Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 457/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 1. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 457/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090018

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. september 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. ágúst 2018, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla með vísan til 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. september 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 9. apríl 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. september 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 25. september 2018.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti honum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi flúið heimaríki sitt þar sem hann óttist um líf sitt. Hann hafi fengið send bréf með hótunum. Síðar hafi hópur karlmanna dregið hann inn í ökutæki og reynt að nema hann á brott. Kærandi hafi náð að sleppa, farið í kjölfarið til lögreglunnar í skýrslutöku og fengið vernd í stutta stund. Þá hafi kærandi farið í felur og beðið eftir tækifæri til að flýja land. Hann hafi óttast að fara út úr húsi og ekki farið í vinnu í tvo mánuði. Þegar öll ferðagögn og önnur skjöl hafi verið tilbúin hafi hann flúið land. Kærandi sé ekki viss hvaða hópur hafi rænt sér en hann gruni hópinn Aguilas Negras. Sá hópur sé valdamikill á heimasvæði hans og stundi að ræna fólki og krefjast lausnargjalds. Hópurinn myrði jafnvel fólk. Efnað fólk borgi hópnum reglulega til að fá að vera í friði. Þessi glæpahópur hafi vitað að kærandi ætti systur í Evrópu og því talið að fjölskyldan væri efnuð. Þá hafi verið gerð tilraun til þess að ræna systur hans þegar hún hafi komið í stutta heimsókn til Kólumbíu og því ljóst að hópurinn hafi augastað á fjölskyldunni. Kærandi telur að hann sé í aukinni hættu á að lenda í mannráni eða öðru ofbeldi fari hann aftur til Kólumbíu af þessum sökum auk þess að hann hafi búið erlendis. Kærandi hafi lagt fram skjal frá kólumbískum yfirvöldum sem staðfesti að honum hafi verið rænt og að málið hafi verið til rannsóknar. Kærandi viti að verið sé að berjast gegn mannránum og afbrotum þessa glæpagengja en hann telji lögreglu ekki geta verndað sig. Lögreglan hafi sent einhverja lögreglumenn að húsinu hans eftir að honum hafi verið rænt en að þessi vernd hafi aðeins staðið í nokkrar klukkustundir. Því sé kærandi varnarlaus gegn þessum glæpagengjum.

Kærandi kveðst hafa áttað sig á því í kringum 13 eða 14 ára aldurinn að hann væri tvíkynhneigður og upplifað sig frábrugðinn öðrum í skólanum og verið lagður í einelti vegna þess. Hann hafi falið kynhneigð sína og telji sig ekki geta lifað opinberlega sem tvíkynhneigður einstaklingur í heimaríkinu. Erfitt sé að tala um slík mál og vinir hans sem fari ekki í felur með kynvitund sína eða kynhneigð eigi erfitt uppdráttar vegna þess. Í Kólumbíu sé til dæmis tiltekinn hópur fólks sem prenti út og dreifi áróðri með líflátshótunum í garð LGBTI einstaklinga í landinu og margir LGBTI einstaklingar hafi verið myrtir. Kærandi óttist um líf sitt og að verða beittur ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar. Kærandi eigi enga fjölskyldu eða tengingar við Kólumbíu utan föður síns sem sé á elliheimili í Bogóta. Hans nánasta fjölskylda sé búsett á Íslandi og hann hafi mun meiri tengsl við Ísland í dag enda hafi hann verið búsettur hér á landi síðan árið 2014. Hann eigi tvær systur sem séu búsettar hér ásamt eiginmönnum sínum og börnum. Systur hans séu báðar með íslenskan ríkisborgararétt. Kærandi hafi auk þess myndað afar sterk tengsl við landið og geti bjargað sér á íslensku.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um almennar aðstæður í Kólumbíu, friðarsamninga ríkisins og stöðu LGBTI einstaklinga. Þar kemur m.a. fram að öryggisástand ríkisins sé mjög ótryggt og mismunun og áreiti gegn LGBTI- einstaklingum sé útbreitt vandamál. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Aðalkrafa kæranda er reist á því að kærandi sæti ofsóknum í heimaríki sínu og að grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Ástæða flótta hans megi m.a. til þess að hann hafi þurft að fela kynhneigð sína af ótta við ofbeldi, m.a. af hendi lögreglu og almennings. Þá séu miklar líkur á að hann muni verða fyrir kerfisbundinni mismunun og ofsóknum af hálfu yfirvalda og samborgara í Kólumbíu verði honum gert að snúa þangað aftur. Þá geti kærandi ekki leitað ásjár yfirvalda í heimaríkinu enda hafi þeim mistekist að koma á virkum úrræðum til að vernda réttindi LGBTI einstaklinga. Kærandi bendir á að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um aðild að tilteknum þjóðfélagshópi, þar sem ofsóknir þær sem líkur standi til að hann verði beittur megi rekja til kynhneigðar hans.

Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar um málsmeðferð beiðna um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. A-liðar Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sé sá grundvöllur almennt viðurkenndur gagnvart þeim sem leiti alþjóðlegrar verndar á grundvelli kynhneigðar. Ennfremur greini í athugasemdum með 38. gr. í frumvarpi að lögum um útlendinga að meðal þeirra þjóðfélagshópa sem geti fallið undir aðild að tilteknum þjóðfélagshópum sé fólk sem sæti ofsóknum vegna kynhneigðar. Fram komi í framangreindum leiðbeiningum Flóttamannastofnunar að meta verði stöðu LGBTI einstaklinga í heimaríki viðkomandi og að ofsóknir séu ekki ákvörðunarástæða við mat á grundvelli umsóknarinnar heldur þurfi við mat á ástæðuríkum ótta að skoða almennt stöðu LGBT fólks í landinu. Fyrsta skref við mat á umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar sé ætíð að kanna hvort viðkomandi geti lifað í samfélaginu án þess að fara í felur með kynhneigð sína. Kærandi áréttir að hann hafi þurft að fela kynhneigð sína í Kólumbíu og heimildir beri með sér að réttindi LGBTI einstaklinga séu fótum troðin og að algengt sé að refsileysi fylgi afbrotum sem beinist gegn LGBTI einstaklingum. Þá komi fram í leiðbeiningunum að þegar vanþóknun fjölskyldu eða samfélagsins birtist í alvarlegu ofbeldi eða hótunum um líkamlegt ofbeldi eða jafnvel líflátshótunum í skjóli heiðurs, geti slíkt jafnast á við ofsóknir. Ljóst sé að tvíkynhneigðir karlmenn séu í afar viðkvæmri stöðu í Kólumbíu og eigi á hættu að verða fyrir mismunun, fordómum, áreiti og ofbeldi í heimaríki sínu. Með því að senda hann til baka sé brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem sé lögfest í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Ljóst sé að óraunhæft sé að kærandi geti leitað verndar hjá lögreglu eða yfirvöldum.

Til stuðnings varakröfu um að kæranda verði veitt viðbótarvernd kveður kærandi öryggistástand í heimaríki sínu afar ótryggt þar sem handahófskenndar vopnaðar árásir séu hluti af daglegu lífi borgara. Í því samhengi er nefnt að á tímabilinu 1. janúar til 25. október 2017 hafi 9.380 morð verið framin í landinu og 69 hryðjuverkaárásir. LGBTI einstaklingar verði fyrir mismunun og ofbeldi í landinu og þrátt fyrir að manndrápum hafi fækkað í landinu eigi það ekki við umLGBTI einstaklinga sem séu verulega útsettir fyrir alvarlegum ofbeldisglæpum. Kærandi eigi í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki., Ljóst sé að kærandi uppfylli öll skilyrði til að hljóta viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings þrautavarakröfu um að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er bent á að kærandi sé í hættu vegna glæpahópa í heimaríki sínu og vegna afar bágborinna aðstæðna sem raktar hafi verið. Kærandi sé einnig í hættu vegna kynhneigðar sinnar og ljóst að ómögulegt sé fyrir hann að lifa öruggu og eðlilegu lífi fjarri ofbeldi í Kólumbíu. Með vísan til þess sem rakið hafi verið telur kærandi að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þrautaþrautavara kæranda um að vera veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 78. gr. laga um útlendinga byggir kærandi á því að hann hafi verið búsettur hér á landi í fjögur ár, öll fjölskyldan hans búi hér að undanskildum föður hans sem dveljist á elliheimili í Kólumbíu. Kærandi hafi myndað sterk tengsl við landið og séu þau orðin mun meiri en við heimaríki hans. Hann hafi stundað hér atvinnu og myndað menningarleg og félagsleg tengsl við landið.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kólumbísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé kólumbískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Colombia 2017 Human Rights Report (US Department of State, 20. apríl 2018);
  • Colombia 2016 Human Rights Report (US Department of State, 3. mars 2017);
  • Colombia 2015 Human Rights Report (US Department of State, 13. apríl 2016);
  • Freedom in the World 2018 – Colombia (Freedom House, 15. mars 2018);
  • World Report 2017 – Colombia (Human Rights Watch, 12. janúar 2017);
  • World Report 2018 – Colombia (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Corruption Perceptions Index 2017 (Transparency International, skoðað 28. september 2018);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum- Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • Amnesty Annual Report 2017/2018 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • In the Shadow of “No“ : Peace after Colombia´s Plebiscite. Latin America Report No. 60 (International Crisis Group, september 2015);
  • Colombia suspends peace talks with ELN after bomb attack (Reutes, 29. janúar 2018);
  • Colombia – Peace and Stability in the Post-Conflict Era (Center for Strategic and International Studies (CSIS), mars 2014);
  • Paramilitary successor groups and criminal bands (bandas criminales, BACRIM), areas of operation and criminal activities, including the Clan del Golfo (also known as Urabenos or Autodefensas Gaitanistas de Colombia; states response, including reintegration of, and assistant to combatants (May 2016-March 2017) (Canada: Immigration and Refugeees Board of Canada, 24. apríl 2017);
  • Colombia: Requirements and procedures to submit a complaint to the police, the Fiscalía General de la Nación, and the Defensoría del Pueblo, including types of complaints; standardization and appearance of documents; requirements and procedures to obtain af copy of the complaint and investigative report for each organization, both from within the country and from abroad (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 3. maí 2017);
  • Colombia: Treatment of sexual minoritites; availability of state protection and support services (2012- June 2015) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 24. júní 2015);
  • Colombia: State protection programs for victims and witnesses of crimes; requirements to access to the programs; statistics on the number of applications for relocation that are granted and refused; duration and effectiveness of these programs (2012-March 2016) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 6. apríl 2016);
  • Colombia: The National Liberation Army (Ejército de Liberación National - ELN), including number of combatants and areas of operations; activities, including ability to track victims; state response and protection available to victims (2016-April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. apríl 2018);
  • Colombia: The presence and activities of Los Rastrojos, including in Buenaventura; information on their relationship with the Gaitanist Self-Defense Forces of Colombia (Autodefensara Gaitanistas de Colombia, AGC) (also known as Gulf Clan (Clan del Golfo) or Úsuga Clan (Clan Úsuga), and formerly known as Los Urabenos); state response (2017 - April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. apríl 2018);
  • Colombia: The Revolutionary Armed Forces of Colombia (Furezas Armadas Revolucionarias de Colombia, FARC), including demobilization of former combatans; information on dissident groups, including number of combatants, areas of operation, activities and state response (2016- April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 18. apríl 2018);
  • The World Factbook: Colombia (CIA, skoðað 28. september 2018);
  • Colombia´s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace (International Crisis Group (ICG), 19. október 2017);
  • Foreign travel advice: Colombia (UK Foreign and Commonwealth Office, uppfært 17. apríl 2018);
  • Colombia 2018 Crime and Safety Report-Bogotá (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 30. janúar 2018);
  • Colombia Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, 28. júní 2018) og
  • Annual Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights on the situation of human rights in Colombia (UN Human Rights Council, 2. mars 2018).

Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með um 48 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllist 79% íbúa kaþólska trú. Þann 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987.

Af ofangreindum gögnum má sjá að algengustu mannréttindabrot í landinu séu morð framin í skjóli refsileysis, pyndingar, víðtæk spilling, nauðganir og misnotkun kvenna og barna af hálfu ólöglegra vopnaðra hópa í landinu, þvingaðar fóstureyðingar og ofbeldi gegn LGBTI einstaklingum. Glæpatíðni og morðtíðni í Kólumbíu sé há og glæpahópar af ýmsum stærðum og gerðum starfi víðsvegar um landið. Þeir stærstu kallist FARC (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia – People´s Army) og ELN (e. National Liberation Army). Þá séu svokallaðir NAG (e. New Armed Groups) sem hafi sprottið út frá hersveitum sem áður hafi starfað í landinu. Almannaöryggi sé ógnað af þessum glæpahópum og heimildir bera með sér að starfsemi þeirra sé enn í fullum gangi. Glæpahópar stundi mannrán og fjárkúganir og aðra ólöglega starfsemi. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC, hafi formlegri afvopnun hópsins lokið í ágúst árið 2017, og hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk þann 1. september sl. Skæruliðahópurinn ELN, hafi haldið áfram að fremja ofbeldisglæpi og þann 4. september 2017 hafi verið samþykkt vopnahlé sem hafi gilt frá 1. október 2017 til 9 janúar 2018. Þá hafi borist fregnir af því að ELN hafi rofið samkomulagið á árinu. Í heildina hafi ofbeldisglæpum fækkað og megi rekja það m.a. til friðarsamkomulagsins við FARC og vopnahlés við ELN. Vopna- og fíkniefnahópar eins og Gulf Clan starfi enn með einhverjum tengslum við ofangreinda skæruliðahópa en slíka hópa skorti sameinaða stefnu og yfirstjórn á landvísu og hugmyndafræði sem hafi einkennt fyrrnefnda skæruliðahópa. Stjórnvöld hafi boðið Gulf Clan friðarsamkomulag en það hafi ekki gengið eftir. Ólöglegir vopnaðir hópar og fíkniefnasöluhópar starfi enn í landinu með u.þ.b. 2900 meðlimi. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, frá apríl 2018, kemur fram að skæruliðahópar, aðallega ELN, hafi borið ábyrgð á 69 hryðjuverkaárásum á árinu 2017, á tímabilinu janúar til september. Þá hafi ELN og aðrir skipulagðir glæpahópar stundað mannrán og pyndingar.

Í ofangreindum heimildum kemur fram að spilling ríki meðal stjórnmálamanna og innan lögreglunnar. Í skýrslu International Crisis Group (ICG) kemur t.a.m. fram að áskoranir sem kólumbísk stjórnvöld standi frammi fyrir í tengslum við friðarumleitanir við meðlimi skæruliða- og glæpahópa, tengist ekki einvörðungu samskiptum og samningsviðræðum við þá, heldur þurfi að byggja upp traust og bæta innviði í landinu til að bæta lífsgæði almennra borgara. Ljóst sé að vantrausts gæti hjá almenningi í garð yfirvalda í Kólumbíu. Á hinn bóginn kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar frá 2015 að yfirvöld hafi lagt mikið í að auka vernd þeirra sem hafi orðið fyrir barðinu á glæpahópum, m.a. með auknum fjármunum til embættis ríkissaksóknara og forgangsröðun í þágu aðgerða gegn mannréttindabrotum. Þrátt fyrir áratugalöng innri átök við glæpa- og fíkniefnahópa og viðvarandi vandamál með að tryggja öryggi borgara sé Kólumbía með sterkar lýðræðislegar stofnanir sem einkennist af friðsælum og gagnsæjum kosningum og vernd borgaralegra réttinda.

Í ofangreindum skýrslum kemur fram að stjórnvöld hafi á undanförnum árum unnið að því að auka réttindi LGBTI einstaklinga. Í júní 2015 hafi dómsmálaráðuneyti í landinu fallist á að heimila einstaklingum sem gengist hafa undir eða séu í kynleiðréttingarferli að fá rétt kyn sitt skráð á opinber gögn án undangengis leyfis frá dómstólum. Í nóvember s.á. hafi stjórnskipunardómstóll úrskurðað aða kynhneigð væri ekki lögmætur grundvöllur synjunar í ættleiðingamálum. Sami dómstóll hafi í apríl 2016 staðfest rétt samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Þá komi fram að stjórnvöld í Kólumbíu hafi tekið framförum í að efla réttindi LGBT einstaklinga. Grófustu mannréttindabrot gagnvart LGBTI einstaklingum hafi átt sér stað á svæðum þar sem skæruliðahópar eða vopnahópar séu við völd og stjórnvöld standi höllum fæti.

Heimildir beri með sér að öryggisástand sé mjög mismunandi eftir landssvæðum og ítök glæpahópa mismikil. Í ferðaleiðbeiningum bresku utanríkisráðuneytisins séu svæði þar sem ráðlagt sé gegn öllum ferðalögum, svo sem hafnarborgirnar Buenaventura í Valle del Cauca héraði og Tumaco í Narno héraði. Í stórum hluta landsins sé ráðlagt gegn öllum nema nauðsynlegum ferðalögum en á sum landssvæði er ekki lagst gegn ferðalögum, s.s til […] héraðs. Heimildir beri með sér að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Þá hafi ýmis lög verið sett í því skyni að bæta réttarstöðu þolenda afbrota. Þó séu ákveðin svæði í Kólumbíu þar sem glæpahópar hafi mikil völd eða virk átök eigi sér stað á milli aðila og á þeim svæðum sé geta yfirvalda til að vernda borgara talin mjög takmörkuð. Ástæður þess séu m.a. að löggæsluyfirvöld komist ekki inn á þessi tilteknu svæði, þau skorti getu og úrræði auk þess sem spillingar gæti hjá yfirvöldum á ákveðnum svæðum. Refsileysi innan öryggissveita ríkisins hafi verið vandamál í landinu. Yfirvöld hafi þó á undanförnum árum handtekið, ákært og sakfellt fjölda starfsmanna hins opinbera fyrir tengsl við glæpahópa og hafi slíkum sakfellingum fjölgað töluvert.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína á ótryggu öryggisástandi í heimaríki vegna vopnaðra árása glæpahópa. Kærandi hafi fengið hótanir frá glæpahópi, sem hann telji vera Aguilas Negras, og hafi tilraun verið gerð til að ræna honum. Kærandi óttist líflát, að verða rænt og beittur ofbeldi. Kærandi kveður sig ekki geta fengið vernd frá yfirvöldum þar sem hún hafi einungis veitt honum vernd í nokkrar klukkustundir í kjölfar umræddrar tilraunar til mannráns. Þá sé kærandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem tvíkynhneigður einstaklingur.

Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Kólumbíu sé víða ótryggt og að íbúar landsins eigi á hættu að vera beittir ofbeldi af glæpahópum. Morðtíðni sé há og sumum svæðum sé að mestu leyti stjórnað af glæpahópum. Heimildir benda hins vegar til þess að yfirvöld Kólumbíu hafi á síðustu árum unnið markvisst að því að stemma stigu við ofbeldi og glæpum í landinu og vopnuðum átökum og mannránum hafi fækkað umtalsvert á síðari árum. Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda af almennu ástandi í Kólumbíu sé í meginatriðum í samræmi við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um heimaríki hans. Af heimildum og upplýsingum um heimabæ kæranda, […], er ljóst að ítök glæpahópa eru lítil þar. Þá sé öryggisástand í fylkinu […] gott í samanburði við önnur fylki í landinu. Verður því ekki byggt á því við úrlausn málsins að aðstæður í heimabæ og heimafylki kæranda séu ótryggar m.t.t. almenns öryggis íbúa. Eins og áður segir hefur kærandi greint frá því að tilraun hafi verið gerð til að ræna honum og til stuðnings þeirri frásögn lagði kærandi fram skjal gefið út af kólumbískum yfirvöldum, dags. 20. september 2017. Fram kemur á því skjali að gerð hafi verið tilraun til að ræna kæranda og að rannsókn sé í gangi vegna þess. Kærandi hefur ekki lagt fram önnur gögn er styðja frásögn hans um ofsóknir af hálfu glæpahóps og verður því ekki byggt á þeirri frásögn kæranda. Verður þó lagt til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir tilraun til mannráns.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Með vísan til framburðar kæranda, þess skjals sem liggur fyrir frá embætti ríkissaksóknara í Kólumbíu og ofangreindra gagna um aðstæður í heimaríki kæranda er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að lögreglan eða önnur yfirvöld þar í landi geti ekki eða vilji ekki beita sér gegn þeim einstaklingum sem hafi hótað kæranda og áreitt, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, árásir eða hótanir, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kveðst einnig vera í viðkvæmri stöðu og eiga á hættu ofsóknir í heimaríki vegna þess að hann sé tvíkynhneigður, m.a. af hálfu hópsins Grupo de Limpieza sem dreifi áróðri og líflátshótunum gegn LGBTI einstaklingum og öðrum. Kærandi hafi ekki lifað opinberlega sem tvíkynhneigður einstaklingur og hafi ekki verið hótað beint af þeim hópi. Hann hafi þó eitt skipti orðið fyrir ofbeldi af öðrum aðilum þegar hann hafi kysst þáverandi kærasta sinn á almannafæri. Af gögnum málsins má sjá að LGBTI einstaklingar verði fyrir fordómum í samfélaginu en að alvarlegustu mannréttindabrot gagnvart þeim eigi sér stað þar sem skæruliða-, uppreisna- og glæpahópar hafi sterk ítök og svæðisbundin stjórnvöld hafi ekki fulla stjórn á svæðinu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ráða slíkir hópar ekki ríkjum í heimabæ kæranda í Kólumbíu. Líkt og vísað var til hér að framan kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að lög í heimaríki kæranda kveði á um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og stjórnvöld hafi almennt framfylgt þeim lögum. Þá séu jafnframt til staðar frjáls félagasamtök, m.a. Colombia Diversa, sem vinni að réttindum LGBTI-einstaklinga í landinu. Er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu meðferð sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna kynhneigðar. Það að mismunun byggð á kynhneigð og kynvitund finnist í sumum hlutum samfélagsins og að samkynhneigð sé ekki viðurkennd hjá ákveðnum hópum breyti ekki því mati kærunefndar.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Þá telur kærunefnd, með vísan til aðgerða yfirvalda og möguleika á vernd þar í landi, ekki raunhæfa ástæðu til að ætla að kærandi verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna og uppfylli hann ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir einnig í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Kærandi kveðst óttast hótanir og ofbeldi við endurkomu til heimaríkis, þá geti hann ekki lifað opinberlega sem tvíkynhneigður maður í heimaríki sínu og hafi þurft að halda kynhneigð sinni leyndri. Kærunefnd áréttar það sem áður hefur komið fram um aðstæður í heimaríki kæranda, þ.e. að mismunun byggð á kynhneigð og kynvitund finnist í sumum hlutum samfélagsins og að á svæðum sem að sé að miklu leyti stjórnað af glæpahópum eigi LGBTI einstaklingar undir högg að sækja. Ljóst sé að löggjöf í Kólumbíu kveði á um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Stjórnvöld framfylgi almennt lögunum og til staðar séu frjáls félagasamtök sem vinni að réttindum LGBTI- einstaklinga í landinu. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um aðgerðir yfirvalda til að stemma stigu við starfsemi glæpasamtaka og refsileysi opinberra starfsmanna og möguleika kæranda á að leita verndar hjá yfirvöldum í Kólumbíu ef nauðsyn bæri til er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd vegna erfiðra almennra eða félagslegra aðstæðna í heimaríki, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en hann kvaðst jafnframt í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við ágæta andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Kærandi gerir þá kröfu til þrautaþrautavara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verð veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun er ekki fjallað um umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla. Þá fæst hvorki séð af gögnum málsins að kærandi hafi lagt fram slíka umsókn hjá Útlendingastofnun né fært fram málsástæður varðandi slíka kröfu við meðferð máls hans hjá stofnuninni.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar frá 16. mars 2017 var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þann 22. ágúst 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála þá ákvörðun Útlendingastofnunar. Kæranda er leiðbeint um það að telji hann aðstæður hans hafa breyst frá þeim tíma, þannig að hann uppfylli nú skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, skuli beina slíkri umsókn til Útlendingastofnunar. Samkvæmt framansögðu er ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þennan þátt málsins.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 1. september 2014 og sótti um alþjóðlega vernd þann 29. september 2017 eftir að hafa verið synjað um dvalarleyfi hér á landi. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar.

Kærandi hefur því dvalið hér á landi í rúm fjögur ár að hluta til í löglegri dvöl. Það mál sem hér er til afgreiðslu hófst að frumkvæði kæranda þann 29. september 2017, þremur árum eftir að kærandi kom til landsins. Með vísan til 5. mgr. 106.gr. laga um útlendinga verður frávísun ekki beitt í þessu máli. Verður því sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar felldur úr gildi.

Samkvæmt 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal við synjun umsóknar um dvalarleyfi leggja fyrir útlending að hverfa af landi brott og skal sá frestur að jafnaði vera á bilinu 7-30 dagar. Í ljósi þess hve kærandi hefur dvalið lengi hér á landi verður frestur til að yfirgefa landið ákveðinn með hliðsjón af 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en þar er mælt fyrir um heimild til að veita lengri frest en tilgreindur er í 2. mgr. 104. gr. ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða. Kærandi skal yfirgefa landið innan þess tímamarks sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

Kæranda er leiðbeint um í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun kæranda er felld úr gildi.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun um frávísun kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection and recidence permit on humanitarian grounds is affirmed. The part of the Directorate‘s decision pertaining to refusal of entry is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta