Félagshagfræðileg greining á mikilvægi áætlunarflugs innanlands að fara af stað
Um 30 manns, flugrekendur, fulltrúar samgönguyfirvalda, flugráðs og Reykjavíkurborgar sátu í dag fund í innanríkisráðuneytinu þar sem kynnt var úttekt á innanlandsfluginu sem nú er að fara af stað.
Verkefnið er skilgreint í tólf ára samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi í júní á síðasta ári og er markmið þess að framkvæma heildstæða félagshagfræðilega greiningu á mikilvægi áætlunarflugs innanlands á grundvelli markmiða samgönguáætlunar um greiðari samgöngur, hagkvæmni, öryggi, umhverfislega sjálfbærni og jákvæða byggðaþróun.
Til máls á fundinum tóku Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Gunnlaugur Stefánsson, formaður flugráðs, sem fluttu ávarp í upphafi, Árni Gunnarsson formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og forstjóri Flugfélags Íslands, sem kynnti stöðu áætlunarflugs frá sjónarhóli flugrekanda og Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, sem var með stuttlega stöðugreiningu og síðan þau Ásta Þorleifsdóttir og Vilhjálmur Hilmarsson sem stýra munu verkefninu: Framtíð áætlunarflugs innanlands – félagshagfræðileg greining.
Fram kom hjá innanríkisráðherra að að ákvarðanir í samgöngumálum eigi að byggja á faglegum forsendum umfram pólitíska sérhagsmuni og um þann niðurskurð sem orðið hefði í málaflokknum í kjölfar hrunsins væri mikilvægt að forgangsraða rétt. Flugið væri hluti af almenningssamgöngukerfi landsins og gríðarlega mikilvægt sem slíkt.
Flugráð segir eðlilegt uppbygging geti farið fram við Reykjavíkurflugvöll
Á fundinum var lögð fram ályktun flugráðs um framtíð innanlandsflugs sem lögð var fram á fundi ráðsins í dag, 9. apríl:
Flugráð fagnar framtaki innanríkisráðherra um að fram fari heildstæð félagshagfræðileg greining á framtíð innanlandsflugs. Í þeirri greiningu leggur flugráð áherslu á að eftirfarandi þættir verði m.a. skoðaðir sérstaklega á grundvelli þeirra markmiða sem felast í framlagðri verkefnaáætlun:
- Sjálfbærni flugrekstrar og samkeppnishæfni.
Greint verði gjalda- og skattaumhverfi, en opinberar álögur á flugrekstur og farþega í innanlandsflugi hafa aukist umtalsvert á síðustu árum. Einnig verði greint laga- og regluverk í ljósi jafnræðis í flugrekstri á hinu evrópska efnahagssvæði og hvort íslenskur flugrekstur búi við íþyngjandi reglur á efnahagssvæðinu og einnig samkeppnisstaða flugrekstrar við aðra samgönguvalkosti innanlands.
- Sérstaða innanlandsflugs.
Aðstæður í íslensku innanlandasflugi eru um margt sérstæðar og ólíkar aðstæðum í nágrannalöndum, m.a. í ljósi landfræðilegra aðstæðna, veðurfars, gerðar og legu flugvalla og mikilvægi flugsins í samgöngum og þjónustu við landsmenn og atvinnulífið. Víðast í nágrannalöndum býr fólk m.a. við lestarsamgöngur sem á ekki við Íslandi. Þá er innanlandsflugið í takmörkuðum mæli tengt hinu alþjóðlega leiðarkerfi flugfélaga. Innanlandsflugið nýtur nú undanþágu frá alþjóðlegum reglum flugverndar. Skoðað verði hvort leita beri eftir frekari undanþágum í ljósi íslenskra séraðstæðna.
- Staða flugvallar í Reykjavík.
Ljóst er, að flugvöllur verður í Reykjavík um næstu framtíð. Mikilvægt er, að eðlileg uppbygging geti farið fram við flugvöllinn sem uppfylli brýnustu þarfir flugfarþega og starfsfólks m.a. með byggingu nýrrar flugstöðvar fyrir innanlandsflugið, og að deilur um staðsetningu flugvallarins hamli ekki eðlilegu viðhaldi sem aldrei mega bitna á fyllsta öryggi.
- Stefnumótun.
Innanlandflugið gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki í þjónustu við búsetu og lífskjör landsmanna, ferðaþjónustu og atvinnulíf. Því er brýnt að þar liggi fyrir skýr opinber stefnumótun. Nú er fimm áfangastöðum utan Reykjavíkur þjónað með flugrekstri á sjálfbærum grundvelli, en öðrum að auki með opinberum fjárstuðningi. Hér verður að skoða til framtíðar hvernig þessi mál muni þróast og þar skiptir miklu máli hvernig stjórnvöld skapa skilyrði til rekstrar, viðhaldi og rekstri flugvalla, staða og réttindi flugfarþega og verðlagning flugfargjalda. Flugráð treystir því, að viðkomandi greiningu verði hraðað sem kostur er og geti orðið að gildum grundvelli virkar stefnumótunar í innanlandsflugi.
.