Hoppa yfir valmynd
22. desember 2008 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélögum heimilað að hækka útsvarshlutfall

Í nýjum lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem Alþingi samþykkti síðastliðinn laugardag 20.desember er sveitarfélögum heimilað að hækka útsvarshlutfall úr 13,03% í 13,28%. Gefur þetta sveitarfélögunum svigrúm til að afla aukinna tekna og mæta þar með tekjusamdrætti.

Frumvarpið er hluti af margs konar ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem yfirvöld telja nauðsynlegt að grípa til vegna efnahagsástandsins sem þýða að breyta verður ýmsum lögum er málið varða.

Áætlað er að þessi hækkun á útsvarshlutfalli sveitarfélaga geti skilað þeim allt að tveimur milljörðum króna í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Heimildin mun skapa mun betri forsendur fyrir rekstri sveitarsjóðanna á næstu árum en að öllu óbreyttu hefði stefnt í allnokkra tekjulækkun hjá mörgum sveitarfélögum vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Staða sveitarfélaganna er vissulega misjöfn en reikna má með að meirihluti sveitarfélaga muni nýta sér hina nýju heimild sem lögin heimila. Á yfirstandandi ári nýttu 63 sveitarfélög sér heimild til hámarksálagningar útsvars, 15 sveitarfélög lögðu á lægra útsvar og þar af þrjú sem lögðu á lágmarksútsvar en það er 11,24%. Lágmarksútsvari var ekki breytt með þessum lögum.

Vekja má athygli á því bráðabirgðaákvæði í lagabreytingunni sem tilgreinir að sveitarfélög verði að tilkynna fjármálaráðuneytinu eigi síðar en 30. desember hver útvarsálagning ársins 2009 muni verða en almenna reglan er sú að slík tilkynning þurfi að hafa borist 15. desember.

Lögin mæla fyrir um að tekjuskattur einstaklinga verði 24,1% í stað 22,75% áður. Í skýringum með frumvarpinu segir að af þessari hækkun verði um 0,25% notuð til að fjármagna sérstakt eins milljarðs króna framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og greiðslur ríkissjóðs á fasteignagjöldum, eða samtals um nálægt 1,5 milljörðum króna. Álagningarhlutfall í B flokki fasteignaskatts verður því áfram 1,32%. Hvað aukaframlagið í Jöfnunarsjóð varðar er rétt að upplýsa að ekki hefur verið ákveðið hvernig útreikningi framlagsins til sveitarfélaga verður háttað en samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um mótun væntanlegra reglna. Reglurnar geta því tekið breytingum en þó er líklegt, líkt og gilt hefur varðandi sérstakt aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í ár og á síðustu árum, að framlag verði eigi greitt nema þeim sveitarfélögum sem fullnýta útsvarsheimildir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta