Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Tengiráðgjafar hittu ráðherra

Guðleif Birna Leifsdóttir tengiráðgjafi í Mosfellsbæ, Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra og Bylgja Sigmarsdóttir tengiráðgjafi í Árborg og Hveragerði. - mynd

Í vikunni komu tveir tengiráðgjafar sveitarfélaga á fund með Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Á fundinn mættu þær Guðleif Birna Leifsdóttir, tengiráðgjafi í Mosfellsbæ, og Bylgja Sigmarsdóttir, tengiráðgjafi í Árborg og Hveragerði, en þessi sveitarfélög eru meðal þeirra 22 sveitarfélaga sem taka þátt í þróunarverkefni Gott að eldast.

Þær Guðleif og Bylgja kynntu fyrir ráðherra hvernig tengiráðgjafar hafa kortlagt félagslega einangrun eldra fólks og viðkvæmra hópa en hlutverk tengiráðgjafa er meðal annars að taka utan um fólk sem er félagslega einangrað eða einmana og finna lausnir sem henta hverjum og einum ásamt því að vera í góðum tengslum við staðbundna aðila til að nýta sem best þær bjargir sem fyrir eru í samfélaginu. Þá bjóða tengiráðgjafar upp á ráðgjöf um farsæla öldrun, upplýsingar um úrræði í nærsamfélaginu, mikilvægi virkni og þátttöku og fræðslu og ráðgjöf varðandi áskoranir sem fylgja hækkandi aldri. 

Tímabundnir samningar hafa verið gerðir til 12 mánaða um stöðugildi tengiráðgjafa á sex svæðum sem taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu eldra fólks. Styrkirnir voru veittir á grundvelli þess að mæta félags- og og heilsufarslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins. Liður í þeim aðgerðum hafa verið að koma í veg fyrir og draga úr einmanaleika og félagslegri einangrun viðkvæmra hópa. 

Verkefnið byggir einnig á aðgerð B.1 um vitundarvakningu um heilbrigða öldrun og A.2 um heima-endurhæfingarteymi, í Gott að eldast, aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023 – 2027.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta