótarvernd þar í landi sama aðgangs að vinnumarkaði og þýskir ríkisborgarar og eiga auk þess rétt á félagslegri aðstoð, líkt og að framan er rakið. Þá hafa einstaklingar með viðbótarvernd aðgang að húsnæðismarkaðnum. Af skýrslum sem nefndin hefur skoðað verður þó af ráðið að ýmis atriði er lúta að húsnæðismarkaðnum og einstaklingum með alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd í Þýskalandi hafa verið gagnrýnd, m.a. hvað varðar skort á viðunandi húsnæði. Þess er þó jafnframt getið að hafi einstaklingar ekki sjálfir efni á að standa straum af kostnaði vegna húsnæðis sé félagsleg aðstoð frá hinu opinbera í boði og þá veiti hjálparsamtök ýmsa aðstoð í þessum efnum. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 5. júní 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna athugasemdar kæranda um lagastoð reglugerðar nr. 276/2018, sem breyttu framangreindum ákvæðum reglugerðar um útlendinga, tekur kærunefnd fram að með 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga var ráðherra fengin heimild til að setja reglugerð um framkvæmd 36. gr. laganna. Löggjafinn hefur framselt ráðherra vald til að útfæra framangreind ákvæði nánar og ljóst að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja henni um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg eins og að framan hefur verið lýst. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessar athugasemdir kæranda.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 24. apríl 2018.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar, m.a. með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað aðstæður sínar í Þýskalandi með fullnægjandi hætti og þá hafi stofnunin ekki tekið tillit til heilsufars síns.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemd við rannsókn málsins. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 21. apríl 2018. Hann sótti um alþjóðlega vernd þann 24. apríl sl. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                   Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta