Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Setning Ólympíumóts fatlaðra einstök upplifun

Ráðherra ásamt keppendum og fylgdarliði
Ráðherra ásamt keppendum og fylgdarliði

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra var heiðursgestur Íþróttasambands fatlaðra við setningu Ólympíumóts fatlaðra sem nú stendur yfir í London. Frjálsíþróttamaðurinn Helgi Sveinsson var fánaberi íslensku sveitarinnar. Þátttakendur á mótinu fyrir Íslands hönd eru fjórir og hófu allir keppni í dag.

Ólympíumótsleikvangurinn var þétt setinn þar sem rúlega 80.000 manns voru samankomnir til að fylgjast með opnunarhátíðinni og komust færri að en vildu. Mikill áhugi er fyrir mótinu, uppselt er á marga viðburði og á þriðju milljón aðgangsmiða hafa verið seldir. Leikarnir hafa aldrei verið stærri en keppendur eru  4.280 frá 166 þjóðlöndum.

Frá setningu Ólympíumóts fatlaðra 2012„Það var einstök upplifun að vera viðstaddur setningarhátíðina og ég var virkilega stoltur og hrærður þegar ég sá íslensku þátttakendurna ganga inn á þennan risastóra leikvang meðal hinna afreksíþróttamannanna, sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra eftir athöfnina. „Þetta eru stórglæsilegir leikar og mikils virði að RÚV sjónvarpar nú í fyrsta skipti beint frá Ólympíumóti fatlaðra, auk þess sem hægt er að fylgjast með beinum útsendingum á vefnum. Það er mikilvægt að íþróttum fatlaðra sé sýndur sá sómi sem þeim ber og sömuleiðis afrekum íþróttafólksins. Þá á ég ekki einungis við afrek á keppnisgrundvelli heldur líka persónulega sigra fólks sem á hverjum degi yfirstígur hindranir sem flestu ófötluðu fólki myndi vaxa í augum.“

Ráðherra segir ánægjulegt að sjá hve vel hafi verið staðið að öllum undirbúningi gagnvart íslensku keppendunum og þeim sem fylgja þeim á leikana.

Íslensku keppendurnir eru frjálsíþróttamennirnir Helgi Sveinsson og Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir og sundmennirnir Kolbrún Alda Stefánsdóttir og Jón Margeir Sverrisson.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta