Hoppa yfir valmynd
22. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 15/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 13. desember 2010 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 29. nóvember 2010 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans. Ástæðan var sú að kærandi hafði stundað nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga, án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. september til 19. október 2010 að fjárhæð 273.390 kr. sem honum bæri að endurgreiða með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 13. júlí 2010 og fékk greitt í samræmi við rétt sinn.

Við samkeyrslu á gagnagrunnun Vinnumálastofnunar við nemendaskrár menntastofnana sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kom í ljós að kærandi var skráður í nám við Háskólann í Reykjavík, samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar, en án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2010, var kæranda tilkynnt um framangreinda samkeyrslu gagnagrunna og hann beðinn um að hafa samband við ráðgjafa Vinnumálastofnunar ásamt því að skila inn staðfestingu á einingafjölda frá viðkomandi skóla. Kæranda var jafnframt tilkynnt að í framhaldinu yrði tekin ákvörðun um hvort honum yrði heimilað að stunda nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun bárust skýringar frá kæranda þann 1. nóvember 2010. Kærandi kvaðst hafa bundið vonir við að geta unnið með náminu og að hann eyddi um klukkustund á hverju kvöldi í lærdóm. Jafnframt skilaði kærandi inn vottorði um skólavist þar sem Háskólinn í Reykjavík staðfestir að kærandi hafi verið skráður í 18 ECTS eininga fjarnám á haustönn 2010.

Með bréfi, dags. 13. desember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem hann væri í námi án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Það var einnig mat Vinnumálastofnunar að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. september til 19. október 2010 og bæri því að endurgreiða hinar ofgreiddu fjárhæð alls 273.390 kr., með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar dags. 17. janúar 2011, segir kærandi að nám það sem hann hafi verið skráður í við Háskólann í Reykjavík hafi verið þess eðlis að hann gæti stundað fulla vinnu samhliða námi, hefði starf verið í boði.

Þá segir kærandi að hann hafi verið boðaður til fyrsta fundar hjá Vinnumálastofnun í september 2010 og þar hafi honum verið tilkynnt að honum væri heimilt að stunda fjarnám í Háskólanum í Reykjavík upp að ákveðnum einingafjölda. Síðar hafi komið í ljós að um 18 ECTS eininga nám hafi verið að ræða og hann hafi í framhaldi af því átt fund með fulltrúa Vinnumálastofnunar þar sem honum hafi verið tilkynnt að hámarkseiningafjöldi megi ekki fara yfir 10 ECTS einingar. Segir kærandi að niðurstaðan hafi verið sú að minnka hlutfall atvinnuleysisbóta til hans niður í 40% fyrir mánuðina september, október og nóvember.

Kærandi segir að haustönninni hafi lokið þann 23. nóvember 2010 en vorönnin hefjist þann 19. janúar 2011. Gerir kærandi kröfu um að honum verði greiddar fullar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil. Kærandi gerir einnig kröfu um að úrskurður Vinnumálastofnunar verði endurskoðaður og krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði felld niður.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða dags. 3. júní 2011, áréttar stofnunin að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á hugtakinu „námi“ sem samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Vinnumálastofnun vísar einnig til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar er mælt fyrir um réttindi námsmanna. Þar segir að hver sá sem stundi nám skv. c-lið 3. gr. sömu laga teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili, sé námið ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun vísar til þess að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, komi fram í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins að það sé meginregla laganna að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla, staðarnám eða fjarnám.

Vinnumálastofnun áréttar að í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að atvinnuleitanda sé heimilt að stunda nám sem nemur að hámarki 10 ECTS einingum á námsönn, enda sé námið ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Í 3. mgr. 52. gr. laganna er að finna undanþáguheimild frá þessari meginreglu sem mælir fyrir um að Vinnumálastofnun sé heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá sem stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna, enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Vinnumálastofnun vísar til gagna málsins, en þar komi fram að kærandi hafi verið skráður í 18 ECTS eininga nám á haustönn 2010. Til þess að skilyrði undantekningarreglu 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um atvinnuleitanda, þurfi námshlutfall hans að vera það lágt að námið teljist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar veitir Lánasjóðurinn námslán vegna 18 ECTS eininga náms á háskólastigi og eru 18 ECTS einingar lágmarksfjöldi námseininga sem veitt eru lán fyrir.

Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi var skráður í nám sem var lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og því telji stofnunin að hvorki 2. mgr. né 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli hans. Vinnumálastofnun muni því ekki taka afstöðu til þess hvort skilyrði greinarinnar um sérstakar ástæður séu uppfyllt eða hvort aðstæður kæranda gefi nægilegt tilefni til að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. 52. gr. laganna. Þess í stað verði að álykta að meginregla sú er kemur fram í 1. mgr. 52. gr. eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt ákvæði 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tíma og hann er skráður í nám og hefur rétt til framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Vinnumálastofnun vísar til 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laganna ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er kærandi uppfyllir ekki skilyrði laganna. Ber kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010, að fjárhæð 273.390 kr. að viðbættu 15% álagi.

Með vísan til framangreinds var niðurstaða Vinnumálastofnunar sú að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum meðan hann er skráður í nám við Háskólann í Reykjavík og að kæranda beri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 22. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Kærandi var skráður í 18 ECTS eininga fjarnám á haustönn 2010 í Háskólanum í Reykjavík. Nám hans fellur því undir framangreinda skilgreiningu laga um atvinnuleysistryggingar á námi.

Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda var 18 ECTS einingar og telst lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli hans.

Af framansögðu er ljóst að kærandi stundar nám í skilningi laganna og um hann gildir meginregla 1. mgr. 52. gr. laganna. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar um stöðvun greiðslna atvinnuleysistrygginga til kæranda.

Í 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 134/2009 segir um atvinnuleit í námsleyfum:

 Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.

Kærandi hefur gert kröfu um að honum verði greiddar fullar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 23. nóvember til 19. janúar 2011, er hann var í námsleyfi á milli anna. Ber að líta til þess að með lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, var réttur námsmanna til atvinnuleysistrygginga þrengdur, sbr. framangreinda tilvitnun til lagagreinarinnar. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 134/2009 segir að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla, enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Komi skýrt fram að námsmenn teljist ekki tryggðir í námsleyfum skóla. Verður því ekki fallist á þá kröfu kæranda að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili er hann var í námsleyfi.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

 Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir í umfjöllun um 39. gr. að gert sé ráð fyrir því að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Jafnframt segir að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærandi fer einnig fram á að endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar á hendur honum vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði látin niður falla. Ekki verður fallist á þær röksemdir kæranda að fella beri niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til hans. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í tilvikum sem þessum. Ber kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2010, er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. desember 2010 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 273.390 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta