Menningarkynning í Moskvu
Sama kvöld, austur í Moskvu, verða tónleikar þar sem fram koma annars vegar Emilíana Torrini og hljómsveitin The Colorist og hins vegar Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur. Tónleikarnir eru skipulagðir í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Sound Up Russia, sem einnig mun gangast fyrir frekari kynningu á íslenskri tónlist í Rússlandi og ÚTON, Útflutningsmiðstöð íslenskrar tónlistar. Tónleikarnir fara fram í Kyndiklefanum (Бойлерная, Хлебозавод №9), fyrrum brauðverksmiðju sem nú hefur fengið nýtt hlutverk sem viðburðastaður fyrir fjölbreytta listviðburði.
„Nú þegar augu svo margra beinast að Íslandi – í kjölfar þessa frábæra árangurs íslenska karlalandsliðsins – gefst okkur kærkomið tækifæri til að kynna íslenska menningu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Við leggjum sérstaka áherslu á bókmenntir og tónlist að þessu sinni – og ég er viss um að þetta verður góður upptaktur að auknum menningarsamskiptum.“
Hluti þeirrar fjárveitingar sem ríkisstjórnin ráðstafaði í þetta verkefni fer í að skipuleggja læsisverkefnið Söguboltann, sem miðar að ungum áhorfendum og lestrarhestum hér heima, en menningarkynningin í Moskvu er miðuð að þarlendum markhópum.
Sendiráð Íslands víða um Evrópu gangast einnig fyrir ýmiskonar viðburðum í tengslum við þátttöku Íslands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu, þar á meðal í Osló, Stokkhólmi, Berlín og London.