Nýja hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð á Akureyri tilbúið
Nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri er nú fullbúið til notkunar og hefur fengið nafnið Lögmannshlíð. Á nýja heimilið flytja 45 íbúar af dvalarheimilunum Kjarnalundi og Bakkahlíð. Í húsinu eru fimm íbúðareiningar og í hverri þeirra níu vel búnar íbúðir með aðgangi að sameiginlegum stofum, borðstofum og eldhúsi.
Hjúkrunarheimilið er byggt samkvæmt leiguleiðinni sem felur í sér að framkvæmdin er fjármögnuð af Akureyrarbæ en velferðarráðuneytið greiðir bænum húsaleigu í fjörutíu ár sem nemur um 85% af framkvæmda- og fjármagnskostnaði.
Hönnun heimilisins byggist á viðmiðum velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Þar er lagt til grundvallar að hjúkrunarheimilum sé ætlað að vera heimili fólks sem heilsu sinnar vegna er ekki lengur fært um að búa á eigin vegum með viðeigandi stuðningi og þurfi á umönnun og hjúkrun að halda. Hjúkrunarheimili skuli því eins og kostur er líkjast húsnæði, skipulagi og aðstæðum á venjulegum einkaheimilum fólks en mæta engu að síður þörfum þeirra sem hafa skerta getu til athafna daglegs lífs.