Samráðsfundur um stefnu Íslands í þróunarsamvinnu
Í vikunni fór fram samráðsfundur um stefnu íslenskra stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Utanríkisráðuneytið boðaði til fundarins og bauð til samráðs fjölmarga einstaklinga sem hafa á einn eða annan hátt haft aðkomu að þróunarsamvinnu síðustu árin, meðal annars frá félagasamtökum, landsnefndum stofnana Sameinuðu þjóðanna, GRÓ – þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, atvinnulífinu, stofnunum, ráðuneytum og fræðasamfélaginu. Þátttakendur á samráðsfundinum voru um fimmtíu talsins.
Samkvæmt lögum 121/2008 leggur utanríkisráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fimmta hvert ár. Núgildandi stefna gildir til ársloka og að undanförnu hefur verið unnið að mótun nýrrar stefnu fyrir árin 2024 til 2028. Mikilvægur liður í stefnumótunarvinnunni er samráð við hagsmunaaðila á Íslandi og var samráðsfundurinn hluti af því. Stefnan verður jafnframt kynnt og rædd af þróunarsamvinnunefnd og sett í samráðsgátt stjórnvalda, en þá gefst einnig tækifæri til að leggja fram athugasemdir.
Á fundinum var bæði rætt um áherslur Íslands og hvernig framkvæmdinni er best háttað.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ávarpaði fundinn og þakkaði gestum í fundalok innlega fyrir þátttökuna, enda verða umræður og innlegg fundargesta nýtt við vinnslu stefnunnar.