Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 10. febrúar 2023

Heil og sæl.

Upplýsingadeildin heilsar ykkur í vikulok. Dagarnir þjóta hjá, hver öðrum viðburðarríkari og hver öðrum bjartari, eins og venjan er á þessum árstíma. Nú er kominn föstudagur og við förum yfir það helsta sem hefur átt sér stað á vettvangi utanríkisþjónustunnar í vikunni.

Hörmungar vegna gríðarstórra jarðskjálfta í Tyrklandi og Norður-Sýrlandi í vikubyrjun fóru ekki framhjá neinum og lituðu starfið í utanríkisþjónustunni töluvert. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra vottaði að sjálfsögðu samúð og bauð fram aðstoð 

og svo stóð ekki á viðbragðinu. Strax á þriðjudagskvöld fór í loftið flugvél með sérfræðingum á sviði aðgerðastjórnunar í rústabjörgun á hamfarasvæðum. Teymið lenti í Tyrklandi á miðvikudagsmorgni og tók strax til starfa. Eins og kemur fram í frétt á stjórnarráðsvefnum er Ísland virkur þátttakandi sérstaks samstarfsettvangs á vegum Sameinuðu þjóðanna um rústabjörgun (INSARAG) og er sveitin á viðbragðslista hans. 

Af sendiskrifstofunum var að vanda heilmargt að frétta.

Í Síerra Leóne var nýju samstarfsverkefni Íslands, þarlendra stjórnvalda og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) formlega hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn. Verkefnið er til fjögurra ára og snýr að uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í sjávarbyggðum landsins. Áætlað er að rúmlega 53 þúsund manns muni njóta góðs af verkefninu. Nánar var greint frá þessu þarfa og metnaðarfulla verkefni í Heimsljósi á dögunum.

Í Strassborg var gærdagurinn helgaður Úkraínu í Evrópuráðinu þar sem íslenska formennskan skipulagði umræður um mikilvægi þess að tryggja að þeir sem beri ábyrgð á glæpum tengdum innrás Rússa verði dregnir til ábyrgðar og fórnarlömb fái bætur fyrir þann skaða sem þau hafa orðið fyrir.

Í Varsjá afhenti Hannes Heimisson sendiherra, Andrzej Duda forseta Póllands trúnaðarbréf sitt en segja má með sanni að um sögulegan viðburð sé að ræða enda fyrsta trúnaðarbréfið sem afhent er af íslenskum sendiherra sem er með aðsetur í landinu. Starfsmenn sendiráðsins lögðu blómasveig á gröf hins óþekkta hermanns í athöfninni sem fór fram í Belvedere höllinni og var hin hátíðlegasta.

Í Berlín hélt kynning á ræðismönnum áfram í tilefni 70 ára stjórnmálasambands milli Íslands og Þýskalands. Ræðismenn vikunnar eru Bettina Adenauer-Bieberstein, frá Kölnarborg:

Wolf-Rüdiger Dick frá Cuxhaven, sem vill svo til að er vinabær Hafnarfjarðar:

Og Dr. Jens Uwe Säuberlich frá Frankfurt:

í London hittust fulltrúar í sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF), þeirra á meðal Jón Einar Sverrisson fyrir Íslands hönd, til að ræða varnar- og öryggisæfingar næstu 5 ára og hvernig þétta megi samstarfið við NATO enn frekar.

Í Nýju-Delí tók sendiráðið þátt í alþjóðlegri matarhátíð og kynnti íslenskt skyr við góðar undirtektir viðstaddra, ekki síst yngsta fólksins. 

Í Ottawa skelltu starfsmenn sendiráðsins sér á skíði í nafni góðrar lýðheilsu, á viðburðinu Ski Day on the Hill, sem er viðburður sem ætlað er að vekja athygli á heilsu þjóðar og hvetja til hreyfingar.

Þá tók Hlynur Guðjónsson sendiherra þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni Northern Lights 2023 þar sem hann lagði áherslu á vilja Íslands til að dýpka viðskipta- og menningartengsl í norðri.

Í París var Unnur Orradóttir sendiherra viðstödd samtal glæpasagnahöfundarins góðkunna, Arnaldar Indriðasonar, við Alain Nicolas og Eric Boury í Húsi ljóðsins þar í borg, en Arnaldur er í Frakklandi að fylgja eftir útgáfu á bók sinni Sigurverkið á frönsku.

Í Stokkhólmi fer fram hönnunarsýning og tekur sendiráðið þátt í fjölda viðburða af því tilefni. 

Í New York hélt fastanefndin utan um norrænan fund með forseta allsherjarþingsins, Csaba Körösi, um komandi allsherjarþing.

Í Heimsljósi var greint frá því að Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlegar mannúðarstofnanir birtu í vikunni ákall um fjárstuðning við íbúa Sómalíu þar sem um rúmlega átta milljónir íbúa, um helmingur þjóðarinnar, þarf á brýnni mannúðaraðstoð að halda. Miklar líkur eru á því að lýst verði yfir hungursneyð í landinu á vormánuðum.

Við ljúkum þessum föstudagspósti á fréttum frá Færeyjum. Í Þórshöfn fór fram bókarkynning þar sem Ásmundur Friðriksson las upp úr bók sinni Strand í gini gígsins. Kynningin var vel heppnuð og greindi Ásmundur sjálfur frá því á fésbókarsíðu sinni að hann hefði hitt fjölmarga Eyjamenn, þar með taldar tvær fermingarsystur á viðburðinum. Sannast þar með enn og aftur það sem við vitum öll að þessi veröld er smá.

 

Fleira var það ekki í bili.

Við óskum ykkur endurnærandi helgar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta