Hoppa yfir valmynd
8. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 8. maí 2012

Fundargerð 66. fundar, haldinn hjá Eflingu, Sætúni 1, Reykjavík þriðjudaginn 8. maí 2012, kl. 14.00–16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Gyða Hjartardóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Hugrún Jóhannesdóttir, varamaður Gissurar Péturssonar, tiln. af Vinnumálastofnun, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður landlæknis, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Ingibjörg Broddadóttir og Þórður Árni Hjaltested, varamaður Bjargar Bjarnadóttur, tiln. af KÍ.

Fundinn sat einnig Bryndís Þorvaldsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti.

1. Staða aldraðra og hvað má betur fara

Gestir fundarins voru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, Eyjólfur Eysteinsson, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum, og Unnar Stefánsson, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Í upphafi fundar bauð Lára gestina velkomna og sagði mikilvægt að heyra sjónarmið þeirra, ekki síst þar sem eldri borgarar ættu ekki sérstakan fulltrúa í velferðarvaktinni. Jóna Valgerður flutti erindi þar sem megináherslur Landssambands eldri borgara voru dregnar fram:

  • Kjaramál: Að hætt verði við tekjutengingu grunnlífeyris almannatrygginga.
  • Hjúkrunarheimili: Að tryggt verði að fólk komist á hjúkrunarheimili þegar þörf krefur.
  • Fjölbreytileiki í búsetuformi.

Erindi Jónu Valgerðar má lesa í heild sinni hér: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/33380 

Í umræðum í framhaldi kom meðal annars fram að efla þurfi og auka heimaþjónustu við aldraða og styrkja starfsfólkið sem henni sinnir. Slíkt geti komið í veg fyrir dvöl á stofnun. Einnig var nefnt að enn væri þörf á dvalarheimilum fyrir þá sem ekki gætu búið heima, en þyrftu ekki pláss á hjúkrunarheimilum. Í því sambandi var bent á að stefna stjórnvalda sé að fækka dvalarrýmum en byggja upp betri þjónustu. Þá hafi of mikil stofnanavæðing hugsanlega staðið í vegi fyrir þróun í heimaþjónustu.

Eyjólfur lagði áherslu að „það síðasta sem eldri borgarar vilja er að fara á hjúkrunarheimili“, þeir vilji frekar fá aðstoðina heim.

Unnar minnti á að undirstaða umönnunar aldraðra er í höndum fjölskyldunnar. Hann nefndi einnig að samþætting heimaþjónustunnar hjá borginni hafi tekist vel og samtökin ættu gott samstarf við ríki og borg.

Margt fleira bar á góma:

  • Íslenskur vinnumarkaður er talinn sveigjanlegur gagnvart starfsfólki með fjölskylduábyrgð.
    Meðaldvalartími á hjúkrunarheimilum er þrjú ár á landsbyggðinni en tvö ár á höfuðborgarsvæðinu.
  • Hamra verður á því að eldri borgarar eru ekki byrði á samfélaginu og í raun ætti samfélagið að búa þannig um hnútana að ekki að þurfi sérstök hagsmunasamtök aldraðra.
  • Efla þarf fræðslu til þeirra sem veita eldri borgurum heimaþjónustu; bent var á að um 300 konur hafi farið í tveggja ára nám.
  • Leggja ber áherslu á fjölbreytileika búsetuúrræða hjá öldruðum, þeir eru ekki einsleitur hópur frekar en aðrir.
  • Ítrekað var að helsta umönnun aldraðra komi frá aðstandendum, einkum eiginkonum og dætrum (rannsóknir Sigurveigar Sigurðardóttur).
  • Ýmsar aðgerðir að undanförnu hafi bitnað á gömlu fólki: sjúkraþjálfun skorin niður og lyf hækkað.
  • Margir tóku undir sjónarmið eldri borgara hvað varðar tekjutengingu grunnlífeyris og að standa þurfi vörð um almannatryggingarnar.

Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga benti á að hagsmunir sveitarfélaga og eldri borgara fari að mörgu leyti saman og bauð hann fulltrúum eldri borgara á fundinum í heimsókn til sambandsins og þáðu þau boðið.

Að lokum bað Lára gestina að hugleiða hvort þeir teldu gagnlegt að eldri borgarar ættu fulltrúa í velferðarvaktinni.

2. Fundargerðir

Fundargerðir 63., 64. og 65. fundar velferðarvaktarinnar samþykktar.

3. Önnur mál

  1. Bréfi velferðarvaktarinnar til velferðarráðherra með ályktun um aðgerðir í þágu efnalítilla barnafjölskyldna var dreift. Sjá hér: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/33381
  2. Suðurnesjavaktin hefur boðið velferðarvaktinni til sín og hefur verið ákveðið að næsti fundur velferðarvaktarinnar verði haldinn á Suðurnesjum þriðjudaginn 22. maí nk. kl. 14–16 en gera þarf ráð fyrir tímanum frá 13–17 þann dag.
  3. Rætt um að vaktin haldi fundi utan höfðuborgarsvæðisins. Akureyri gæti verið fundarstaður í haust og er Kristín Ástgeirsdóttir reiðubúin að undirbúa Akureyrarfund.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta