Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Utanríkisráðuneytið

Loftslagsvænar lausnir Norðurlandanna í öndvegi í París

Fulltrúar Íslands
Ísland í París

Loftslagsvænar lausnir frá Norðurlöndunum eru í öndvegi á vörusýningunni World Efficiency, sem lýkur í dag í Porte de Versailles í París. Sýningin er haldin rétt rúmum sex vikum fyrir upphaf ríkjaráðstefnu aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP21, og gefur þar að líta ýmsar lausnir fyrirtækja sem hjálpa við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Íslandsstofa er með bás á sýningunni tileinkaðan lausnum frá íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegsklasanum. Lausnirnar byggja m.a. á betri orkunýtingu, minni olíunotkun og betri hráefnisnýtingu. Þá voru nokkrar vinnustofur um ólíkar lausnir á dagskrá, þ.á.m. ein um hringrásarhagkerfið þar sem íslenski sjávarútvegsklasinn var m.a. til umræðu.

Norræna ráðherranefndin, þar sem Danir fara nú með forystu, hefur, ásamt sendiráðum Norðurlandanna í París, haft veg og vanda að undirbúningi þátttöku Norðurlandanna á sýningunni sem gengur undir nafninu Nordic efficiency – eða norræn skilvirkni.

Dagskráin hófst með pallborðsumræðum þar sem Norðurlöndin lögðu áherslu á að fjárfesting í endurnýjanlegri orku og orkunýtni væri ekki eingöngu góð fyrir umhverfið, heldur einnig arðbær til framtíðar. Lagði Ísland þar einkum áherslu á jarðhitanýtingu.

Ségolène Royal, ráðherra umhverfismála, sjálfbærrar þróunar og orku í Frakklandi, sleit málþinginu og sagði Norðurlöndin ryðja brautina í loftslagsmálum. Jafnframt greindi hún frá nýlegri heimsókn sinni til Íslands þar sem hún kynnti sér jarðhitanýtingu og sagði jafnframt frá því að hún myndi heimsækja landið aftur með forseta Frakklands, Francois Hollande, í lok þessarar viku.  Sagði hún marghliða samstarf eins og Norðurlöndin eiga sín á milli vera þýðingarmikið, eigi samningar að nást á COP21. Norðurlöndin ryddu brautina að jafnvægi í kolefnisútblæstri til framtíðar og væru frábært fordæmi fyrir önnur lönd. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta