Hoppa yfir valmynd
27. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 27. maí 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkar héðan af Rauðarárstígnum á þessum fallega sumardegi í Reykjavík. Af nógu er að taka þessa vikuna eins og svo oft áður.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hélt í byrjun vikunnar til Brussel og sótti fund EES-ráðsins. Samstarf Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES, Noregs og Liechtenstein, við Evrópusambandið (ESB) hefur verið náið síðustu mánuði vegna innrásarinnar í Úkraínu. „Afleiðingar tilhæfulausrar innrásar Rússa í Úkraínu hefur minnt okkur hressilega á hversu mikilvægir lýðræðislegir og stöðugir markaðir, ekki síst innri markaður EES, eru og mikilvægt að ríki sem deila gildum standi saman,“ sagði Þórdís Kolbrún á fundi ráðsins.

Ráðherra sat auk þess fundi um alþjóðamál þar sem innrás Rússlands í Úkraínu og málefni norðurslóða voru efst á baugi. Þá átti Þórdís Kolbrún, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein, fund með Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer meðal annars með málefni EES-samningsins. Þórdís Kolbrún átti einnig tvíhliða fundi með Margrethe Vestager, varaforseta og framkvæmdastjóra samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar ESB, og Adinu Vălean, framkvæmdastjóra samgöngumála í framkvæmdastjórn ESB. Þá tók utanríkisráðherra þátt í opnunarathöfn EFTA-hússins svonefnda sem tekið var í notkun á síðasta ári en þar hafa EFTA-skrifstofan, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og skrifstofa Uppbyggingarsjóðs EES aðsetur. 

Utanríkisráðherrar Eystrasaltsráðsins funduðu svo í Kristiansand í Noregi á miðvikudag. Í sameiginlegri yfirlýsingu sinni fordæmdu utanríkisráðherrarnir harðlega innrás Rússlands í Úkraínu og lýstu yfir samstöðu og algjörum stuðningi við Úkraínu. 

„Innrás Rússa í Úkraínu minnir okkur á að sameiginleg gildi okkar eru ekki sjálfgefin, hægt er að þynna þau út og glata ef við hlúum ekki að þeim og verndum. Við verðum að standa vörð um grundvallarréttindi fólks í frjálsu samfélagi og hafa í huga að það er ekki alltaf auðvelt að búa í slíku samfélagi," sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi sínu.

With foreign minister friends from #CBSS in beautiful Kristiansand in Norway where we had a wonderful tour of the old part of town. Will discuss important issues in ministerial meeting tomorrow. pic.twitter.com/oAGBPJOT2L

Á mánudag sögðum við frá útskrift Jafnfréttisskóla GRÓ. Útskrift fjórtánda nemendahóps skólans frá upphafi var fagnað í hátíðarsal Háskóla Íslands 20. maí. 23 sérfræðingar frá 15 löndum útskrifuðust og hafa nú alls 195 nemendur frá 34 löndum útskrifast frá Jafnréttisskólanum með diplómagráðu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum.

Í Heimsljósi sögðum við frá því 23. maí, á alþjóðlegum degi baráttu gegn fæðingarfistli, að samstarfsverkefni Íslands, Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og heilbrigðisyfirvalda í Síerra Leóne hefði verið formlega hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn í höfðborginni Freetown. Verkefnið miðar að því að uppræta fæðingarfistil í landinu.

Á þriðjudag sendu varnarmálaráðherrar Norðurlanda frá sér sameiginlega yfirlýsingu um eflingu norræns varnarsamstarfs. Í yfirlýsingunni fagna Danmörk, Ísland og Noregur ákvörðunum Finnlands og Svíþjóðar um að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu og boða ráðherrarnir að samstarf Norðurlandanna undir merkjum norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) verði aukið.

Þá að sendiráðum okkar vítt um heiminn.

 

Í Tókýó var Stefáni Hauki Jóhannessyni sendiherra boðið á viðburð nýsköpunarsamtaka þar sem hann ræddi jafnrétti á Íslandi.

 

Sendiráð Íslands í Ósló sagði í vikunni frá skemmtilegu ferðalagi „síðustu síldartunnunar frá Dale til Íslands. Nánar má fræðast um verkefnið á vef sendiráðsins.

 

Í New York var Eliza Reid forsetafrú heiðursgestur á viðburði Icelandic American Chamber of Commerce.

 

Í London tók Sturla Sigurjónsson sendiherra þátt í fjarfundi um reynslu Íslands af kolefnisföngun í boði Diplomat Magazine og Public Policy Projects.

Í Róm afhenti Dr. Matthías G. Pálsson, fastafulltrúi Íslands, David Beasley framkvæmdastjóra Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) trúnaðarbréf sitt við stofnunina.

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, sótti nýlega ársfund Uppbyggingarsjóðs EES fyrir Rúmeníu, en sendiráð Íslands i Danmörku er jafnframt sendiráð gagnvart Rúmeníu. Þá var opnuð fyrir viku sýningin Mens et Manus í samstarfi við Listval í anddyri sendiráðsins.

Í Berlín heimsótti María Erla Marelsdóttir sendiherra listasýningu Elínar Hansdóttur, FIVE LEAF CLOVER, í Künstlerhaus Bethanien.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta