Fundir með forsætisráðherra Svíþjóðar og jafnréttisráðherra Austurríkis
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, áttu símafund um baráttuna gegn COVID-19 í dag.
Þau ræddu þær efnahagslegu ráðstafanir sem löndin hafa gripið til að undanförnu og framtíðarhorfur í efnhagsmálum. Einnig um mikilvægi norrænnar samvinnu á krefjandi tímum og nauðsyn þess að Norðurlöndin eigi gott samstarfum næstu skref í viðureigninni gegn faraldrinum. Þá ræddu þau einnig stöðuna í evrópsku samstarfi.
Katrín og Stefan ræddu saman síðast fyrir um mánuði en hún hefur á undanförnum vikum átt síma- eða fjarfundi með öllum forsætisráðherrum Norðurlandanna þar sem bornar hafa verið saman bækur í baráttunni við COVID-19 og ræddar aðgerðir til efnahagslegrar viðspyrnu.
Þá fundaði Katrín einnig símleiðis með Dr. Susanne Raab, jafnréttisráðherra Austurríkis, um áhrif heimsfaraldursins á stöðu jafnréttismála en Ísland hefur átt gott samstarf við Austurríki á því sviði.