Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 221/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 221/2023

Miðvikudaginn 5. júlí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. mars 2023 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 3. mars 2023. Þeirri umsókn var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. mars 2023, á þeim grundvelli að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teldist ekki nógu ítarleg í ljósi heildarvanda umsækjanda og óljóst hvernig endurhæfing kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsuvanda vart hafin. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi frá Tryggingastofnun ríkisins og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. apríl 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2023. Með bréfi, dags. 3. maí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. maí 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 30. maí 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 1. júní 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið að fara eftir enduhæfingaráætlun, útbúinni af áfengis- og vímuefnaráðgjöfum SÁÁ, sem hafi hafist 3. ágúst 2022. Í meðferðinni hafi kæranda verið ráðlagt í ljósi sögu hans, áfallasögu og fíknisögu, og í ljósi þess hversu illa hann glími við spennu og streitu, að einbeita sér að endurhæfingu sem fæli í sér áætlun og dagskrá, allt frá því hvenær hann vakni á morgnanna og þangað til að hann fari að sofa á kvöldin.

Kæranda hafi verið ráðlagt að með áætlun varðandi til dæmis svefn, næringu, hreyfingu og fundarsókn, sem hann myndi fylgja í tólf mánuði eftir útskrift hans frá Vík, væru bestu líkurnar á að ná bata frá alkóhólisma, komast út á vinnumarkað, taka við börnunum sínum og endurheimta líf sitt. Hluti af þeirri áætlun væri að kærandi myndi eiga rétt á framfærslu í ljósi þeirrar vinnu sem hann væri að sinna samkvæmt ráðgjöf sérfræðinga SÁÁ og samkvæmt vottorði heimilislæknis.

Kærandi fari daglega á AA fundi, sinni hreyfingu, svefni, mataræði, mæti í viðtalstíma hjá lækni og hjá ráðgjöfum. Hann hafi fylgt þessari áætlun með stuttu hléi í febrúar sem hann geti þó rökstutt. Kærandi hafi verið í stöðugu sambandi við SÁÁ frá 21. desember 2022 til að fá vottorð sem myndi staðfesta mætingu hans og þátttöku í þeim liðum endurhæfingaráætlunar sem hafi snúið að þeirri stofnun. Kærandi hafi ekki fengið vottorðin þrátt fyrir mætingu. Á endanum hafi hann fallið í nokkra daga, aðallega vegna ráðaleysis í kjölfar þess að hann hafi misst húsnæði sitt og fleira vegna tekjuleysis. Kærandi hafi strax talað við SÁÁ sem hafi tekið hann inn og útbúið vottorð. Kæranda hafi sjaldan gengið betur eða liðið betur þar sem hann sé að vinna eftir þeirra áætlun.

Kærandi sé þó enn tekjulaus og hafi safnað miklum skuldum sem sé mjög neikvætt.

Í athugasemdum kæranda, dags. 30. maí 2023, kemur fram að kærandi hafi átt langa meðferðarsögu, frá 1998 til 2008. Hann hafi farið í innlagnir á hinar og þessar meðferðarstöðvar á hverju ári, stundum oftar en einu sinni á ári.

Kærandi hafi verið edrú frá 2009 til 2021, en í lok árs 2021 hafi kærandi fallið í kjölfar flókinna breytinga þegar hann hafi orðið einstæður faðir með […] börn, […]. Börn kæranda hafi verið í mismiklu áfalli vegna […] þeirra svo kærandi hafi þurft að minnka við sig í vinnu, selja íbúð þeirra og greiða út helming íbúðarinnar. Í tæplega X ár hafi barnsmóðir kæranda ekki talað við börnin. Kærandi hafi misst vinnuna í mars 2020 og með tilkomu COVID-19 hafi AA fundir lokað dyrum sínum meira og minna í heilt ár. Andlega heilsa kæranda hafi farið versnandi vegna slæmrar skuldastöðu og álags á heimilinu. Kærandi hafi fallið í lok desember 2021 eftir rúm X ár edrú.

Ráðgjafar SÁÁ og læknar hafi eindregið mælt með því að kærandi myndi stunda endurkomu meðferð í tólf mánuði eftir að meðferð hans á Vík hafi lokið í september 2022, sem hann hafi samþykkt. Haustið 2022 hafi kærandi stundað hreyfingu, fundi, sálfræðiviðtöl og borðað og sofið eftir áætlun, sem hafi verið gerð með það að markmiði að endurhæfa hann og styrkja svo hann gæti farið aftur út á vinnumarkað að tólf mánuðum liðnum.

Kærandi hafi réttindi til […], hann sé […], hafi víðtæka reynslu af sölustörfum og geti unnið við ansi margt. Einróma álit ráðgjafa og lækna hafi verið að vegna streitu, sem kærandi sé tiltölulega blindur á, þá myndi hann stunda ítarlega áætlun til að styrkja hann og gefa honum mestu líkurnar á að viðhalda edrúmennsku.

Kærandi hafi misst íbúð sína […] 2022 þar sem hann hafi verið tekjulaus og verið að bíða eftir endurhæfingarlífeyri. Kærandi hafi ýtt á SÁÁ að skila vottorði til Tryggingastofnunar sem stofnunin hafi óskað eftir þann 21. desember 2022, en SÁÁ hafi ekki útvegað vottorðið.

Í lok janúar 2023 hafi kærandi verið heimilislaus í X mánuði og hafi verið að stunda sína áætlun. Streita og tilfinningin að skipta ekki máli í augum SÁÁ og Tryggingastofnunar hafi valdið því að kærandi hafi fallið að nýju. Um leið hafi hann talað við SÁÁ og farið beint inn á Vog, staðráðinn í að vera edrú. Kærandi hafi neitað að fara þaðan fyrr en að hann fengi umrætt vottorð sem hann hafi fengið þann 18. mars 2023.

Kærandi telji að ef umrætt vottorð hafi borist Tryggingastofnun í desember 2022, eins og þeir hafi óskað eftir, þá hefði hann hvorki fallið né hefði umsókn hans um endurhæfingarlífeyri verið synjað. Kærandi telji ólíklegt að Tryggingastofnun væri að óska eftir vottorði varðandi ástundun í endurhæfingu ef áætlunin væri gölluð.

Kærandi hafi verið edrú allan tímann, fyrir utan stutta fallið í febrúar 2023. Hann sé á fundum alla daga, sé að stunda hreyfingu og sálfræðitíma og fái stuðning á vegum SÁÁ. Fjárhagur kæranda sé ekki góður, hann hafi verið tekjulaus og sé að bíða eftir greiðslum afturvirkt frá árinu 2022. Hann sé húsnæðislaus og börnin hans séu í fóstri og bíði þess að hann geti leigt íbúð svo þau geti búið hjá honum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Í 1. mgr. 7. gr. segi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. 7. gr. laganna sé að finna heimild til að framlengja greiðslutímabil að vissum skilyrðum uppfylltum:

„Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Nánar sé kveðið á um endurhæfingarlífeyri í reglugerð nr. 661/2020, þar sem segi til dæmis í 3. gr. varðandi mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað um í reglugerðinni. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. sömu reglugerðar komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar, sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir ásamt reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt í samræmi við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem sé kveðið á um samræmi og jafnræði í lagalegu tilliti við úrlausn sambærilegra mála. Stofnunin skuli í kjölfarið leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans og þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins, sbr. leiðbeiningaskylda stjórnvalda. Því hafi öllu verið sinnt í þessu máli.

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hafi ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum sé að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skýrt kveðið á um að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda sé ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 20. október 2022. Hann hafi sent inn læknisvottorð með umsókninni. Frekari gögn hafi vantað og því hafi Tryggingastofnun óskað eftir þeim með bréfi, dags. 25. október 2022. Þann 12. og 13. desember 2022 hafi kærandi sent inn endurhæfingaráætlun og nýtt læknisvottorð. Tryggingastofnun hafi óskað eftir frekari gögnum þann 21. desember 2022.

Kærandi hafi skilað inn nýrri umsókn þann 3. mars 2023 og síðar í sama mánuði hafi fylgt vottorð frá SÁÁ. Umsókn um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað þann 22. mars 2023. Þann 24. mars 2023 hafi mál kæranda verið tekið til endurskoðunar hjá Tryggingastofnun, þar sem endurhæfingaráætlun hafi ekki verið samþykkt áður en synjun hafi verið send á Mínar síður kæranda og í kjölfar tölvupósts frá kæranda, dags. 23. mars 2023. Umsókn um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað að nýju þann 30. mars 2023, á þeim grundvelli að nýjar upplýsingar gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrra mati.

Þann 4. apríl 2023 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi vegna synjunar Tryggingastofnunar. Kærandi hafi einnig sent inn nýtt læknisvottorð þann 5. apríl 2023 og nýja endurhæfingaráætlun.

Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 20. október 2022, 13. desember 2022 og 5. apríl 2023. Einnig liggi fyrir vottorð frá SÁÁ, dags. 17. mars 2023 og endurhæfingaráætlanir B læknis, dags. 12. desember 2022 og 5. apríl 2023.

Mat á umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris byggi á 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnu ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað með bréfi, dags. 22. mars 2023, þar sem ekki hafi þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem fyrirliggjandi endurhæfingarætlun hafi ekki talist nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfing kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda hafi virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsuvanda kæranda virst vart hafa vera hafin. Endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Mat Tryggingastofnunar hafi því verið að ekki væru rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem endurhæfing umsækjanda á umbeðnu tímabili hafi ekki talist nægilega markviss þannig að verið væri að vinna með aukna starfshæfni að markmiði með fullnægjandi hætti. Fram komi að kærandi sé í viðhaldsmeðferð á Vogi þar sem hann sæki lyf einu sinni í viku. Afeitrun á Sjúkrahúsinu Vogi og eftirmeðferð á Vík falli ekki undir starfsendurhæfingu. Úrræðið Víkingameðferð I og II sé ekki nægilega umfangsmikið svo að unnt sé að meta greiðslur endurhæfingarlífeyris þar sem áhersla úrræðanna sé að vinna með vímuefnavanda umsækjanda en ekki áhersla á endurkomu á vinnumarkað. Önnur úrræði í endurhæfingaráætlun séu auk þess á eigin vegum með engu utanumhaldi fagaðila eða í samvinnu með barnavernd þar sem unnið sé að því að sameina fjölskyldu að nýju og sé ekki um að ræða starfsendurhæfingu. Kærandi hafi að svo stöddu ekki verið kominn í virka starfsendurhæfingu með áherslu á endurkomu á vinnumarkað. Því hafi umsókn hans um endurhæfingarlífeyri verið synjað.

Tryggingastofnun hafi ákveðið að endurskoða mál kæranda og fyrri synjun í kjölfar tölvupósts hans þann 24. mars 2023, þar sem hann hafi útskýrt stöðu sína og þá vinnu sem hann hafi unnið í bataferli sínu. Við endurskoðunina hafi verið notast við sömu endurhæfingaráætlun og staðfestingu frá Vogi sem fyrra mat hafi verið byggt á, auk upplýsinga kæranda í tölvupósti. Við skoðun máls hafi ekki þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga fyrra mati. Umsókn kæranda hafi því verið synjað að nýju.

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar, dags. 14. apríl 2023, hafi verið tekið fram í lokin að ef breyting verði á endurhæfingu kæranda eða aðstæðum væri hægt að leggja inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í starfsendurhæfingu.

Mat Tryggingastofnunar sé að óljóst þyki hvernig sú endurhæfing sem hafi verið lagt upp með myndi koma til með að stuðla að þátttöku á vinnumarkaði. Því uppfylli hún ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem segi að umsækjandi þurfi að stunda virka endurhæfingu út frá heilsufarsvanda með starfshæfni að markmiði.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé að óljóst þyki hvernig sú endurhæfing sem hafi verið lagt upp með komi til með að stuðla að þátttöku á vinnumarkaði og uppfylli því ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sem segi að umsækjandi þurfi að stunda virka endurhæfingu út frá heilsufarsvanda með starfshæfni að markmiði.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 24 mánuði ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð hefur verið sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingar­áætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingar­innar.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu bundin ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur séu heimilar. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði séu uppfyllt.

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð B, dags. 13. desember 2022. Vottorðið er að mörgu leyti samhljóða fyrra vottorði. Þar koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Mental and behavioral disorders due to use of cocaine, trance and possession siorders in cocaine intoxication

Mental an behavioral disorders due to use of opioids, psychotic disorder“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„Edrú í X ár, datt i það í desember, fór á Vog í ágústbyrjun, er í eftirfylgd á vegum SÁÁ, á að vera í iett ár. Ráðlagt af SÁÁ að fá endurhæfingu í 1 ár, verður í meðferð hjá þeim næsta árið, viðtöl, fyrirlestrar og hópmeferð. Mættir þess fyrir utan á fundi. Var í kókaíni. Ráðlögð endurhæfing. Skildi […], endaði einn með [..] börn. Var að vinna í verktöku við ýmiss verk, mikil streita og spenna. Börn eru hjá […] núna. Þarf tíma til að ná sér upp.Fyrri saga um ADHD. Gat ekki notað ritalin vegna fíknisögu. Hjálpar honum mikið en missir stjórn á neyslu þess. Er á suboxone, verið í 14 ár. Fyrri saga um opíodafíkn.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá því að hann hóf meðferð á Vogi þann 3. ágúst 2022. Einnig kemur fram að vottorð um endurhæfingarlífeyri hafi fyrst verið skrifað í október 2022. Það hafi tekið langan tíma að fá staðfestingu frá SÁÁ um að kærandi væri að sinna meðferð. Læknir kæranda óski eftir afturvirkni á mati með tilliti til endurhæfingar.

Jafnframt liggur fyrir í málinu læknisvottorð B, dags. 13. desember 2022 og 20. október 2022, vegna fyrri umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Vottorðin eru að mestu leyti samhljóða fyrrgreindu vottorði.

Þar að auki liggur fyrir vottorð C læknis á sjúkrahúsinu Vogi, dags. 17. mars 2023. Í vottorðinu segir:

„A er á Viðhaldsmeðferð vegna ópíóíðafíknar frá Sjúkrahúsinu Vogi og tekur Suboxone. Hann sækir lyfin sín á Sjúkrahúsið Vog nú 1x í viku. Hann mætir einnig í viðtal til lækna á Sjúkrahúsinu Vogi á 4-12 vikna fresti.

A kom til meðferðar á Vog frá 03.08.2022 – 19.08.2022, útskrifaðist af Vogi í Víkingameðferð á Vík frá 19.08.2022 – 16.09.2022. Lauk meðferðinni á Vík og innritaðist í Víkingastuðning I í göngudeild SÁÁ þann 20.09.2022 og stundaði hann og var í góðu samstarfi við áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

A leggst aftur inn á Vog þann 05.03.2023 og fyrirhugað að hann innritist í Víkingastuðninn II í göngudeild SÁÁ að Vogsdvöl lokinni.“

Fyrir liggur endurhæfingaráætlun, dags. 12. desember 2022. Þar segir að markmið endurhæfingar sé að ná stjórn á líðan, finna öryggi og grunn til að snúa út á vinnumarkað að nýju. Samkvæmt áætluninni var endurhæfing fyrirhuguð frá 3. ágúst 2022 til 16. september 2023. Í endurhæfingaráætlun segir:

„Stundar virka endurhæfingu í gegnum prógram hjá SÁÁ. 12 mánaða meðferð sem samanstendur af hópmeðferð, ráðgjafaviðtölum og fundum. Er þar x2 í viku fast. Svo tilfallandi fundir þess utan.

Stundar hreyfingu, fær í líkamsrækt 2 daga í einu, svo hvíld í 1 dag. Er með prógram frá einkaþjálfara. Fylgir því, styrktar, þol og slökun.

Stundar hugleiðslu, er hjá therapista

Er að fara til áfalla og fíknisálfræðings á vegum barnaverndar […].

AA fundir x5 í viku.

Með strúktúr í tengslum við mataræði, svefn og aðra rútínu.“

Þar að auki liggja fyrir gögn vegna annarra umsókna kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við andleg veikindi sem orsaki skerta vinnugetu. Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda sé hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Úrskurðarnefndin lítur meðal annars til þess að ekki verði ráðið af endurhæfingaráætluninni hvernig þeir endurhæfingarþættir sem lagt var upp með, þ.e. áfengis- og fíkniefnameðferð, fundir hjá AA samtökum, meðferðarúrræði hjá Barnavernd […] og mæting í hugleiðslusetur, eigi að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum er kærandi með andleg veikindi og því telur úrskurðarnefndin að framangreindir endurhæfingarþættir séu ekki nægileg endurhæfing ein og sér til að auka frekar starfshæfni kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. mars 2023 um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta