Mannanafnanefnd, úrskurðir 2. febrúar 2007
FUNDARGERÐ
Ár 2007, föstudaginn 2. febrúar, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram að Neshaga 16, Reykjavík. Mætt voru Ágústa Þorbergsdóttir, Baldur Sigurðsson og Kolbrún Linda Ísleifsdóttir. Neðangreind mál voru tekin fyrir:
1. Mál nr. 85/2006. Eiginnafn: Jeanne (kvk.)
Millinafn: Jeanne
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Mál þetta, sem móttekið var 20. desember 2006, var fyrst tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 29. desember s.á. en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar. Um nafnbreytingarbeiðni er að ræða þar sem þess er óskað að Jeanne komi sem millinafn hjá [...]. Í rökstuðningi fyrir beiðninni segir m.a. að langamma [...] í móðurætt hafi heitið [...]. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mannanafnanefndar er hins vegar sótt um samþykki fyrir eiginnafninu Jeanne (kvk.). Málið er því afgreitt bæði sem umsókn um eiginnafn (kvk.) og sem umsókn um millinafn.
a) Jeanne sem eiginnafn (kvk.)
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
2. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila manna-nafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Eiginnafnið Jeanne tekur ekki íslenska eignarfallsendingu, það brýtur í bág við íslenskt málkerfi og telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Nafnið Jeanne uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.
b) Jeanne sem millinafn
Um millinöfn gilda ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þar segir m.a. að nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, séu ekki heimil sem millinöfn. Í ákvæðinu segir einnig að gefa megi hvort heldur stúlku eða dreng sama millinafnið og því eru millinöfn í eðli sínu kynlaus. Nafnið Jeanne er algengt kvenmannsnafn víða erlendis og samkvæmt Þjóðskrá bera 14 konur, búsettar á Íslandi, þetta nafn sem eiginnafn. Nafnið Jeanne er því hvorki heimilt sem almennt millinafn né sem sérstakt millinafn þótt lang-amma stúlkunnar, sem ætlað var að bera nafnið, hafi heitið Jeanne.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Jeanne ( kvk.) er hafnað og beiðni um millinafnið Jeanne er einnig hafnað.
2. Mál nr. 87/2006. Eiginnafn: Íssól (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Mál þetta, sem móttekið var 21. desember 2006, var fyrst tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 29. desember 2006 en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar.
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
2. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Af viðtali við aðstandendur má ráða að nafnið Íssól sé til komið fyrir misskilning á nafninu Ísól eða óvissu um rithátt þess þegar fjölskyldan dvaldi í Kanada. Nafnið Ísól er túlkað sem Ís-sól, en sú merking er ekki fyrir hendi í nafninu Ísól. Hér er því algerlega um nýtt nafn að ræða. Uppruni nafnsins Ísól er óljós en það er ef til vill sama nafn og Ísold eða myndað með hliðsjón af karlmannsnafninu Ísólfur. Vert er að benda á að framburður nafnsins Íssól verður alveg eins og framburður nafnsins Ísól og því verður jafnan óvissa um hvort rita á nafnið með einu eða tveimur s-um, eða um hvort nafnið er að ræða. Bent skal á að kvenmannsnafnið Ísól er á mannanafnaskrá.
Eiginnafnið Íssól (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Íssólar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 46/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Íssól (kvk.) er samþykkt en nafnið skal ekki fært á mannanafnaskrá fyrr en skráning þess hefur verið framkvæmd hjá Þjóðskrá.
3. Mál nr. 2/2007. Eiginnafn: Ísarr (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
2. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hugtakið hefð í manna-nafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Nafnið Ísarr er forn ritháttur nafnsins Ísar sem þegar er á mannanafnaskrá. Ástæða þess að mannanafnanefnd hefur hingað til hafnað rithættinum Ísarr er sú að nefnifallsendingin –rr er ekki í samræmi við íslenskt málkerfi eins og það er nú. Það uppfyllir því ekki það skilyrði sem tilgreint er í 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Mannanafnanefnd telur að þrátt fyrir að nafnið Ísarr uppfylli ekki öll skilyrði 5. gr. til að verða fært á mannanafna-skrá sé rétt að taka málið til endurskoðunar á grundvelli þriggja atriða:
a. Nafnið Ísarr kemur fyrir í Sturlungu á 13. öld og í fornbréfum frá 15. öld. Ritháttur þess með –rr er samkvæmt málfræði fornmálsins. Með hliðsjón af vinnulagsreglum mannanafnanefndar þegar um erlend nöfn er að ræða má líta svo á að rithátturinn Ísarr hafi unnið sér menningarhelgi.
b. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru tveir karlmenn skráðir með eiginnafnið Ísarr (fyrra nafn og annað nafn af þremur). Þeir eru fæddir árin 1977 og 1984.
c. Nú þegar eru sjö eiginnöfn karla með nefnifallsendingunni –rr á mannanafnaskrá en það eru nöfnin Heiðarr, Hnikarr, Óttarr, Snævarr, Steinarr, Sævarr og Ævarr.
Mörk forníslensku og íslensks nútímamáls eru ekki glögg og þar með er ekki ótvírætt að hafna forníslenskri beygingarmynd sem fyrir kemur í heimildum ef það er ritað í samræmi við ritreglur nútímamáls að öðru leyti. Því hefur mannanafnanefnd ákveðið að láta fyrirliggjandi umsókn njóta nokkurs vafa um þetta atriði og taka tillit til þeirra þriggja atriða sem að ofan eru nefnd. Sú ákvörðun er tekin í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.
Nafnið Ísarr beygist í aukaföllum eins og Ísar, þ.e.: Ísarr – Ísar – Ísari – Ísars.
Ísarr telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Ísar og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Ísarr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Ísar.
4. Mál nr. 3/2007. Eiginnafn: Anya (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
2. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila manna-nafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Eiginnafnið Anya (kvk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi og getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Kvenmannsnafnið Anja er algengt í slavneskum málum, t.d. rússnesku, og mun hafa borist þaðan í önnur mál. Við umritun rússneskra nafna í latínustafróf er stuðst við reglur sem taka mið af framburði í hverju máli fyrir sig. Í enskri umritun rússneskra nafna er j-hljóðið umritað með ‘y’ en í öðrum málum, líkt og íslensku, er yfirleitt ritað ‘j’. Með hliðsjón af uppruna nafnsins væri því eðlilegt að rita ‘Anja’ á íslensku. Samkvæmt upplýsing-um frá Þjóðskrá eru tvær stúlkur skráðar með eiginnafnið Anya (fyrra nafn) og eru þær fæddar árin 2002 og 2006. Báðar hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur. Eiginnafnið Anya uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Anya (kvk.) er hafnað.
6. Mál nr. 5/2007. Eiginnafn: Elínora (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
2. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Ritháttur eiginnafnsins Elinóra (kvk.) hefur verið nokkuð á reiki og hafa ritmyndirnar Elinóra, Elenóra og Eleonora verið samþykktar á mannanafnaskrá. Að mati mannanafnanefndar ætti ritmyndin Elinóra með ‘i’ að vera hin hlut-lausa gerð nafnsins og þannig grunnmynd þess en aðrar gerðir ritmyndir af því. Rökin eru a) Elinóra er fyrir á mannanafnaskrá, b) Elinóra er algengasti ritháttur nafnsins í Þjóðskrá og það bendir til að sú mynd hafi sterkasta hefð í málinu, og c) í áherslulausu atkvæði er almennt frekar ritað ‘i’ en ‘í’.
Í máli þessu er sótt um eiginnafnið Elínora (kvk.) en nefndin ákvað að fjalla einnig um eiginnöfnin Elinóra, Elenóra og Eleonora, með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996. Eiginnöfnin Elinóra, Elínora, Elenóra og Eleonora (kvk.) taka öll beygingu í eignarfalli, Elinóru, Elínoru, Elenóru og Eleonoru, og teljast að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996. Elínora, Elenóra og Eleonora teljast vera aðrir rithættir eiginnafnsins Elinóra, sem telst vera grunnmynd nafnsins, og skulu nöfnin færð sem slík á mannanafnaskrá.
Úrskurðarorð:
Eiginnafnið Elinóra (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá. Eiginnöfnin Elínora (kvk.) Elenóra (kvk.) og Eleonora (kvk.) eru einnig samþykkt og skulu þrjú síðastnefndu nöfnin færð á mannanafnaskrá sem ritmyndir eiginnafnsins Elinóra.
7. Mál nr. 6/2007. Eiginnafn: Hedí (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Hedí (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Hedíar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Hedí (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Hedíar.
8. Mál nr. 7/2007. Eiginnafn: Hvannar (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Hvannar (kk.) tekur beygingu í eignarfalli, Hvannars, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Hvannar (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.