Lokagreiðsla Jöfnunarsjóðs fyrir 2008 greidd næstu daga
Samgönguráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 12. desember síðastliðinn um endanlega úthlutun og uppgjör á 1.400 milljón króna aukaframlagi úr Jöfnunarsjóði á árinu. Lokagreiðslan, 250 milljónir króna, fer fram á næstu dögum.
Aukaframlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna.
Úthlutunin byggist á reglum, nr. 526/2008. Við úthlutun framlagsins er tekið mið af íbúafækkun í sveitarfélögum á tilteknu árabili, þróun útsvarsstofns, íbúaþróun og útgjaldaþörf sameinaðra sveitarfélaga.